Hátíðin Sequences Real Time Festival verður haldin dagana 10.-19. október í miðbæ Reykjavíkur og er yfirskrift hátíðarinnar Pása.
Verður á henni boðið upp á fjölbreyttar upplifanir í formi samtala, gjörninga, sýninga og annars konar viðburða, að því er fram kemur í tilkynningu.
Daría Sól Andrews er sýningarstjóri hátíðarinnar að þessu sinni. Hún er spurð að því hvaða hátíð þetta sé, fyrir þá sem ekki þekkja til hennar nú þegar. „Sequences er myndlistartvíæringur sem fer núna fram í tólfta skipti og er listamannarekin hátíð í eðli sínu og var stofnuð af Kling & Bang, Nýlistasafninu og svo er Myndlistarmiðstöð stofnaðili líka,“ svarar Daría.
Síðustu ár hafi hátíðin verið haldin annað hvert ár og sé því tvíæringur sem á ensku heiti Sequences Real Time Festival. „Áherslan hefur verið svolítið á að hugsa um tíma í myndlist og að sýningarstjórar komi hverju sinni með sína nálgun á „real time“ í myndlistinni, hvernig það sé skilgreint innan hennar. Stundum hefur verið lögð meiri áhersla á vídeólist, bókstaflega, eða gjörninga og stundum er þetta meira „conceptual“, eins og er kannski hjá mér í þetta skipti,“ segir Daría. Verkin eiga því sameiginlegt að vera sköpuð í rauntíma og segir Daría hátíðina fyrst og fremst myndlistarhátíð og tvíæring.
Hátíðin var síðast haldin fyrir tveimur árum og hefur hún alltaf verið haldin í október. Fyrst var hún haldin árlega en er nú tvíæringur, sem fyrr segir, sem Daría segir gefa skipuleggjendum meiri og betri tíma til undirbúnings.
Hún er spurð að því hvort sú breyting hafi skilað sér í betri hátíð og svarar játandi. „Maður verður að vinna svona verkefni svo langt fram í tímann og ég held að það hafi gert mjög góða hluti fyrir hátíðina.“
Í tilkynningu segir að boðið verði upp á fjölbreyttar upplifanir í formi samtala, gjörninga, sýninga og annarra viðburða. Daría er beðin um að gefa dæmi um slíkar upplifanir og fjölbreytni þeirra.
„Um opnunarhelgina verða tvær samsýningar opnaðar, í Marshallhúsinu og Norræna húsinu. Samhliða þessum sýningum verðum við með fjölbreytta dagskrá með gjörningum og viðburðum. Um opnunarhelgina mun Rósa Ómarsdóttir danshöfundur frumsýna nýtt dansverk, á laugardegi. Það verður gjörningur í Hvammsvík sem er eftir listamannadúó, Maju frá Finnlandi og íslenska listakonu, Hrefnu Lind. Þetta er hugsað sem flotviðburður þar sem fólk er að fljóta og það er ákveðið „soundscape“ sem fylgir verkinu og performans,“ segir Daría. Hér er því um þátttökugjörning að ræða.
„Síðan er matargjörningur,“ heldur Daría áfram, „viðburður með listamanninum Hugo Llanes og konu sem heitir Catherine Rivadeneyra Bello sem er kokkur. Það verður sitjandi kvöldverður með listrænum áherslum sem fer fram í Safnahúsinu.“
Llanes og Bello eru frá Mexíkó og verður maís eitt helsta innihaldsefni matarins sem borinn verður fram og tónverk og tónlist munu einnig koma við sögu.
Þarf fólk að óttast að verða dregið inn í einhvern gjörning? Nú spyr ég fyrir þá sem eru með sviðsskrekk ...
„Nei, það er ekki verið að leggja áherslu á þannig viðburði að þessu sinni, þetta á að vera notalegt og rólegt umhverfi,“ svarar Daría að bragði.
Annað verk, rúmlega þriggja klukkustunda langt dansverk, verður flutt á hátíðinni og gestum heimilt að koma og fara að vild á meðan á flutningi þess stendur og listamannahópurinn Lucky 3 verður með fimm klukkustunda langan gjörning í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Einnig býður ilmvatnsgerðin Fischersund upp á upplifunarsýningu í galleríinu Kling & Bang og mun bjóða upp á svokallað „sound bath“, þ.e. „hljóðbað“, viðburð þar sem tónlist, ilmur og vídeólist renna saman í „dáleiðandi og rólegri stund“, eins og Daría lýsir henni. Og er þá ekki allt upptalið.
Allar frekari upplýsingar er að finna á vef hátíðarinnar á slóðinni sequences.is, og skal tekið fram að á suma viðburði þarf að bóka miða eða skrá sig.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
