„Ég vona að fólkið sem er ósammála okkur komi og mig langar formlega hér í þessu viðtali að bjóða Snorra Mássyni á þessa sýningu. Ég held nefnilega að við Snorri séum sammála um miklu fleiri hluti en við erum ósammála um,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri Skammarþríhyrningsins, í viðtali sem birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.
Verkið verður frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld klukkan 20.
En þessi myrka og átakanlega framtíðarsýn sem þið dragið upp í verkinu. Óttist þið að hún muni rætast í náinni framtíð?
„Já, algjörlega, því það er bara að gerast í löndunum í kringum okkur. Þar er verið að afturkalla réttindi hinsegin fólks og kvenna og reka ríkisborgara úr landi af því þeir eru ekki hvítir og þóknast ekki þjóðarleiðtogum. Ef við förum að ganga á frelsi hinsegin fólks þá erum við á endanum að ganga á frelsi allra. Það er líka þessi spurning um hvort tjáningarfrelsi gangi ekki í allar áttir.
Það er mikið talað um að fólki sé slaufað fyrir að hafa „rangar“ skoðanir á hinsegin málefnum og að mannréttindabarátta okkar skerði einhvern veginn tjáningarfrelsi annarra – en hver á allt þetta tjáningarfrelsi sem verið er að verja?“ segir Gréta Kristín og tekur fram að verkefnið hafi reynst hópnum mjög erfitt.
„Þetta hefur gengið okkur mjög nærri. Við erum með taugakerfið utan á okkur eftir langt og skrýtið rannsóknarferli þar sem við höfum velt við þungum steinum, kafað ofan í ógeðslega hluti og sett okkur inn í sjónarmið sem stríða gegn okkur sjálfum, prófað svo margt skrýtið og stuðandi, setið saman í óþægindum og ávarpað beint hatursfull ummæli og lærðar röksemdafærslur gegn okkar eigin tilvist.
Við skrifuðum senu og daginn eftir kom Kastljósviðtalið með Snorra Mássyni og það var eins og Snorri hefði beinlínis verið með handritið okkar í þessu viðtali.
Það sem hefur kannski komið okkur mest á óvart er hversu heilandi verkefnið hefur verið. Ég er alla vega óskaplega þakklát fyrir að starfa með þessu hugrakka fólki og að við getum fengið útrás í skapandi vinnu til þess að melta þetta allt saman og fundið leiðir til þess að hlæja að því sem hræðir úr okkur líftóruna. Við erum líka að gera grín að okkar pólitíska rétttrúnaði því í hópnum er fólk sem er bæði listamenn og aktívistar og hefur verið í fremstu víglínu í baráttu fyrir aðgengi og réttindum fatlaðra og hinsegin fólks.
Þannig að þetta er ekki okkar fyrsta ródeó, að díla við erfiða hluti, mæta í vinnuna og hugsa hvernig við ætlum að tækla nýjustu skoðanagreinina um hinsegin fólk sem skaðlega hugmyndafræði.“
Viðtalið í heild sinni má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag sem og hér á menningarvefnum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
