Tveggja kvenna bandið Hljómsveitin Eva varð til á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands fyrir 12 árum. Þetta samstarfsverkefni Sigríðar Eirar Zophoníasardóttur og Völu Höskuldsdóttur vakti töluverða athygli árin á eftir. Undanfarin ár hefur minna farið fyrir hljómsveitinni en nú stíga þær aftur fram á sjónarsviðið með tónleiknum Kosmískt skítamix sem frumsýndur verður í Tjarnarbíói á morgun, föstudaginn 17. október.
Spurð hvernig samstarf þeirra Völu Höskuldsdóttur hafi hafist segir Sigríður að Vala hafi leitað til sín þegar hana vantaði einhvern til að semja með sér lag til heiðurs tíðablóði fyrir eitt verkefnið í skólanum. „Hún vissi að ég hafði fengið gítar í jólagjöf og kallaði mig þess vegna til. Ég kunni ekkert á gítar en fannst þetta svo spennandi áskorun svo ég lærði þrjú grip og við bjuggum til lag. Og hljómsveit fæddist.“
Síðustu mánuðina í Listaháskólanum hafi þær haldið áfram að semja tónlist. „Við vorum listnemar með háleit markmið svo við gerðum manifestó. Þar segjumst við ætla að búa til lög um hluti sem eiga ekki lög en þurfa lög og að hljómsveitin standi fyrir það að gera án þess að kunna. Það var endalaust af bílskúrshljómsveitum með flottum gæjum sem ákváðu bara að byrja að spila tónlist án þess að kunna á hljóðfæri og við ákváðum að vera einhvers konar fyrirmyndir fyrir konur, sýna að við gætum gert þetta líka. Sem betur fer hefur það breyst á þessum 12 árum,“ segir Sigríður.
„Allt sem hefur tengst þessari hljómsveit hefur verið í einhverju kosmísku flæði. Ég held að hljómsveitin hafi verið búin að vera til í fjórar vikur þegar okkur er boðið að taka þátt í hinsegin giggi á Kjallaranum. Við vorum beðin að flytja fimm eða sex lög en áttum bara þrjú svo við urðum veskú að semja tvö lög til viðbótar. Svo byrjuðum við að spila.“
Fyrsta verkefni þeirra Völu eftir Listaháskólann var að sjá um tónlistina í Gullna hliðinu, fjörutíu ára afmælissýningu Leikfélags Akureyrar. „Ég er enn þann dag í dag svo djúpt í hjarta mínu þakklát Ragnheiði Skúladóttur og Agli Heiðari [Antoni Pálssyni] fyrir að hafa þessa trú á okkur. Við ákváðum með kvíðahnút í maganum að fara norður til að vera tónlistarstjórar án þess að vera tónlistarkonur á þennan hefðbundna hátt. Þetta reyndist vera eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í og við enduðum á að fá Grímutilnefningu fyrir tónlist ársins.“
Svo fóru hjólin að snúast. Þær héldu tónleika, sömdu tónlist fyrir útvarpsþætti, útvarpsleikhús og sviðsetningar og gáfu út geisladisk. Undanfarin ár hefur hljómsveitin hins vegar verið í svolítilli lægð.
„Við gerum svolítið mikið úr því í verkinu. Látum eins og það hafi verið meiri lægð en það var. En raunveruleikinn er samt sá að við höfum ekki samið lag í fjögur ár. Vala sótti um styrk fyrir þessu verkefni til Sviðslistasjóðs fyrir fjórum árum. En þegar við vorum búnar að fá þennan styrk og að byrja þetta ferli þá hrundi lífið yfir Völu. Raunveruleikinn er sá að við erum búnar að vera í rúm þrjú ár að reyna að gera þessa sýningu en ítrekað þurft að fresta því vegna þess að Vala er búin að vera mjög mikið veik.“
Þær vinna með þau skakkaföll sem dunið hafa yfir í sýningunni. „Upphaflega hugmyndin í umsókninni var að gera „tragíkómískan sjálfshjálparsöngleik um erfiðustu tilfinningar manneskjunnar“. Það er kannski svolítið háleitt markmið. En við gerum það sem við lögðum upp með í umsókninni en nálgumst það á annan hátt en við ætluðum að gera í upphafi. Við tökum þessa stöðu inn í verkið, hvernig lífið fer stundum öðruvísi en maður ætlaði. Við erum að fjalla um alvöru hluti, og þá á köflum alvarlega, en nálgumst viðfangsefnið alltaf með húmorinn fremst. Við gerum grín að okkur sjálfum enda erum við þekktar fyrir að koma til dyranna eins og við erum klæddar hverju sinni,“ segir Sigríður.
„Vala skrifar mikið um það í umsókninni að hennar aðalmarkmið með þessu verki, sem og í lífinu öllu, sé að frelsa pöpulinn. Hún vill veita áhorfandanum kaþarsis, sem er orð sem birtist fyrst í riti Aristótelesar um skáldskaparlistina og þýðir viðvarandi og varanleg tilfinningaleg umbreyting. Að fólk labbi annað út úr salnum heldur en þegar það kom inn. Við erum að vonast til að hreyfa við fólki, jafnvel á djúpstæðan hátt. Það er markmiðið, sama hvort það tekst eða ekki. Þetta hefur verið markmið Völu. Mitt markmið í lífinu hefur verið að létta og gleðja. Stundum geta þessi markmið okkar haldist í hendur en stundum eru þau í miklu trássi hvort við annað,“ segir hún og hlær.
Spurð nánar út í samstarf þeirra vinkvennanna segir Sigríður: „Þetta er lítil hljómsveit og sérstaklega lítill sviðslistahópur. Við erum bara tvær. Það að vinna með bestu vinkonu sinni eru algjör forréttindi. Þetta er blessun en líka stundum algjör bölvun vegna þess að við þekkjumst svo ótrúlega vel. Þetta gefur okkur tækifæri til að hafa brestina okkar og hvernig við funkerum sem manneskjur alltaf uppi á borðum. Það er mjög hjálplegt verkfæri. Inn í sýninguna fléttast þessir þræðir líka, hvað við erum brjálæðislega ólíkar og hvað verður til þess að maður velur sér svona lífsförunaut. Þetta eru spurningar sem eiga við öll sambönd, bæði við annað fólk og við okkur sjálf.“
Hvernig sjáið þið framhaldið fyrir ykkur?
„Við erum að vona að þetta verði „comeback“. Það er markmiðið. En þetta er einmitt eitthvað sem við erum að takast á við í verkinu, hvaða væntingar við höfum til lífsins. Hvað er „comeback“? Hvað er að meika það? Hvenær er hápunkti náð? Er það þegar maður er búinn að ganga tíu sinnum á Himmelbjerget eða einu sinni á Everest? Það að setja upp þessa sýningu og gefa út lag er bara bullandi „comeback“ í mínum augum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
