„Gesamtkunstverk“ kallaði Wagner list framtíðarinnar, og af alkunnri hógværð sín eigin sköpunarverk. List þar sem allar greinar kæmu saman í þágu mikilvægs erindis og ynnu í einingu að því að skapa umgjörð og form til að heilla og upplyfta áheyrendur.
Eftir að hljómsveitin Hundur í óskilum hóf að þróa sig sem alhliða sviðslistatvíeyki má vel halda því fram að þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson séu einmitt dæmi um það sem Wagner dreymdi um. Mögulega ekki með alveg eins háleitar hugmyndir, hvorki um sig sjálfa né erindi sitt. Og vissulega með þriðja kryddið sem Wagner skorti eiginlega alveg: húmor. Þá fyrst stendur Gesamtið undir nafni, er það ekki?
Ein af afleiðingum þess að kveðja sér hljóðs án skopskyns er að verða umsvifalaust skotspónn þeirra sem hafa það, og það hefur Wagner mátt þola alla tíð. Ekki síst fyrir sitt sextán tíma höfuðverk upp úr germönskum sagnaarfi. Og nú er hann lentur í hundskjafti. Íslenskum hundskjafti, en við teljum auðvitað að hann hafi verið að róta í okkar rófugarði, og verðskuldi hálfu meira spott fyrir vikið.
Ekki er það áhlaupaverk fyrir tvo karla að miðla þessu ferlíki, svo aldrei þessu vant er liðsauki kallaður til. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er ekki bara þrautþjálfuð leikkona heldur líka lykilmeðlimur í hljómsveitinni Heimilistónum, sem er kannski ekki öldungis fjarskyld Óskilahundunum í sinni nálgun á tónlistarsköpun. Allavega reynist þessi fimmtíu prósent fjölgun ganga öldungis þrautalaust fyrir sig.
En meira að segja Katla Margrét reynist ekki nóg, heldur þarf sviðsstjórinn Christopher Astridge að hlaupa undir bagga þegar mikið liggur við, og hefur sennilega ekki reiknað með því þegar hann réð sig til starfa í Borgarleikhúsinu fyrir margt löngu að þurfa að vera bæði Freyja Vanadís og Guðrún Gjúkadóttir einn góðan veðurdag.
Skilar þeim báðum með bráðfyndnum hangandi haus og við mikinn og verðskuldaðan fögnuð. Öll eiga leikendurnir glansnúmer og sinna hlutverkum sínum í frásagnarleikhúsforminu með sóma.
Þótt sýningin byrji í Es-dúr þá er tóntegundin lausbeislaður galgopaskapur að hætti Hundsins, með snert af þaulkóreógraferaðri fagurfræði leikstjórans Ágústu Skúladóttur. Heilt yfir myndast ánægjulega óstöðugt jafnvægi milli þessara póla, en nokkrum sinnum hallaði dálítið ískyggilega á agann.
Textinn rann ekki alveg nógu áreynslulaust á köflum upp úr Hjörleifi, sem ber mesta hitann og þyngsta þungann af sögumannsskyldunum. Á köflum voru búningaskiptingar ekki alveg komnar í það þjálfunarform að ekki þyrfti að troða smá marvaða áður en Brynhildur eða einhver Niflungurinn birtist í öllu sínu glæsilega gervi.
Auðvitað eru svona hnökrar líka hluti af gríninu í nálgun hópsins, en ég held að sýningin verði samt betri þegar þeim fækkar, sem er fyrirsjáanlegt að þeir geri.
Annað sem verður til þess að sýningin nær ekki algerum sleppihraða er efnið sjálft. Þau geta einfaldlega ekki gengið að þekkingu þorra áhorfenda á söguþræði Niflungahringsins vísri, en stór hluti af gríninu gengur út á óvænt samhengi, nýstárlegar tengingar og túlkanir, og þá er best að vita út úr hverju er verið að snúa, og hvað er verið að setja undir nýtt ljós í nýjum lit. Okkur er flestum mun meira sama um Niflungahringinn en Njálu, og ófyrirleitinn útúrsnúningur verður sem því nemur minna kikk.
Engu að síður er svo ótalmargt sniðugt í handriti, söngtextum og ekki síst lagavali Hundsins. Að kynna hinn eina sanna hring til sögunnar með tilbrigði við „Goldfinger“ úr samnefndri kvikmynd. Að nota „Hotel California“ til að gefa stemninguna á Niðafjalli til kynna. Að þurfa nánast ekkert að hnika til textanum í „Total Eclipse of the Heart“ til að mæra Sigurð Fáfnisbana. Og hvernig „Puff, the Magic Dragon“ togar ófreskjuna Fáfni niður í hæfilega stærð.
Þar hjálpa óborganlegir söngtextar Hjörleifs. Frábærlega liprir, snjallir og léttkveðnir. Nákvæmlega tónninn sem sýningin í heild slær, í skemmtilegu stríði við ævintýramennsku í hljóðfæravali og spilamennsku, sem er ein af grunnstillingum Óskilahundsins og nýtur sín vel hér. Ekki síst í stórkostlega ómstríðum málmblástursköflum, tónsnillingnum og brassistanum Wagner til háðungar, sem er alltaf þakklátt.
Umgjörðin er síðan sérdeilis glæsileg hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Búningarnir og gervin ævintýralega skrautleg og glitrandi, bakgrunnurinn einfaldur og stílhreinn. Hvort tveggja vekur ánægjuleg hugrenningatengsl við annað evrópskt menningarskrímsli: Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.
Næstum nákvæmlega hundrað árum áður en Abba sigraði með „Waterlooo“ var Wagner að frumsýna stórvirki sitt, og það var mjög við hæfi að sigursöngur Svíanna slúttaði gríninu fyrir hlé.
Ég hefði kosið aðeins meiri tilþrif í lokasöng sýningarinnar sjálfrar, hún fjarar aðeins út eftir að „feita konan syngur“. Engu að síður, þegar heilt er á litið, stórskemmtilegt tilbrigði við menningararf Norðurálfu, í gegnum tvo skrítna spéspegla, einn frá Bayreuth nítjándu aldar (sem vissi ekki að hann væri spéspegill) og annan frá íslenskum nútíma (sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera).
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
