„Þetta er búið að vera langt ferli en það eru fjögur ár síðan við Bjarni Snæbjörnsson frumsýndum Góðan daginn, faggi og okkur langaði strax að fara lengra í að díla við bakslagið sem byrjaði um það leyti, árið 2021. Við lögðum upp með að kafa inn í bakslagið, vera óvægin við okkur sjálf og reyna að skilja hvað væri í gangi,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri Skammarþríhyrningsins sem frumsýndur verður á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld klukkan 20.
„Með þessu verkefni viljum við mæta myrkrinu, kafa ofan í ástandið og ávarpa óttann sem er vaxandi meðal hinsegin fólks. Okkar markmið er að vinna með þessa orðræðu en það er mikið um beinar tilvitnanir í sýningunni í það sem fólk er að segja,“ útskýrir hún.
Með aðalhlutverk fara þau Árni Pétur Guðjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Embla Guðrúnar-Ágústsdóttir, Fannar Arnarsson, Kristrún Kolbrúnardóttir og Sindri Sparkle en höfundur verksins er leikhópurinn Startabenda sem var stofnaður árið 2016.
Að sögn Grétu Kristínar er verkefnið unnið í samstarfi við Borgarleikhúsið og styrkt af sviðslistasjóði og listamannalaunum, því hafi þau viljað nýta þetta tækifæri til að valdefla hinsegin fólk og hinsegin samfélagið.
„Við vorum með opnar prufur og settum saman þennan magnaða leikhóp af fólki. Sum andlitin eru þekkt og önnur eru ný. Við ákváðum að vera líka með námskeið fyrir hinsegin sviðslistafólk í samstarfi við Samtökin '78 og á sýningunni er alltaf einn gestaleikari sem kemur af námskeiðinu. Allir sem standa á sviðinu og koma að sýningunni eru hinsegin eða mjög nánir aðstandendur hinsegin fólks.
Leikhópurinn er á ólíkum aldri og kemur úr ólíkum áttum en þarna eru raddirnar sem okkur langar að lyfta. Aðalmarkmið okkar er að reyna að tala við fólkið sem er ósammála okkur og er jafnvel ósammála því að við séum til eða eigum skilið að vera til,“ segir hún svo að blaðamaður fær smá sting í hjartað.
„Við erum að reyna að spyrna á móti pólaríseringunni. Við notum orð þeirra og afstöðu, tökum hana alvarlega og veltum því fyrir okkur hvað hún í rauninni þýði. Hvað þýðir það ef þetta er satt sem verið er að segja um okkur? Hvað þýðir það ef við viljum í alvörunni banna hinsegin fræðslu í skólum, taka til baka réttarbætur og mannréttindi hinsegin fólks og fara til baka í skýrari kynjatvíhyggju þar sem karlar og konur hafa ákveðin hlutverk? Hvað þýðir það ef lögleg kyn eru bara skilgreind af ríkinu og eru bara tvö? Hvernig lítur þá heimurinn út?
Er það raunverulega það sem við viljum? Þetta er samt allt gert með brjálæðislega miklum húmor. Við gerum stólpagrín að okkur sjálfum og göngum mjög langt í afhelgun á okkar heilaga woke-vinstri málstað. Í rauninni göngum við alveg fram af okkur og áhorfendum.“
Spurð í framhaldinu hvaða áhrif hún vilji að verkið hafi á áhorfendur stendur ekki á svörum.
„Ég held að sama hvar við stöndum í þessari umræðu um hinsegin málefni, kvenréttindi, innflytjendamál eða annað þá séum við öll komin með ógeð á því hvernig umræðan fer fram. Skotgrafirnar, sundrungin, pólaríseringin – við erum öll orðin mjög þreytt á þessu.
Við erum komin með ógeð á hvert öðru og alveg sama hvar fólk er á hinum pólitíska ás þá geta allir fundið eitthvað í þessari sýningu til að hlæja að og spegla sig í. Við erum ekki að boða neinn sannleika eða niðurstöðu, við erum bara að taka þetta menningarstríð núna og kryfja það,“ segir Gréta Kristín og bætir við að sýningin sé því fyrst og fremst hrópandi spurningarmerki til allra.
„Hvert erum við að fara? Er þetta framtíðin sem við viljum? Verkið gerist í fjarlægri framtíð þar sem við göngum inn í endatakmarkið á þessu menningarstríði þar sem við hinsegin fólkið, við woke-fólkið, erum búin að tapa. Það er rosalega áhugaverður spegill, að sjá þá hugmynd verða að veruleika að woke-ið sé dautt.“
En þessi myrka og átakanlega framtíðarsýn sem þið dragið upp í verkinu. Óttist þið að hún muni rætast í náinni framtíð?
„Já, algjörlega, því það er bara að gerast í löndunum í kringum okkur. Þar er verið að afturkalla réttindi hinsegin fólks og kvenna og reka ríkisborgara úr landi af því þeir eru ekki hvítir og þóknast ekki þjóðarleiðtogum. Ef við förum að ganga á frelsi hinsegin fólks þá erum við á endanum að ganga á frelsi allra. Það er líka þessi spurning um hvort tjáningarfrelsi gangi ekki í allar áttir.
Það er mikið talað um að fólki sé slaufað fyrir að hafa „rangar“ skoðanir á hinsegin málefnum og að mannréttindabarátta okkar skerði einhvern veginn tjáningarfrelsi annarra – en hver á allt þetta tjáningarfrelsi sem verið er að verja?“ segir Gréta Kristín og tekur fram að verkefnið hafi reynst hópnum mjög erfitt.
„Þetta hefur gengið okkur mjög nærri. Við erum með taugakerfið utan á okkur eftir langt og skrýtið rannsóknarferli þar sem við höfum velt við þungum steinum, kafað ofan í ógeðslega hluti og sett okkur inn í sjónarmið sem stríða gegn okkur sjálfum, prófað svo margt skrýtið og stuðandi, setið saman í óþægindum og ávarpað beint hatursfull ummæli og lærðar röksemdafærslur gegn okkar eigin tilvist. Við skrifuðum senu og daginn eftir kom Kastljósviðtalið með Snorra Mássyni og það var eins og Snorri hefði beinlínis verið með handritið okkar í þessu viðtali.
Það sem hefur kannski komið okkur mest á óvart er hversu heilandi verkefnið hefur verið. Ég er alla vega óskaplega þakklát fyrir að starfa með þessu hugrakka fólki og að við getum fengið útrás í skapandi vinnu til þess að melta þetta allt saman og fundið leiðir til þess að hlæja að því sem hræðir úr okkur líftóruna. Við erum líka að gera grín að okkar pólitíska rétttrúnaði því í hópnum er fólk sem er bæði listamenn og aktívistar og hefur verið í fremstu víglínu í baráttu fyrir aðgengi og réttindum fatlaðra og hinsegin fólks.
Þannig að þetta er ekki okkar fyrsta ródeó, að díla við erfiða hluti, mæta í vinnuna og hugsa hvernig við ætlum að tækla nýjustu skoðanagreinina um hinsegin fólk sem skaðlega hugmyndafræði.“
Þá segir Gréta Kristín markmiðið með námskeiðinu og opnu prufunum hafa verið að gefa fleirum tækifæri á að vera í skapandi, öruggu og hugrökku rými þar sem tekið væri á þessum ótta sem hinsegin fólk finnur fyrir.
„Við finnum öll fyrir þessum ótta, að við séum að fara að missa frelsið og réttindi okkar en það sem við finnum mest fyrir er djúpt þakklæti fyrir að hafa þennan vettvang til þess að fara ofan í saumana á þessu öllu saman og reyna að gera því skil með listinni og leikhúsinu. Þessi sýning er líka ástarbréf til leikhússins sjálfs því leikhúsið bjargar okkur þó það sé fullkomlega tilgangslaust. Við notum mikið metafóruna um leikhúsið því þar framleiðum við raunveruleikann með áhorfendum okkar.
Í leikhúsi á sér stað samningur sem er ekki endilega byggður á því hvernig hlutirnir virðast við fyrstu sýn. Einhver segir eitthvað og þá er það satt af því að áhorfendur samþykkja það. Við vitum að leikarinn Fannar Arnarsson er ekki konungborinn en við samþykkjum það í leikhúsinu. Þetta er mjög góð metafóra um það hvernig félagslegur raunveruleiki okkar verður til.
Við þurfum á hvert öðru að halda til að búa raunveruleikann til saman. Af hverju ættum við ekki að samþykkja raunveruleika hvers annars? Samþykkja að einhver heiti einhverju nafni eða sé af einhverju kyni?“
Blaðamanni leikur í kjölfarið forvitni á að vita hvort leikhópurinn hyggist fara með Skammarþríhyrninginn inn í skólana eins og gert var með sýninguna Góðan daginn, faggi. Segir Gréta Kristín leikhópinn opinn fyrir öllu.
„Þessi sýning er annars eðlis. Hún er alls ekki fyrir börn og er í raun bönnuð innan 16 ára. Það væri þá frekar að við færum með hana í framhaldsskólana. Við erum alveg opin fyrir því og sjáum hvernig þetta þróast. Það var stórkostlegt að ferðast með sýninguna Góðan daginn, faggi um landið og til Skotlands og Færeyja. Við vitum svo ekkert hvað þetta dýr vill verða. Það fer eftir viðtökum og er undir áhorfendum komið hvaða líf þessi sýning mun eiga.“
Spurð að því í framhaldinu hvort verk sem þetta hljóti ekki að vera gríðarlega mikilvægt fyrir baráttu hinsegin fólks hér á landi segir hún svo vera.
„Við lítum á þetta sem tilgang okkar. Þarna fáum við sjálf að fjalla um okkar málefni. Þarna fáum við að vera rödd fyrir hinsegin samfélagið og búa til vettvang þar sem við getum fengið einhvers konar úrvinnslu á því sem dynur á okkur núna. Þar slær hjartað okkar. Ég vona að fólkið sem er ósammála okkur komi og mig langar formlega hér í þessu viðtali að bjóða Snorra Mássyni á þessa sýningu. Ég held nefnilega að við Snorri séum sammála um miklu fleiri hluti en við erum ósammála um.“
Talið berst því næst að æfingaferlinu og hvort ekki sé kominn fiðringur í hópinn fyrir frumsýningunni í kvöld.
„Heldur betur. Það hefur gengið mjög vel og við erum rosalega spennt fyrir kvöldinu í kvöld. Við höfum unnið þetta mikið í samsköpun og eigum þetta öll saman. Við stöndum svakalega þétt saman og erum orðin ofboðslega náin. Við erum náttúrlega líka að reyna að komast út úr okkar eigin búbblu. Á tímum samfélagsmiðlanna erum við alltaf að einangrast meira og meira í okkar eigin bergmálshellum. Þannig að við erum raunverulega búin að vera að stíga inn í gagnstæða póla og reyna að skilja hvað fastir pennar á Nútíma Frosta Logasonar eiga við,“ segir Gréta Kristín kímin.
„Það var rennsli fyrr í vikunni með áhorfendum þar sem við fengum að heyra að við værum eins og South Park-þáttur á sterum því við gengjum svo langt að ekkert væri heilagt. Við værum hin nýja Spaugstofa,“ segir hún svo að við skellum báðar upp úr.
„Ég held að þetta sé hollt fyrir okkur því þó það séu háværar raddir að rífast daglega á öllum samfélags- og fréttamiðlum þá er meirihluti fólks þarna mitt á milli og ég vil trúa því að fólk sé almennt gott. Við erum því að reyna að fá útrás fyrir þessa þreytu á umræðunni sem við finnum öll fyrir.
Venjulegt fólk er komið með ógeð á þessu, það er komið með ógeð á rifrildinu, ógeð á okkur hinsegin fólkinu, ógeð á Miðflokknum og woke-inu.
Í Skammarþríhyrningnum fáum við að hlæja að þessu öllu, hlæja að því sem við megum aldrei hlæja að því við erum alltaf í einhverjum baráttuham. Hér fáum við að losa um einhverja orku og spennu sem er að sundra okkur og fyrir það erum við innilega þakklát.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
