Markús Þór Andrésson er formlega tekinn við sem nýr safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. Blaðamaður Morgunblaðsins settist niður með Markúsi og fékk innsýn í þau verkefni sem mæta nýjum safnstjóra, hugmyndir hans um safnastarfið og þær sýningar sem fram undan eru.
„Ég mun byrja á því að taka rúntinn með samstarfsfólki mínu, taka stöðuna á verkefnum þeirra og hlusta á þeirra hugmyndir. Safnið hefur verið rekið mjög vel og ég tek við góðu búi. Ólöf hafði sterka sýn og setti safninu stefnu sem hún framfylgdi í skýrum skrefum. Það er hins vegar eðlilegt að þegar maður mætir nýr til leiks þá íhugi maður hvort endurskoða megi ákveðna hluti. Sumt þarf að fínpússa, skerpa á, en annað má kannski endurskoða.
Árið í ár og næsta ár eru mótuð hvað sýningadagskrá varðar þannig að ég mun nota tímann til þess að fara í ítarlega greiningarvinnu, innra starf og leggja drög að nýrri stefnu safnsins,“ segir Markús Þór en hann tekur við starfinu af Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur. „Í sýningum hefur safnið fylgt eftir ferli listamanna strax frá upphafi og fram eftir starfsævinni. Við erum í langtímasamstarfi við Listaháskólann um útskriftarsýningar, bjóðum ungum listamönnum að sýna í D-sal sínar fyrstu einkasýningar í opinberu safni allt yfir í röð yfirlitssýninga að hausti á Kjarvalsstöðum og allt þar á milli. Við erum í stuttu máli að sinna mjög mörgu og víðtæku starfi, ef til vill er tækifæri til þess að hrista upp í því – aðstæður sem listamenn starfa við í dag eru kannski aðrar en þær voru fyrir 15 árum.“
Markús Þór segir það mikilvægt að söfn þróist í takt við samfélagið. „Það hefur augljóslega margt breyst síðan Kjarvalsstaðir risu árið 1973 og nú eru komin 25 ár síðan Hafnarhúsið var tekið í notkun. Ef maður skoðar hvernig landslagið hefur breyst á þessum 25 árum þá er það í raun algjör bylting, ekki bara hvað varðar starfsemina heldur líka listaumhverfið í heild sinni. Það þarf að leiða hugann að því hvers konar safns myndlistarsamfélagið í dag þarfnast. Það þarf til dæmis stærri og fjölbreyttari rými þar sem listamenn eru að vinna stórar innsetningar og vídeóverk sem krefjast sérstaks rýmis. Safnahúsin okkar geta ekki mætt slíkum þörfum nema að hluta til. Ef við í safninu viljum þjóna samtímalist og þróast í takt við hana þá þurfum við að geta komið til móts við umfangsmeiri verkefni. Þá vinna listamenn ekkert endilega með safnhús og sýningarstaði í huga. Ég horfi björtum augum til þeirrar ákvörðun borgarinnar sem tekin var fyrir nokkrum misserum að breyta Hafnarhúsi í hús myndlistar þannig að safnið fái aukið svigrúm fyrir sína starfsemi.
Um leið og myndlistin tekur breytingum hefur fagumhverfið eflst og styrkst, notendahópurinn hefur breyst, nýjar kynslóðir með aðrar væntingar, ólík samsetning gesta og hugmyndir um inngildingu eru allt hlutir sem þarf að taka tillit til í þróun safnastarfs. Safnið á að vera staður sem enginn veigrar sér við að heimsækja. Þá er líka mikilvægt að flytja inn alþjóðlega myndlist á háum mælikvarða. Og ekki má gleyma rannsóknarhlutverki stofnunarinnar, miðlunarhlutverki og þætti hennar í mótun faglegs safnastarfs.“
Er einhver ákveðin tegund myndlistar sem þú brennur fyrir og vilt leggja áherslu á að sýna?
„Í sjálfu sér brenn ég fyrir hinu og þessu í myndlistinni en ég lít svo á að persónuleg skoðun safnstjóra þurfi ekki að lita starfsemina í heild sinni. Ég tel mitt hlutverk fremur vera að greina þá strauma sem máli skipta hverju sinni og veita þeim brautargengi. Ég hef fengið að blómstra sem sýningarstjóri með ýmsum listamönnum og núna finnst mér ábyrgðarhluti að hleypa nýjum röddum að. Hvort heldur það snýr að nýrri myndlist eða endurskoðun á safneign eða listasögu.“
Spurður um þær áskoranir sem blasa við safnaheiminum í dag segir Markús Þór þær vera margar. „Eins og gefur augaleið þá er rekstur alltaf áskorun. En það er líka áskorun að finna sér stað í samfélaginu og gera sér grein fyrir að stofnunin er ekki fastapunktur heldur lifandi hluti af samfélaginu. Það þarf að vera hægt að sveigja starfsemina að þörfum samfélagsins hverju sinni þannig að maður einangrist ekki eða einfaldlega missi af lestinni. Það þarf að vera hægt að bregðast við umræðum í samfélaginu með t.d. vali á sýningum og innkaupum á verkum til að byggja upp kjarngóða safneign eftir því sem samfélagið þróast.“
Er staða safnstjóra eitthvað sem þú hafðir alltaf stefnt að?
„Nei, ég get ekki sagt það, að ég hafi séð þetta fyrir mér. Ég hef auðvitað haft alls konar markmið í gegnum tíðina en fyrst setti ég stefnuna á að verða listamaður sjálfur, það er minn bakgrunnur, en ég var í hópi fyrstu kynslóðar sem útskrifaðist úr listaháskólanum og þá sem listmálari. En svo, eins og gerist með fólk sem byrjar að spreyta sig, þá mótast hæfileikar og áherslur og ég var mikið í að skipuleggja og hrinda hlutum í framkvæmd. Ég sótti framhaldsmenntun í Bard College í Bandaríkjunum þar sem sýningarstjórnun er hvað elst sem háskólafag í heiminum og aðstaðan þar er mjög góð.
Þá starfaði ég lengi vel sjálfstætt áður en ég gekk til liðs við Listasafn Reykjavíkur sem deildarstjóri. Smám saman eftir nokkur ár í safnastarfi fer maður svo að sjá ábyrgðarstöðu safnstjóra sem möguleika. Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa fulla listræna stjórn og spennandi að fá að axla þá ábyrgð. Ég vil að safnið hafi skýra sýn á hlutverk sitt og sé gróðrarstöð fyrir nýja strauma listamanna, fræðafólks og sýningarstjóra. Ég er stoltur og glaður að hafa verið falið þetta starf og ég vona að sú gleði smiti út frá sér.“
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort umræðurnar á heimilinu snúist aðallega um söfn og listir en eiginkona Markúsar er Dorothée Kirch, sem starfar sem markaðs- og þróunarstjóri hjá Listasafni Íslands. „Við erum í þeim aðstæðum að vera með börn á skólaaldri og umræðurnar snúast fyrst og fremst um hversdagslega hluti fjölskyldulífsins. Við höfum því viðhaft kurteislega fjarlægð frá störfum okkar inni á heimilinu og erum ekkert að vasast hvort í annars koppi. Maður vill bara að stofnanirnar fái að njóta sín á eigin forsendum og það er ánægjulegt að skynja þá uppsveiflu sem á sér stað hjá Listasafni Íslands með nýju fólki.“
Markús Þór segir margt spennandi fram undan hjá Listasafni Reykjavíkur. „Við erum að opna níundu yfirlitssýninguna á Kjarvalsstöðum þar sem litið er yfir feril fólks sem er á hápunkti síns ferils. Nú er komið að Kristínu Gunnlaugsdóttur og það hefur reynst mjög skemmtilegt verkefni. Ég hafði ekki unnið með henni áður en hún er listamaður sem gengur stöðugt í endurnýjun lífdaga. Hún er voguð og tekur skref sem kunna að virka eins og frávik frá línulegri framvindu en það er hennar náttúra að ögra sjálfri sér. Nú er hún á fullri vegferð að einbeita sér að abstrakt verkum og verkin eru mjög spennandi. Sýningin ber heitið Ósagt sem nær utan um það hvernig myndlistin virkar sem tjáningarmáti um hluti sem geta t.d. falið í sér að segja of mikið eða of lítið.“
Fjórða október verður opnuð stór sýning á verkum Steinu Vasulka í samstarfi við Listasafn Íslands. „Það er mikið ánægjuefni að við höfum getað sameinað krafta okkar, ég er mjög áhugasamur um hvers konar samstarf. Þannig höfum við slagkraft í að gera Steinu hátt undir höfði og kynna verk hennar fyrir þjóðinni. Ég er viss um að fólki kemur á óvart hversu afkastamikill og áhrifamikill listamaður hún er og mikilvæg rödd í þróun stafrænna miðla. Það er áhugavert að rýna í vinnuferli Steinu og Woodys þar sem þau voru bara að gera sínar tilraunir og svo komu kannski listaverk út úr þeim tilraunum sem gripin voru á lofti, fryst í tíma, dregin inn í safn. Þetta er þvert á það sem við þekkjum í dag þegar listamenn eru orðnir mun „faglegri“ í vinnubrögðum, það er að segja hlutur framsetningar og sýninga er óhjákvæmilegur þáttur sköpunarferlisins. Þá tala verkin líka inn í samtímann, um mátt vélarinnar og hvernig við eftirlátum vélum og tölvum ýmsa mannlega eiginleika.“
Það hlýtur að hafa verið krefjandi verkefni að setja saman umfangsmikla sýningu sem krefst mikillar tæknilegrar forvörsluþekkingar?
„Já, algjörlega. Hér erum við að gera hluti á skala sem við gerum alla jafna ekki. Það þurfti til dæmis að fara í mikla vinnu við að finna gömul sjónvörp og önnur tæki til að sýna verkin en til allrar hamingju var búið að gera mestu forvinnuna í Bandaríkjunum, en sýningin er að upplagi til sett saman af MIT List Visual Art Center og listasafni í Buffalo AKG Art Museum. Þessi söfn lögðust í þá miklu vinnu að finna endanlegu útgáfu hvers verks en það gat verið mjög fljótandi að finna út úr því. Við bætum svo fleiri verkum við sýningu þeirra með aðstoð Vasulka-stofu og einnig í góðu samstarfi við Berg Contemporary sem hefur gert mikið fyrir Steinu og verkin hennar. Allir, hvort heldur einstaklingar eða stofnanir, koma að þessu verkefni með sama markmiði – að gera veg Steinu sem mestan.
Eftir áramót sýnum við svo framlag Arnhildar Pálmadóttur til Feneyjatvíæringsins í arkitektúr. Það er áhugavert bæði fyrir þær sakir að þarna er Ísland að taka þátt í fyrsta sinn og svo er verkefnið afar merkilegt en það snýr að því hvernig hægt er að nýta fljótandi hraun til byggingar. Þá er þetta sjónrænt séð mjög áhrifaríkt. Guðrún Kristjánsdóttir verður með sýningu sem og Katrín Elvarsdóttir sem sýnir ný ljósmyndaverk. Þar mun hún beina sjónum að gróðri, bæði útlitslega en líka hugmyndafræðinni þar að baki og speglar á skemmtilegan hátt umræðuna sem á sér stað í samfélaginu um fólksflutninga, alþjóðavæðingu og hvað það þýðir að festa rætur. Á vormisseri verða loks nýjar sýningar í D-salnum en þar munu þau Hugo Llanes og Kristín Helga Ríkharðsdóttir sýna verk sín,“ segir Markús Þór að lokum um komandi starfsár.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
