Þegar ég geng út af sýningum á Jónsmessunæturdraumi hin síðari ár er hugur minn alltaf með Demetríusi og Helenu. Aðallega samt honum. Til þess að trúlofanir leikslokanna gangi upp þarf hann að eyða ævinni undir áhrifum töfrajurtar álfanna, sem beina ást hans að Helenu en frá Hermíu sem hann elskar í upphafi, meðan hann er enn „með sjálfum sér“.
Ekki það að það úi ekki og grúi af hjónaböndum í leikslokum gleðileikja Shakespeares, sem maður myndi kannski ekki endilega setja á vetur: Hvorki Bertram í Allt er gott sem endar vel né Kládíó í Ys og þys út af engu eru gæfuleg mannsefni, samanborið við hinar ágætu stúlkur sem elska þá af einhverjum ástæðum. Sebastían og Ólivía í Þrettándakvöldi þekkjast hreinlega ekki neitt þegar þau ganga í hnapphelduna.
En nóg um það. Eigum við ekki bara treysta því að virka efnið í töfrajurtinni sé án aukaverkana, vari að eilífu og valdi ekki einhverfu í afkvæmum ungu hjónanna?
Við erum stödd í Aþenu. Þeseifur hertogi er í þann mund að kvænast stríðsfanga sínum, Hippólítu, og hópur handverksmanna býr sig undir að skemmta í veislunni. Úti í skógi er hins vegar skilnaður í uppsiglingu vegna ósættis álfakonungs og -drottningar. Þangað halda síðan fjögur ungmenni, tvö á flótta undan afskiptasemi um ástarmál þeirra, hin tvö að reyna að klófesta sitt ástarviðfang. Þegar álfarnir reyna að koma á skikki í því öllu stefnir allt á versta veg. Á sama tíma nota álfakonungur og skósveinn hans forsprakka handverksleikhópsins til að klekkja á drottningunni. Allt fer vel, þó vel megi efast um það lengst af í þessari miklu og fyndnu flækju.
Jónsmessunæturdraumur er ómótstæðilegt verk. Besta leikrit heimsbókmenntanna sem endar (næstum alveg) vel? Já, það er mín skoðun. Það þarf einlægan brotavilja til að gera það leiðinlegt á sviði, og ég hef séð það gerast. Enda túlkunarmöguleikarnir nánast ótæmandi, og alls kyns blindgötur freistandi fyrir ráðríka leikstjóra.
Uppfærsla Magnúsar Thorlaciusar og Maríu Ellingsen lendir ekki í neinni þeirra. Iðandi skemmtileg, hrein og bein, sett fram „af heilum hug og góðum“ eins og Þeseifur orðar það um atlögu handverksmannanna að harmleiknum um Píramus og Þispu. Reyndar í þýðingu Helga Hálfdanarsonar en ekki Þórarins Eldjárn, sem hér er notuð. Þetta er að ég held önnur uppfærslan hér á landi þar sem þýðing Þórarins er notuð og hún er framúrskarandi leikræn og auðskiljanleg, fyrir utan vel þekkta og þrautþjálfaða bragfærnina.
Þetta er kröftug og fjörug uppfærsla, á sífelldri hreyfingu sem vinnur með styrkleika hins unga og spræka leikhóps, sem jafnframt smjattar á orðunum og hefur greinilega unnið af alúð við að skilja og miðla bæði formi og innihaldi. Stundum hefur fyrirgangurinn betur gegn framsögninni og stöku túlkunarákvarðanir eru á kostnað textaskýrleika. Almennt séð er sviðsetningin – traffíkin – áberandi vel unnin hjá Magnúsi og Maríu, væntanlega með drjúgu innleggi frá hreyfistjórnandanum Sóleyju Ólafsdóttur.
Leikgleðin – leikkrafturinn – er sérlega áberandi hjá elskendunum fjórum, sem bera hitann og þungann af framvindunni. Þau Killian G. E. Briansson, Kristín Þorsteinsdóttir, Vilberg Andri Pálsson og Sigríður Halla Eiríksdóttir standa sig með sóma. Ekki tekst drengjunum þó að berja í þann brest verksins hvað Lýsander og Demetríus eru sviplitlar – og sviplíkar – persónur. Búningarnir hefðu þarna mögulega getað hjálpað en hin annars glæsilega hönnun Írisar Ólafsdóttur steypir þá – og eiginlega persónugalleríið allt – í full-einhæft mót, þó augnayndi sé. Betur gengur stúlkunum að halda sérkennum og andstæðum væntingum Helenu og Hermíu til haga. Og eftir því sem létti á höfuðbúnaðinum og krínólínum fækkaði komumst við nær persónunum og þeirra spaugilega og grafalvarlega stríði.
Eins og svo oft voru leiðtogapörin í mann- og álfheimum túlkuð af sama leikaraparinu. Þau Jón Gunnar Vopnfjörð og Heiðdís Hlynsdóttir glansa í hlutverkum Óberons og Títaníu. Sérlega gaman er að vaxandi óþægindum Óberons yfir erótískri hamingju frúarinnar í örmum vefarans í asnagervinu, nokkuð sem ég hef ekki séð skýrar komið til skila. Rakel Ýr Stefánsdóttir er mjög handanheimslegur Búkki, sendill Óberons, en lögnin þvældist því miður fullmikið fyrir textaflutningnum. Hreyfihönnuðurinn Sóley Ólafsdóttir var álfur, og gaman var að samleik þeirra Rakelar þegar álfheimarnir voru kynntir til sögunnar.
Handverksmannaflokkurinn var fámennari en verkið gerir ráð fyrir, fjórir Aþeningar ætla hér að skemmta við brúðkaup Þeseifs og Hippólítu í stað sex. Þessi niðurskurður skildi ekki eftir sig neinar misfellur og almennt eru hóflegar styttingar textans afbragðsvel unnar og skynsamlega valdar. Freistandi að nefna dramatúrginn Eyju Gunnlaugsdóttur í því samhengi, þó auðvitað viti enginn utan hópsins hver vann þá vinnu. Þau Björk Guðmundsdóttir, Fjölnir Gislason, Níels Thibaud Girerd og Óskar Snorri Óskarsson eru kostulegur hópur. Umbreyting Bossa í asnann sem rænir hjarta álfadrottningar er vel leyst, gervi Ástu Hafþórsdóttur bæði fyndið og stuðandi, og samleikur Fjölnis við Heiðdísi sömuleiðis.
Þeim tekst síðan ekki nógu vel, frekar en svo mörgum atvinnuleikhópum, að gera uppfærsluna á Píramusi og Þispu sannfærandi fyndna. Hún virkar frekar flaustursleg miðað við nostrið og kraftinn sem einkennir sýninguna að miklu leyti.
Jónsmessunæturdraumur í Tjarnarbíói er svo sannarlega ánægjuleg kvöldstund. Metnaður á öllum póstum, ástríða og leikgleði. Og kannski ekki síst, trú á töframátt textans og sögunnar, sem skilar þessum prýðilega árangri.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
/frimg/1/60/11/1601147.jpg)