Nýhafið leikár er – nokkuð óvænt – að verða stóra gríska goðsagnaleikárið. Orfeifur snýst í nokkra hringi enn hjá Íslenska dansflokknum. Ífigenía í Ásbrú fær framhaldslíf í Borgarleikhúsinu og heimilisólukka Mýkenukonungsættarinnar heldur áfram á Stóra sviði Þjóðleikhússins á annan í jólum. Þremur mánuðum áður, upp á dag, fékk einleikur Kolbrúnar Bjartar Sigfúsdóttur upp úr örlagasögu Mídasar Frýgíukonungs sína Íslandsfrumsýningu eftir nokkra velgengni í upprunalandi sínu, Bretlandi.
Líkt og Ífigeníuverk Garys Owens er Þetta er gjöf einleikur fyrir unga nútímakonu af lægri stigum. Söguhetja Kolbrúnar er að klára framhaldsskóla, framtíðin óráðin þangað til niðurstöður lokaprófanna liggja fyrir. Hún býr með föður sínum, nokkuð sérlunduðum en elskulegum innrammara, elskar skólabróður sinn úr fjarlægð, á eina góða vinkonu og þolir ekki ríku bekkjarsystur sína – réttilega að manni finnst. Hún er klár, með sjálfs- og óöryggi í viðkvæmu jafnvægi eins og ungt fólk gjarnan. Heimur hennar fer síðan á hvolf þegar góðverk að næturþeli leiðir af sér að faðir hennar fær eina ósk. Þótt hann kunni svör við öllu í spurningakeppnunum í sjónvarpinu þá velur hann fávíslega eins og Mídas forfaðir hans forðum. Við tekur hörð og sár barátta við bölvunina sem fylgir þeirri blessun að allt sem þú snertir verði að gulli. Nákvæmlega hvað gerist í þeirri baráttu eftirlátum við leikhúsgestum.
Það er sannfæring í efnistökum og sögumennsku Kolbrúnar, hvernig hún spilar úr möguleikum og takmörkunum einleiksins. Það er
mikils af henni að vænta, sérstaklega þar sem sterkasti þáttur verksins er tvímælalaust persónusköpunin, sem mun nýtast vel ef Kolbrún kýs að færa út kvíarnar í fjölda persóna og vinna í hefðbundnara leikhúsformi. Dóttir rammasmiðsins er vel teiknuð persóna sem fær áhorfendur strax með sér í lið í þessu undarlega ferðalagi. Katla Þórudóttir Njálsdóttir á stóran þátt í þessu, með skemmtilega nærveru, í góðu sambandi við salinn, flink að gefa smámyndir af öðrum persónum og lét óvænt atvik á annarri sýningu, svo sem bras við búning og óvænt hljóð úr áhorfendasalnum, koma sér hæfilega úr jafnvægi, sem er hárrétt nálgun.
Hvað Kolbrún hefur að segja með þessari fornu sögu í nýju samhengi er síðan erfiðara að henda reiður á. Það er dálítið eins og hún hafi viljað hlaupa í nokkrar áttir í einu: gefa nútímanum goðsögulega vídd, skoða ægivald auðsins í lífi okkar og mótsagnirnar í efnahagslegu óréttlæti. Og auðvitað leggja óleysanlega þraut fyrir harmræna söguhetju. Fyrir vikið fær sýningin ekki þann slagkraft sem vænta mætti.
Tvennt annað vinnur líka á móti áhrifunum. Ég held að það hafi verið misráðið að skapa abstrakt táknrænan heim sem umgjörð, þótt augnayndi sé hjá Guðnýju Hrund Sigurðardóttur, bæði leikmynd og búningar. Árekstur hversdags og töfra sem textinn snýst að svo miklu leyti um fer fyrir vikið fyrir ofan garð og neðan.
Og eins og svo oft gerist í staðfærslu enskra verka – því Þetta er gjöf er enskt verk þótt höfundurinn sé upprunninn hér – þá skapast óþægileg gjá milli þess sem heyrum og sjáum og þess sem við vitum um samfélagið okkar. Stéttarafstaða persónanna er einfaldlega ekki trúverðug í miðborg Reykjavíkur og kippir okkur sífellt út úr innlifuninni, líkt og búningar og leikmynd. Einmitt þegar spennan milli raunsæis og goðsögu ætti að vera eldsneytið sem verkið keyrir á.
Allt um það er ýmislegt að græða á heimsókn á Litla sviðið. Skemmtilegur leikur og fyrstu kynni af nýju leikskáldi sem mikils er að vænta af.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
