„Þetta voru gleðifréttir en mikið stökk fyrir mig. Ég var ótrúlega til í þetta, fann að ég hafði eitthvað til að gefa og sá fyrir mér að ég gæti gert þetta,“ segir Birta Sólveig Söring Þórisdóttir spurð hvernig henni hafi orðið við þegar hún fékk símtalið um að hún ætti að leika Línu Langsokk í uppsetningu Þjóðleikhússins en verkið var frumsýnt á Stóra sviðinu um síðustu helgi.
Spurð hvort hún finni fyrir pressu vegna þess hve fræg Lína sé og hve þekktar leikkonur hafi túlkað hana í gegnum tíðina svarar Birta: „Pressan er eiginlega tekin af mér af því þetta er það stórt. Lína er stærri en við öll. Mér fannst eiginlega erfiðast að venjast því að röddin mín væri Lína því ég hef yfirleitt heyrt Sigrúnu Eddu Björnsdóttur og Ilmi Kristjánsdóttur leika hana. Það er svo mikið af upptökum til af þeim. En það er Lína í okkur öllum og ég er að reyna að finna mína leið að Línu. Það getur aldrei verið rétt eða rangt.“
Um þessa skrautlegu persónu Astrid Lindgren segir Birta: „Lína spyr spurninga og ögrar manni. Af hverju gerum við það sem við gerum? Hún kennir manni líka að vera óhræddur við að vera maður sjálfur. Lína er öðruvísi í heimi fullorðinna og það er krefjandi að vera öðruvísi.“
Sérðu sjálfa þig í Línu?
„Já, þegar ég leyfi mér að vera í flæðinu og hugsa ekki um hvað öðrum finnst. Á mínum bestu dögum þá er ég smá Lína Langsokkur. Ég held að allir fullorðnir einstaklingar vilji taka hana sér til fyrirmyndar og koma sér út fyrir þægindarammann. Það hefur alltaf verið markmiðið mitt. Eina ástæðan fyrir því að ég er að gera það sem ég er að gera í dag er að ég þorði að fara út fyrir þægindarammann. Pældu í því ef ég hefði ekki þorað að láta vaða,“ svarar hún.
„Ég ákvað líka í upphafi að ég myndi koma fram við þetta ferli eins og Lína myndi koma fram við það. Það lét mig slaka á þegar ég fór að verða eitthvað tens yfir því að þurfa að halda þessu öllu uppi. Þá hugsaði ég að Lína myndi ekki efast svona um sjálfa sig.“
Spurð út í hver sé lykillinn að því að ná til barna á leiksviðinu segir Birta: „Maður á ekki að gefa neinn afslátt, bara fara alla leið. Í leikhúsi er maður með barn sem situr allan tímann svo við þurfum að bera virðingu fyrir tíma þess og hafa gott flæði, skemmtun, dramatík og tempó.“ Hún bætir við að töluverður munur sé á þessari uppfærslu og þeirri fyrstu hér á landi, sérstaklega þegar komi að söng og dansi.
„Það er margt í þessari sýningu sem ég hef aldrei gert áður,“ segir hún og nefnir sem dæmi allar lyfturnar sem leikhópurinn framkvæmir undir styrkri stjórn Elmu Rúnar Kristinsdóttur sem sér um dans og sviðshreyfingar. „Elma Rún stendur sig svo ótrúlega vel. Hún er svo skýr í hugsun með hvað hún vill og er líka góður kennari. Við erum svolítið að hoppa og skoppa og við nýtum flugkerfið, svo það er margt töfrandi í sýningunni.“
Æfingaferlið segir hún hafa verið mjög gott og hrósar leikstjóranum Agnesi Wild. „Hún er alveg í sínu elementi. Hún veit hvað hún syngur, er svo slök og gerir þetta með mikilli gleði.“ Þá nefnir hún sérstaklega leikmynd Finns Arnars Arnarsonar. „Leikmyndin er algjör leikvöllur og það er svo mikið af skemmtilegum smáatriðum. Ég held að börn muni dýrka að horfa á þessa leikmynd.“
Blaðamanni leikur forvitni á að vita meira um bakgrunn Birtu og hvað hafi skilað henni á Stóra svið Þjóðleikhússins. „Ég er alin upp á Selalæk, sveit nálægt Hellu. Ég bjó þar til ég var svona 18 eða 19 ára. Við seldum búið eftir að pabbi minn lést. Þá flutti mamma á Selfoss en ég var í framhaldsskóla þar. Svo flutti ég í bæinn nokkrum árum síðar.“
Hvar kynntistu leikhúsinu? Er mikið menningarstarf á Hellu?
„Nei, það er nú ekki mikið. Minn leikvöllur var sveitin. Mamma og pabbi keyptu mikið af búningum svo við systkinin vorum dugleg að fara í þá og leika okkur úti á túni. Það var kannski mín fyrsta leikhúsreynsla. Ég fór síðan á sumarnámskeið á Hellu. Ef það var breikdans, magadans eða einhvers konar leiklistarnámskeið þá var ég mætt,“ segir Birta og bætir við að hún hafi ekki vitað hvaðan þessi áhugi hafi komið. Þetta hafi einfaldlega verið henni eðlilegt.
„Þegar ég varð eldri og komin í framhaldsskóla fannst mér þetta allt erfiðara. Mér fannst ég svo reynslulaus og var mjög óviss um hvað ég vildi í lífinu. Svo ákvað ég að fara til Danmerkur í söngnám og það breytti viðhorfi mínu til náms. Eftir það ákvað ég að reyna að afla mér reynslu hvar sem ég gat til þess að komast inn í Listaháskólann. Ég fór í Improv Ísland, á senunámskeið, tók þátt í leikfélagi á Selfossi og svo framvegis.“
Reyndist námið í Listaháskólanum vera það sem þig dreymdi um?
„Já, þetta var stórkostlegt. Ég var í frábærum bekk. Við kunnum mjög vel að vinna saman. Bekkurinn sér það versta og það besta í manni. Það er enginn sem þekkir mig eins og bekkjarsystkini mín. Þetta var rosalega krefjandi en það var gott að hafa fólk í kringum sig sem leyfði manni að vera í búblu. Þetta var ekki eins að vera að vinna hér í leikhúsinu. Til dæmis koma áhorfendur á forsýningu og general fyrir frumsýningu. Ég er óvön því. Í skólanum hélt kennarinn okkur í bómull þar til við frumsýndum. Ég var mjög þakklát fyrir að fá að læra í friði.“
Bekkurinn útskrifaðist vorið 2024 og er Birta ekki sú eina úr hópnum sem hefur fengið tækifæri innan veggja Þjóðleikhússins. Jakob van Oosterhout og Selma Rán Lima, sem leika systkinin Tomma og Önnu í Línu Langsokk, voru til dæmis með henni í bekk. Þá hafa fleiri bekkjarsystkini vakið athygli undanfarið í hinum ýmsu leikhúsum.
„Mér finnst þetta ekkert skrítið. Við nálguðumst öll námið þannig að við vorum tilbúin í allt, hvaða áskorun sem var. Ég held að það hafi verið styrkleikinn okkar. Okkur var líka kennt að bíða ekki eftir símtalinu, að einhver myndi uppgötva okkur. Við vorum hvött til að gera hlutina sjálf. Hólmfríður Hafliðadóttir bekkjarsystir mín er gott dæmi um það að skapa sín eigin tækifæri. Og ef maður fær tækifæri eins og að leika Línu Langsokk þá á maður að gera það af fullum krafti.“
Birta lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni í uppsetningu Leikfélags Akureyrar síðasta vetur. „Ég var svo heppin að fá það hlutverk mjög fljótt eftir útskrift. Þá lék ég einmitt á móti Kidda [Kristni Óla S. Haraldssyni] yndislega vini mínum. Það var rosalega gott því ég hafði aldrei unnið með virtum leikurum og fyrirmyndum á sviði. Þetta var ótrúlega skemmtilegt ferli.“
Hún hlaut Grímutilnefningu fyrir frammistöðu sína í verkinu. „Mér fannst ég skilja Auði og fannst ég ná að kjarna hana.“ Þá tók hún þátt í söngleiknum Stormi í Þjóðleikhúsinu, sem og sýningunum Yermu og Frosti. „Þetta ár er búið að vera smá klikkað. Þetta er svo rosalega mikið í einu. Ég er búin að vera ótrúlega heppin og ég veit það,“ segir hún og bætir við að hún sé að reyna að passa sig á að falla ekki í þá gryfju að gera ráð fyrir að þetta ævintýri verði bráðum búið.
„Ég verð að leyfa mér að trúa því að ég hafi eitthvað sem fólk vill sjá. Ég verð auðvitað líka að vera jarðbundin en samt ekki of hógvær heldur. Ég er að gera eitthvað sem mér finnst vera mikilvægt og kannski mun ég aldrei gera neitt þessu líkt aftur.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
