„Væri lífið ekki auðveldara ef allt væri eins og í gamla daga? Það finnst Gunnu, sem hefur tekið þá ákvörðun ásamt Jonna eiginmanni sínum að lifa lífsstíl áranna 1950-1960.“
Á þessa leið hefst lýsingin á verkinu Elskan, er ég heima? sem frumsýnt verður hjá Leikfélagi Akureyrar í kvöld klukkan 20.
„Þetta er hjartnæmt gamanverk með pínu háði líka og segir frá ungu pari sem hefur tekið þá ákvörðun að búa í fiftís-veruleika í íslenskum nútíma. Smám saman fer svo allt í vaskinn hjá þeim því við getum ekki spólað til baka í tíma. Þetta fjallar því um það hversu langt fólk er tilbúið að ganga í að reyna að stýra heiminum í stað þess að aðlaga sig honum,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og leikstjóri verksins.
„En svo skilur maður þau líka. Við erum alltaf að reyna að minnka álagið, látum nútímann og áreitið fara í taugarnar á okkur því við kunnum ekki að stjórna því og þess vegna tökum við stundum skrýtnar ákvarðanir eins og að taka bara allt út. Það þekkja þetta allir: „Ég er hætt að borða nammi, hætt á samfélagsmiðlum og svo ætla ég að hlaupa maraþon,“ í staðinn fyrir að finna hinn gullna meðalveg.“
Er þetta í fyrsta sinn sem verkið, sem er eftir breska leikskáldið Lauru Wade, er sett upp í íslensku leikhúsi. Spurð út í það hvort verkið sé að einhverju leyti ádeila á nútímann, nú eða þá gamla tímann, segir Ilmur svo vera.
„Já, á hvort tveggja. Móðirin í verkinu bendir til dæmis dóttur sinni á að það sé hlægilegt að vilja fara aftur í þennan tíma þar sem konur höfðu ekki val, urðu að vera heima og gátu ekki skilið við ómögulega eiginmenn sína því þær voru fullkomlega upp á þá komnar. Þetta sé ekki það sem hún hafi barist fyrir. Á móti segir dóttirin að hún sé nútímafemínisti, hún hafi val og þetta sé hennar val. Það er svolítið erfitt að andmæla því,“ segir hún og hlær.
„Mamma hennar vill að hún fari út að vinna og nýti háskólamenntun sína en á móti segir dóttir hennar að hún hafi verið að vinna fyrir einhverja menn sem voru að fá miklu hærri laun en hún þrátt fyrir að hún hafi séð um alla vinnuna. Og þar sem mamma hennar er gamall frjálslyndur hippi og baráttukona spyr hún hana hvort þetta sé ekki kapítalískt viðhorf, að hún eigi að fara að þræla í einhverri maskínu.
Þannig að þær hafa báðar í rauninni rétt fyrir sér sem skapar oft og tíðum kómísk móment á sviðinu. Ég get því lofað áhorfendum góðri skemmtun.“
Talið berst því næst að leikhópnum en með hlutverk í sýningunni fara þau Edda Björgvinsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Hólmfríður Hafliðadóttir, Ólafur Ásgeirsson, Urður Bergsdóttir og Vigdís Halla Birgisdóttir.
„Þetta er frábær hópur leikara sem ég er með. Þau eru mjög fyndin og skemmtileg bæði á sviðinu og utan þess. Leikritið býður upp á mjög skemmtilegar aðstæður og undirtexta og þau eru eins og krakkar í dótabúð – leika sér með tilfinningar og eru hreinlega sprúðlandi á sviðinu. Hólmfríður Hafliða leikur aðalhlutverkið og þreytir hér frumraun sína í atvinnuleikhúsi en hún útskrifaðist í fyrra. Hún er hreinlega fædd í þetta hlutverk og fólk á eftir að njóta þess að horfa á hana á sviðinu.
Svo er ég auðvitað með kanónuna sjálfa, Eddu Björgvins, sem þarf ekki annað en að birtast á sviðinu til að maður verði glaður,“ segir Ilmur og bætir því við að hún sé líka með frábæra listræna stjórnendur með sér sem sjái ekki síður um að skapa þetta listaverk.
„Börkur Jónsson hefur gert svo fallega leikmynd að leitun er að öðru eins, það langar alla að búa í þessari íbúð. Sigurjón Kjartansson sér um músíkina en ég vildi hafa þungan undirtón í anda HAM sem mótsögn við gerviveröldina sem þau búa í. Það finnst mér hafa heppnast afar vel. Björg Marta, sem sér um búninga, er svo búin að þræða allar helstu vintage-markaði í Evrópu í leit að fiftís-kjólum. Að ógleymdum ljósa- og hljóðhönnuðum og hreinlega öllu frábæra starfsfólki MAk. Það er heldur betur vinna í einni svona sýningu get ég sagt þér.“
Um er að ræða frumraun Ilmar sem leikstjóra og aðspurð hvort þetta sé eitthvað sem hún myndi vilja gera meira af í framtíðinni stendur ekki á svörum:
„Já, ég held það. Mér finnst þetta gaman og ég finn að ég hef einhverju að miðla, einmitt af því að ég hef svo mikla reynslu af því að vera á sviði. Ég hef lýst þessu þannig að þetta sé eins og að sitja í öðru sæti við sama borð. Ég þekki efnið, ég þekki tilfinningarnar og ég veit hvernig er að vera klemmdur í einhverjum aðstæðum á sviðinu svo mér finnst ég hafa aðgang að því að geta leiðbeint hópnum og skapað honum öryggi. Það er það sem ég er að reyna.
Mér finnst starf leikarans svo magnað og þegar vel tekst til þá verða til svo miklir galdrar. Það þarf að skapa aðstæður fyrir þetta,“ segir hún og nefnir í kjölfarið að kannski sé leikstjórastarfið eðlilegt framhald á því sem hún hafi verið að gera.
Þá segir Ilmur æfingarnar hafa gengið vonum framar.
„Það hjálpar örugglega líka að við erum á Akureyri og margir eru í burtu frá fjölskyldum sínum og mökum. Þannig að við erum mikið saman sem býr til góða orku sem smitast inn í vinnuna. Við erum í raun í smá svona útgerð, það er vertíð hjá okkur,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri svo blaðamaður skellir upp úr líka.
„Edda er búin að vera með jóga fyrir okkur á hverjum morgni en við búum nokkur saman svo þetta hefur verið mjög heilsusamleg samvera. Við borðum líka oft öll saman og hreyfum okkur saman svo þetta hefur verið eins og lítið heilsubæli.
En senn lýkur þessu tímabili fyrir mig, þau halda auðvitað áfram að sýna og vera saman en ég fer heim og er þegar komin með svolítinn aðskilnaðarkvíða. Mitt verkefni þessa vikuna er að sleppa tökunum, sem er hægara sagt en gert því mér finnst svo gaman að fylgjast með þeim,“ segir hún að síðustu með glettni í röddinni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
