Fimm einkasýningar, sem eru sagðar eiga það sameiginlegt að varpa ljósi á dulda fleti tilverunnar, verða opnaðar á morgun í Listasafni Árnesinga. Listamennirnir eru ólíkir en þeir eru Finnbogi Pétursson, Freyja Eilíf, Guðrún Kristjánsdóttir, Ilana Halperin frá Bandaríkjunum og Piotr Zbierski frá Póllandi.
„Öll eru þau að vinna með eitthvað dulið,“ segir Kristín Scheving safnstjóri. „Við val á sýningum finnst mér alltaf skemmtilegt að það sé einhver þráður sem tengir sýningarnar saman. Það er erfitt að útskýra það en ég vinn mikið út frá innsæinu. Þegar ég hef hitt listamennina á vinnustofum þeirra fer af stað samtal og einhvers konar djúprannsókn hjá mér og ég finn hvernig hlutirnir passa saman. Svo þegar nær dregur og styttist í að sýningarnar verði tilbúnar í sölunum þá finn ég að þetta virkar og flæðir vel. Samsetning listamannanna er áhugaverð en á sama tíma er þetta tilraunastarfsemi því ég hef aldrei séð þessa listamenn áður saman í rými.“
Á sýningu sem ber heitið Skjálfti verður Finnbogi með tvær innsetningar sem má upplifa sjálfstætt. Sú fyrri byggist á spegli þar sem listamaðurinn hefur mótað umhverfi sem einkennist af eins konar tilraunakenndri samsetningu af rafsegulbylgjum. Seinni innsetningin snýst um rautt duftker sem tengist grafreit sem er staðsettur í Svarfaðardal nálægt Dalvík. Kristín segir að sýning Finnboga sé mjög persónuleg. „Hann er þarna meðal annars að heiðra minningu tengdaföður síns, Ragnars Kristjáns Stefánssonar, sem einnig er þekktur sem Ragnar skjálfti og var okkar helsti jarðskjálftafræðingur. Þeir höfðu verið að vinna saman að sýningu þar sem ætlunin var að sækja innblástur í jarðfræðilega virkni svæðisins og skapa verk þar sem notast var við skjálftamælitæki, m.a. tæki sem Ragnar sjálfur hafði þróað. Því miður féll svo Ragnar frá á síðasta ári en það er óhætt að segja að þetta er mjög áhrifamikil innsetning.“
Sýning Guðrúnar ber heitið Umritanir; innsæi – útsýni og er í sýningarstjórn Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur. „Það er mjög mikil dýpt í verkunum hennar en þar er hún að vinna t.d. með tímann og áhugaverð efni eins og surtarbrand. Eins er Freyja Eilíf mjög áhugaverður listamaður. Þetta er hennar fyrsta sýning í listasafni en hún hefur komið víða við og meðal annars gert skúlptúra oft með ágengum pólitískum skilaboðum. Síðustu árin hefur hún stundað rannsóknir á „andlega sviðinu“ og farið til Norður-Ameríku til að hitta vísdómsfólk meðal frumbyggja og hefur lagt sig eftir að skoða sjamanisma meðal ýmissa þjóða. Smám saman hafa þessar rannsóknir skilað sér inn í listsköpun hennar eins og sjá má á þessari sýningu sem heitir því fallega nafni Himnugöt.
Sýning Piotrs Zbierski heitir hins vegar Stöðugt völundarhús. Zbierski er frá Póllandi en býr bæði hér og í Póllandi. Það sem Piotr leggur til í verkum sínum er að ljósmyndun snúist síður um að festa tímann og meira um að ganga inn í hann. Síður um minningu sem hlut og frekar um minningu sem miðil.
Loks má nefna sýningu Ilönu Halperin en hún er skosk/bandarísk og mikill aðdáandi Íslands. Verk hennar einkennast af stöðugum og djúpum áhuga á jarðfræðilegri fagurfræði þar sem hún sameinar mannlega nálægð og ljóðræna sýn á mælingar og skilning á svokölluðum „djúpum tíma“. Hún fæddist sama ár og Eldfell gaus á Heimaey og hefur frá því seint á tíunda áratugnum reglulega dvalið á Íslandi í tengslum við rannsóknir sínar og tengir einnig verkin við plánetuna Mars.
Í tengslum við sýningarnar verðum við með mjög þétta dagskrá af viðburðum og fræðslu. Í krakkahorninu verður börnum boðið að vinna út frá hugleiðingum Halperin um Mars og jarðfræði. Þá verður vinnustofa þar sem fólki verður kennt að búa til eigin liti líkt og Guðrún gerir í eigin verkum. Með þessum hætti reynum við að tosa það sem er að gerast inni í sölunum út í fræðsluna en við fáum marga skólahópa og förum einnig í heimsóknir í skóla.“
Spurð að því hverju gestir megi eiga von á eftir áramót segir Kristín það verða krefjandi sýningar. „Þetta verða sýningar úr allt annarri átt en núna í haust. Sýningarnar eru erfiðari á margan hátt og svolítið pólitískar. Einn listamaðurinn er frá Líbanon og hann er að fást við stríðsástandið í heimalandi sínu. Vinnutitill sýningarinnar er Toxic Ground og verður mjög forvitnilegt að sjá hana verða að veruleika.“
Safnið hefur verið á mikilli siglingu undanfarið, hvernig sérðu fyrir þér að það þróist áfram?
„Ég finn fyrir miklum meðbyr og gestatölur hafa aukist jafnt og þétt frá ári til árs. Við erum að byggja á mjög sterkum grunni sem skiptir máli og ég hef heyrt að fólki finnist við vera að gera góða hluti og að þetta sé orðið að mjög skemmtilegu og fallegu safni. Sjálf hef ég mikinn áhuga á andlegum málum og vinn mikið með listamönnum sem vilja vera heilandi afl í samfélaginu og ég trúi því að við séum að búa til rými þar sem er pláss fyrir öll.
Fyrir tveimur árum fórum við í samstarf við Garðyrkjuskólann á Reykjum og ég fékk Eddu Kristínu Sigurjónsdóttur með mér í lið til að hlúa að lóðinni í kringum safnið. Hugmyndin er að garðurinn verði staður til að dvelja á og borða það sem ræktað er þar. Nemarnir í garðyrkjuskólanum hafa til dæmis útbúið beð þar sem eru bara plöntur sem má borða og einnig er búið að gróðursetja berjarunna. Þá ætlum við að búa til eigið te sem verður til sölu í safnbúðinni. Gestir geta þá farið á sýningar og drukkið heimagert te í garðinum. Þá er ég einnig byrjuð að ræða við listamenn um að búa til listaverk fyrir garðinn en nú erum við með útilistaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur og Kristin Pétursson,“ segir Kristín að lokum en sýningarnar fimm í Hveragerði standa til 23. desember.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
