Þau sem eru sterk verða líka að vera góð. Þessi undirliggjandi boðskapur í sögum Astridar Lindgren um sterkustu stelpu í heimi á ekki minna erindi við okkur nú en þegar Lindgren samdi sögur sínar um Línu Langsokk á sínum tíma, en þess er í ár minnst að 80 ár eru síðan fyrsta bókin um Línu kom út.
Lína hefur þannig allt frá 1945 glatt unga jafnt sem aldna lesendur með uppátækjum sínum, sem fullorðna fólkið í sagnaheimi Línu sér sem óþekkt eða tilfinnanlegan skort á þekkingu á regluverki samfélagsins. Lína á það hins vegar sammerkt með Emil í Kattholti að „skammarstrikin“ eru aldrei gerð af illum hug heldur taka forvitnin, lífsgleðin, hugmyndaauðgin og sterk réttlætiskenndin einfaldlega yfir í hita leiksins. Lína er táknmynd hinnar barnslegu gleði og einlægni á sama tíma og hún er sköpunarkrafturinn sem í hverri manneskju býr, en í þeim skilningi er „Lína í okkur öllum“, eins og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, sem fer með titilhlutverkið, orðaði það í viðtali við Morgunblaðið sem birtist á frumsýningardag.
Heimurinn sem birtist leikhúsgestum á Stóra sviði Þjóðleikhússins er töfrandi, allt frá stórfenglegri og þénugri leikmynd Finns Arnars Arnarsonar, litríkum og táknrænum búningum Evu Bjargar Harðardóttur, stórgóðri lýsingu Ástu Jónínu Arnardóttur til skemmtilegrar hljóðhönnunar Bretts Smith og Þórodds Ingvarssonar. Tónlistarflutningurinn allur er til fyrirmyndar undir styrkri stjórn Karls Olgeirssonar og dans- og sviðshreyfingar Elmu Rúnar Kristinsdóttur eru sprúðlandi af leikgleði. Hestur Línu og apinn herra Níels birtast okkur sem brúður úr smiðju brúðumeistarans snjalla Bernds Ogrodnik, sem Nick Candy og fleiri leikarar stjórna með skemmtilegum hætti án þess að stela senunni.
Á umliðnum árum hefur verið gaman að fylgjast með Agnesi Wild vaxa sem leikstjóra, enda hefur hún vakið verðskuldaða athygli fyrir vandaðar barnasýningar sínar. Lína Langsokkur er þar engin undantekning enda einstaklega vel heppnuð sýning. Hér eru börnin í forgrunni, hvort heldur það eru vinirnir Lína (Birta Sólveig Söring Þórisdóttir), Tommi (Jakob van Oosterhout) og Anna (Selma Rán Lima) eða skólafélagar þeirra sem jafnframt eru þorpsbúar í litla bænum þar sem leikurinn gerist. Jakob og Selma Rán miðla vel hrekkleysinu, eftirvæntingunni og voninni sem þarf til að láta hlutverkin virka.
Fullorðnar persónur verksins eru að stærstum hluta teiknaðar ýktum skopmyndadráttum, sem skapar gott mótvægi við hina lífsglöðu og góðhjörtuðu Línu þegar hún sýnir engin merki þess að haga sér samkvæmt óskrifuðum reglum samfélagsins, hvort heldur er í skólanum þar sem kennslukonan ræður ríkjum (Eygló Hilmarsdóttir) eða í heimboði hjá mömmu Önnu og Tomma (Sigríður Eyrún Friðriksdóttir). Gaman er að sjá Ebbu Katrínu Finnsdóttur takast á við kómískt hlutverk frú Prússólín, forvígiskonu í barnaverndarnefndinni, sem óskar einskis frekar en að þvinga Línu inn í ferkantaðan ramma þjóðfélagsins. Einvígi Línu við Adolf sterka (Nick Candy) er skemmtilega útfært og gervi Adolfs afskaplega vel heppnað.
Kristinn Óli S. Haraldsson og Almar Blær Sigurjónsson gera sér mikinn mat úr lögregluþjónunum Klængi og Hængi, þar sem hinn síðarnefndi er sífellt að reyna að vera jafn strangur og félagi sinn í samskiptunum við Línu en mistekst endurtekið það ætlunarverk sitt með tilheyrandi kómískum áhrifum. Eltingarleikur þeirra við Línu sem endar uppi á þaki Sjónarhóls vakti verðskuldaða kátínu leikhúsgesta. Þeir Kristinn Óli og Almar Blær eiga það sameiginlegt með Kjartani Darra Kristjánssyni og Oddi Júlíussyni, í hlutverkum þeirra sem þjófarnir Glúmur og Glámur, að fara á kostum í slapstick-færni eins og sést vel í senunni þar sem þjófarnir tveir reyna um nótt að ræna gullpeningum Línu – en auðvitað sér hún við þeim og velur í krafti góðmennsku sinnar að hjálpa þeim í stað þess að refsa.
Framvindan fyrir hlé er vörðuð þéttri runu sprenghlægilegra atriða. Eftir hlé skiptir sýningin svolítið um takt og fær þyngri undirtón þegar söknuður Línu eftir foreldrum sínum eykst, enda mamman engill á himnum og pabbinn sjóræningi sem hún veit ekki hvort komst lífs af í sjávarháska í Suðurhöfum. Allt fer þó vel að lokum eins og vera ber og áhorfendur kveðja sagnaheiminn fullviss um að Lína eigi eftir að halda áfram að hrista upp í litla samfélaginu með óendanlegum uppátækjum sínum.
Burðarásinn í Línu Langsokk er titilpersónan sem er á sviðinu nær alla sýninguna. Því skiptir sköpum að velja í hlutverkið leikara sem getur borið uppi allt grínið og glensið samtímis því að miðla djúpum söknuði stúlkunnar rauðhærðu með flétturnar. Óhætt er að segja að Birta Sólveig Söring Þórisdóttir smellpassi inn í hlutverkið og er fyrir vikið hjarta sýningarinnar. Birta býr ekki aðeins yfir miklum sviðssjarma og barnslegri einlægni heldur ljómandi söngrödd og góðum kómískum tímasetningum sem nýtast vel í hlutverki sterkustu stelpu í heimi í þessari kraftmiklu, fallegu og litríku sýningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
