Nýjasta leikrit Ólafs Jóhanns Ólafssonar, það fjórða í röðinni, er svo nokkru munar það best heppnaða af þeim sem ég þekki til. Enda hvílir það á alda-, jafnvel árþúsundagamalli hefð: að nota siðferðilega bresti fólks af betra standi sem eldsneyti til að knýja grínvélina, og afhjúpa fólkið í leiðinni sem engu skárra pakk en við hin erum.
Kannski svolítið gamaldags, en það er nú samt svolítið eins og að segja að leikhús sé gamaldags, og það viljum við ekki, þótt það sé kannski satt. Segjum frekar að hér sé stofnanaleikhús á heimavelli. Ekki ósvipað þrennunni sem Marius von Meyenburg og Benedict Andrews buðu upp á á þessu sama sviði fyrir nokkrum árum, nema bara með aðeins minni alvöruþunga.
Ekki gallalaus smíð hjá Ólafi, ef til vill af því að hann langaði bæði að sleppa og halda hvað varðar staðsetningu verksins milli gamans og alvöru. Það sést líka aðeins í steypustyrktarjárnin í fléttunni í síðasta þriðjungi. En harla gott samt, og fáir sem eru jafn trúir forminu nú til dags.
Það er uppnám í efristéttarfjölbýli við sjóinn. Einn íbúinn hefur bitið það í sig að breyta íbúðinni sinni í athvarf fyrir hælisleitendur. Sem gengur nokkuð augljóslega í berhögg við vilja og hagsmuni flestra hinna, og kannski hreinlega tilganginn með því að koma sér fyrir í nákvæmlega svona húsi.
Góðu heilli virðast húsreglurnar vera í liði með andstæðingum góðverksins og það eina sem þvælist aðeins fyrir þeim er viljinn til að virka ekki eins og sálarlaus illmenni – eða jafnvel vilji til að vera ekki sálarlaus illmenni.
En þetta er alls ekki platónsk samræða um hagsmuni og dygðir, heldur gamanleikur af gamla skólanum, svo fljótlega blandast önnur þrætuefni, gamlar ávirðingar, nútímaljóðlist, árangur af nýafstaðinni lýtaaðgerð og jafnvel vafasöm hegðun knattspyrnudrengja í mikilvægum leik annars staðar í borginni inn í átökin. Það er óhætt að segja að engin persónanna komi sérstaklega vel út úr þessu stríði, sem höfundurinn þarf fyrir vikið að binda enda á með nokkuð losaralega undirbyggðu og dálítið ófullnægjandi inngripi í lokin.
Kjarni persónugallerísins eru tvenn hjón, sem virðast stýra, eða telja sig eiga að stýra því sem fram fer í blokkinni. Marta og Heiðar, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur og Gísla Erni Garðarssyni, og Halla og Felix, sem Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors leika. Þrautreynd og fim með stjörnuáru, öll sem eitt.
Og gera vel. Baltasar Kormákur hefur augljóslega tekið þá ákvörðun að ýta á eftir gamanleikseiginleikum verksins frekar en að leita að einhverjum dýpri kjarna. Það hefur ekki þurft að segja kvartettinum það tvisvar, og mögulega tefla þær Nína og Unnur á tæpasta vað í líkamstjáningu stundum. En kalla vitaskuld fram sinn skammt af hlátri.
Gísla Erni og Birni tekst síðan ekki alveg að berja í þann brest handritsins að karlarnir tveir eru óþarflega líkir. Skýrari persónueinkenni, mögulega aðeins meiri pólarísering í viðhorfum, hefði held ég hjálpað til. Eins hefði verið fengur að meiri og skýrari statusmun í þessu gengi. Mig grunar að þarna liggi rót þess að kómedían nær aldrei alveg sleppihraða, þótt hún nálgist hann nokkrum sinnum.
Næst fjórmenningunum í fyrirferðarröð í verkinu eru þau Nanna og Andrés, leikin af Svandísi Dóru Einarsdóttur og Unnsteini Manuel Stefánssyni. Minna kómískt eldsneyti í boði, en þau standa engu að síður vel fyrir sínu, og ástæða til að óska Unnsteini sérstaklega til hamingju með áberandi vel heppnaða frumraun í nýju fagi.
Í enn styttri stund njótum við síðan tveggja stórstjarna í viðbót sem bæði gera nákvæmlega það sem til er ætlast. Það sópar að Margréti Vilhjálmsdóttur í hlutverki hugsjónakonunnar Dóru og Þröstur Leó Gunnarsson er og verður Íslandsmeistarinn í aukahlutverkum og fer létt með ólíkindatólið, stílistann og matgæðinginn Geir.
Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er fögur – gyllt búr og hæfilegt magn af húsgögnum. Veit ekki alveg með hreyfanleika bakflekanna eða höndina sem gegndi hlutverki fatahengis. Finnst þetta ekki verk eða sýning sem kallar á svona afgerandi – næstum banala – táknrænu í umgjörð, allavega bætti gliðnun veggjanna engu við áhrifin. Það er frekar að vídeófuglarnir sem svifu á gylltum veggplötunum í boði myndbandshönnuðarins Ástu Jónínu Arnardóttur hafi glatt, þótt jafnvel þeir hafi einmitt ekki gert neitt annað en að gleðja. Búningar Sunnevu Ásu Weisshappel eru sannfærandi þrátt fyrir að derhúfa Heiðars hafi stundum dregið úr tengslum við það sem sá maður var að hugsa, þótt lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar hafi einmitt verið að reyna að skapa það samband, eins og til er ætlast.
Leikstjórinn Baltasar Kormákur finnst mér hafa nálgast textann á hárréttan hátt með því að undirstrika kómíska eiginleika á kostnað annarra. Hefði mátt draga fram meiri andstæður milli persónanna, eða kalla eftir slíku frá höfundi, traffíkin á sviðinu og staðsetningar stundum aðeins of flatar og orkulausar – sem er verkefni sviðsleikstjóra á annan hátt en í kvikmyndum, og verkfærin mögulega ögn ryðguð.
Íbúð 10B er ágætlega heppnaður gamanleikur í hefðbundnu formi, með rót í bæði veruleika og staðalmyndum, eins og hefðin krefst. Vel skilað af vel skipuðum leikhópi. Fær salinn held ég seint til að sleppa sér alveg, en gleður engu að síður umtalsvert.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
