Framleiðendur heimildarmyndar um naívistann Eggert Magnússon (1915-2010) leita nú logandi ljósi að málverkum eftir Eggert í einkaeigu.
„Hann er án efa einn merkilegasti málari þjóðarinnar af þessari grein myndlistarfólks sem er algerlega ómenntað í myndlist en málar af innri þörf og nær stundum undraverðum árangri eins og í tilviki Eggerts,“ segir meðal annars í kynningartexta frá aðstandendum myndarinnar. Engin formleg skrá er til yfir verk listamannsins og því mikilvægt að þeir fái upplýsingar um verk í eigu almennings.
Reykjavík films framleiðir myndina með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og verður hún sýnd í Bíó Paradís og á RÚV. Björn B. Björnsson framleiðir myndina en handritið skrifar hann með Hörpu Björnsdóttur myndlistarmanni.
„Ekki hefur áður verið gerð góð grein fyrir ævi og myndlist Eggerts í mynd eða á bók og því er sannarlega tími til að þessum merka listamanni séu gerð góð skil,“ segja aðstandendur myndarinnar.
Þá kemur fram að Eggert hafi verið sjómaður og ekki farið að mála fyrr en á sextugsaldri en hafi notið mikilla vinsælda síðustu árin. Fjallað verður um ævi Eggerts fram að myndlistarferlinum í fyrsta hluta myndarinnar. Sagt verður frá uppvexti hans í Laugardalnum, vinnu hans á sjó og ferðum hans út í heim. Hann vann um tíma í Afríku við að kenna fiskveiðar og er sú dvöl sögð hafa haft mikil áhrif á hann.
Í öðrum hluta myndarinnar verður sagt frá myndlistarferli Eggerts eftir 1965 þegar hann hélt sína fyrstu sýningu í Lindarbæ. Mun það hafi valdið honum vonbrigðum að hún hafi ekki hlotið athygli og liðu 17 ár þar til Eggert sýndi næst í Djúpinu í Hafnarstræti árið 1982.
„Eggert var þá hættur að vinna og sneri sér alfarið að myndlistinni sér til ánægju og að eigin sögn til að drýgja tekjur sínar því eftirlaunin voru heldur rýr. Næstu áratugi hélt Eggert áfram að mála og sýna með reglulegu millibili og eignaðist fjölmarga aðdáendur fyrir sinn einlæga og barnslega stíl og fallegar litasamsetningar. Gagnrýnendur tóku honum einnig opnum örmun,“ segir í kynningartexta.
Þriðji hluti myndarinnar mun fjalla um myndlist Eggerts, viðfangsefni hans, stíl og stöðu í íslenskri myndlist. „Eggert hafði sérstakan áhuga á dýrum og málaði þau oft. Stundum eru þau falleg og friðsæl en einnig málaði hann hættuleg villidýr sem ráðast á fólk. Barnæska Eggerts og ættingjar hans voru einnig vinsælt viðfangsefni sem og atburðir úr sögu Íslands og samtíma Eggerts.“
Til eru viðtöl við Eggert sjálfan og þá verða í myndinni jafnframt viðtöl við fólk sem á myndir eftir hann.
Hafi lesendur upplýsingar um verk eftir Eggert má hafa samband við kvikmyndagerðarfólkið á Facebook-síðunni „Átt þú málverk eftir Eggert Magnússon?“ eða í tölvupósti á info@reykjavikfilms.com.