Hvers virði er ást í heimi þar sem allt er falt? Hefur aðeins vel stætt fólk efni á að fylgja hjartanu í ástarmálum? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem ósjálfrátt koma upp í hugann þegar horft er á söngleikinn Moulin Rouge! sem Borgarleikhúsið frumsýndi seint í síðasta mánuði. Þar var boðið upp á sannkallaða veislu fyrir augu og eyru undir styrkri stjórn Brynhildar Guðjónsdóttur sem sýnir enn og sannar hversu frábær leikstjóri hún er.
Söngleikurinn Moulin Rouge! er byggður á samnefndri kvikmynd Baz Luhrmann frá árinu 2001. Myndin vakti mikla athygli fyrir tilkomumikið sjónarspil, hraðar klippingar og flott dans- og söngatriði þar sem þekkt rokk- og popplög voru látin óma í París 1899.
Söngleikurinn var fyrst settur á svið vestanhafs fyrir sjö árum og rataði í framhaldinu á Broadway í New York 2019 við glimrandi viðtökur og hlaut fjölda Tony-sviðslistaverðlauna. Í framhaldinu hefur verkið ratað á svið víðar um heim, meðal annars á West End í London 2021 og nú á Íslandi.
Sem fyrr er það ástarsaga Satine (Hildur Vala Baldursdóttir) og Christians (Mikael Kaaber) sem keyrir verkið áfram af fullum þunga. Christian hefur flúið kæfandi lífið í Ameríku og flust til Parísar í hringiðu Belle époque-tímabilsins. Í París dreymir hann um að verða barn byltingarinnar, starfa sem listamaður og lifa sem bóhem, en ekki síður að kynnast ástinni. Í fátækrahverfi Montmartre hittir hann fyrir listamennina Henri Toulouse-Lautrec (Björn Stefánsson) og Santiago (Haraldur Ari Stefánsson) sem falla fyrir honum sem söngvaskáldi og fá hann til að ganga til liðs við þá í viðleitni þeirra til að semja söngleikinn Bohemian Rhapsody sem þeir vonast til að geti ratað á svið næturklúbbsins og skemmtistaðarins Rauðu myllunnar.
Þeir senda Christian út af örkinni til að heilla Satine, aðalstjörnu Rauðu myllunnar sem Harold Zidler (Halldór Gylfason) stýrir, í von um að hún vilji fara með aðalhlutverkið í nýja verkinu. Á sama tíma hefur Zidler miklar áhyggjur af erfiðri fjárhagsstöðu Rauðu myllunnar og reynir að lokka Hertogann af Monroth (Valur Freyr Einarsson) til að gerast fjárhagslegur bakhjarl staðarins og síðar væntanlegrar sýningar.
Línan milli þess að selja tælandi fantasíur og þess að fjámunir geti raunverulega keypt aðgang að annarri manneskju er fín í verkinu. Í huga Hertogans er mjög auðvelt að fara yfir þessa línu. Á sama tíma er mótstaða Satine veik, því hún veit að beygi hún sig ekki undir vald Hertogans missa vinir hennar í klúbbnum – þeirra á meðal Nini (Íris Tanja Flygenring), La Chocolat (Margrét Eir Hönnudóttir), Arabia (Esther Talía Casey) og Baby Doll (Pétur Ernir Svavarsson) – vinnuna og enda að öllum líkindum á götunni ýmist til að betla eða selja sig.
Í heimi verksins verður ástin sem Satine ber til Christians og listrænna hæfileika hans sterkasta birtingarmynd mótstöðu hennar gegn yfirgangi og valdhroka. Hertoginn getur þannig keypt sér aðgang að líkama hennar en hann fær hana hins vegar aldrei alla, því hjarta hennar tilheyrir öðrum. Líkt og Mímí í óperunni La Bohéme eftir Puccini, sem höfundar Moulin Rouge! sóttu sér meðal annars innblástur til, þjáist Satine af berklum sem að lokum verða hennar banamein. Í raun er það ekki fyrr en hún horfist í augu við eigin endalok sem Satine getur endurheimt sjálfstæði sitt að fullu í verki með orðunum: „Það á mig enginn.“
Í grunninn er sagan frekar einföld á sama tíma og vendingar í tilfinningalífi persóna eru mjög miklar. Þær hefði stundum mátt undirbyggja ögn betur af hendi höfunda til að forðast of mikla melódramatík, sérstaklega í seinni hluta verksins. Engu að síður gengur framvindan vel upp.
Í sviðsverkinu fær Hertoginn meira rými með tilheyrandi dramatík sem og leikritið í leikritinu sem á móti skapar nauðsynlegan léttleika. Handritið kemur úr smiðju Johns Logan, sem samdi meðal annars hið frábæra verk Rautt um listmálarann Mark Rothko sem Borgarleikhúsið sýndi árið 2012. Viðbætur Logans koma vel út og gefa persónum og sögunni aukna dýpt, auk þess sem tilvistarlegar spurningar um ástina, frelsið, bræðralagið og misskiptingu – hvort heldur er í París 1899 eða samtímanum – fá aukinn slagkraft.
Ljómandi góð þýðing Braga Valdimars Skúlasonar er bæði þjál í munni og bráðskemmtileg. Hann leikur sér að því að flétta inn í bæði talmálið og söngtextana glettnar vísanir í dægurlaga- og menningarsöguna við mikla kátínu leikhúsgesta. Þannig er sem dæmi vísað í fjólublátt ljós inni á diskóbar, stjarnanna her, baneitrað samband og það að ástin spyr hvorki um stétt né stöðu.
Þó tónlistin hafi leikið stórt hlutverk í kvikmyndinni fær hún enn meira vægi í sviðsverkinu (enda er söngleikurinn um klukkutíma lengri en myndin) og allmörgum nýjum lögum hefur verið bætt við. Má í því samhengi nefna „Firework“ þar sem Satine syngur um álagið sem fylgir starfi hennar og aðstæðum; „Rolling in the Deep“ þar sem Christian syngur um hjartasorgir sínar eftir að Satine hafnar honum til þess eins að bjarga honum frá grimmum örlögum af hendi afbrýðisama Hertogans og „Only Girl (In the World)“ þar sem Hertoginn klæðir Satine þannig upp að hún passi inn í yfirstéttina sem hann tilheyrir.
Á sínum stað er eftir sem áður lagasyrpa Satine og Christians með lögunum „Come What May“, „Your Song“ og „Heroes“ og Satine, hinn fagurblikandi demantur Rauðu myllunnar, er kynnt fyrst á svið með lagasyrpu sem inniheldur meðal annars „Diamonds Are Forever“, „Diamonds Are a Girl's Best Friend“ og „Material Girl“.
Borgarleikhúsið hefur á umliðnum árum sett upp nokkurn fjölda erlendra söngleikja við miklar vinsældir. Þeirra á meðal má nefna Mary Poppins (2013), Billy Elliot (2015), Mamma Mia! (2016), Rocky Horror (2018) og Eitruð lítil pilla (2024). Með uppfærslu leikhússins á Moulin Rouge! má segja að búið sé að skrúfa upp í ellefu og íslenskum áhorfendum boðið upp á stórfenglegt sjónarspil á pari við það sem best gerist á West End þar sem þátttakendur eru algjörlega jafnvígir í leik, söng og dansi.
Umgjörð uppfærslunnar, sem að hluta kemur tilbúin að utan, er öll til fyrirmyndar hvort heldur snýr að leikmynd, búningum, lýsingu, hljóði eða leikgervum. Leikmyndahönnuðurinn takis skapar tilkomumikla umgjörð sem léttilega breytist úr næturklúbbi í búningsherbergi Satine í Fílnum svokallaða. Lýsing Pálma Jónssonar skapar ávallt réttu stemninguna og gaman hvernig Christian stýrði ljósunum í frásögn sinni.
Astrid Lynge Ottosen fer afar smekklega leið í búningum sínum til að fanga fantasíuna um holdlegar fýsnir sem starfsfólk Rauðu myllunnar er táknmynd fyrir. Á sama tíma notar hún klæðnað Satine til að miðla dramatísku ferðalagi hennar gegnum verkið, allt frá glitrandi pallíettusamfellunni með fjaðrastélinu þegar við sjáum hana fyrst svífa inn á sviðið til tilkomumikla rauðbleika kjólsins á lokametrum verksins. Áhrifaríkt var einnig að sjá Hertogann klæða Satine úr fölbleikum síðkjólnum og í grásvartan hefðarkjól með löngum böndum sem táknuðu fjötrana sem hann reynir stöðugt að leggja á hana.
Tónlistarflutningurinn hjá leikhópnum öllum er upp á tíu undir styrkri stjórn Jóns Ólafssonar. Sama á við um dansana úr smiðju Kirsty McDonald sem eru kraftmiklir og seiðandi. Það rímar vel við tónlistina sem flutt er af hörkuhljómsveit, sem staðsett er smekklega sitt hvorum megin við sviðið.
Leikhópurinn allur skilar sínu með prýði. Björn Stefánsson dregur upp sannfærandi mynd af hinum óframfærna Toulouse-Lautrec sem á sama tíma er eldheitur byltingarsinni. Flutningur hans á laginu „Nature Boy“ var fallega brothættur, enda lykilsena í þeim skilningi að miðla sannindunum um það að heimsins mesti fjársjóður er að elska og vera elskaður.
Haraldur Ari Stefánsson fer á kostum sem hinn blóðheiti Santiago og dúett þeirra Írisar Tönju Flygenring í upphafi seinni hluta sýningarinnar (sem inniheldur meðal annars lagið „Bad Romance“) er hreint út sagt magnaður. Íris Tanja býr yfir miklum sviðssjarma sem nýtist vel í hlutverkinu sem Nini, sem býr yfir meiri hörku og biturð en Satine þrátt fyrir áþekk lífsskilyrði. Halldór Gylfason smellpassar í hlutverk Zidler og vel fer á því að gera hann hæfilega brjóstumkennanlegan.
Valur Freyr Einarsson nær að skapa óhuggulega kaldan Hertoga sem þjónar sögunni fullkomlega, enda alvöru illmenni nauðsynleg til að skapa réttu dýnamíkina milli persóna.
Hildur Vala Baldursdóttir og Mikael Kaaber glansa í burðarhlutverkunum sem Satine og Christian. Bæði hafa einstaklega sterka sviðsnærveru, gott vald á kómískum tímasetningum þegar það á við og stutt er í kvikuna innra með þeim sem hrífur áhorfendur til að ýmist hlæja með þeim eða gráta eftir atvikum. Á sama tíma ná þau vel að miðla hrekkleysinu sem þarf að vega þungt hjá báðum persónum til að samspilið virki.
Hildur Vala sýndi sem Elsa í Frosti á þarsíðasta leikári hvers hún er megnug á söngsviðinu og hér bætir hún um betur í krefjandi hlutverki. Mikael Kaaber vakti fyrst athygli rýnis í ungmennasýningu á vegum Gaflaraleikhússins fyrir nokkrum árum og þá þegar var ljóst að hann ætti heima á stóra sviðinu þar sem hann núna blómstrar í leik, söng og dansi.
Í ákveðnum skilningi má segja að Moulin Rouge! sé maraþon í söng og dansi, enda spannar sýningin um þrjár klukkustundir þar sem boðið er upp á hvert glæsinúmerið á fætur öðru. Á sama tíma býður sýningin upp á frábæra leiktúlkun, sem sést til dæmis á því að leikritið í leikritinu er æft nokkrum sinnum á sviðinu og í hvert sinn er merkingin í samleiknum og afstaða persóna skemmtilega ólík. Hér eins og víðar í sýningunni skín vandað handbragð Brynhildar sem leikstjóra sterkt í gegn. Henni hefur tekist að skapa kraftmikla, skemmtilega og hjartnæma sýningu sem enginn söngleikjaunnandi ætti að láta framhjá sér fara.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

