„Þetta er mjög merkileg tilfinning. Ég hef þó alltaf vitað það, alveg frá upphafi ferils, að einhvern tímann yrði gerð stór sýning. Þetta er svo mikið lífshlaup hjá mér og þetta er langstærsta sýning sem ég hef komið að,“ segir Steina (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir en einnig þekkt sem Steina Vasulka) en nú stendur yfir umfangsmikil sýning á verkum hennar í tveimur stærstu listasöfnum Íslands, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur, undir yfirskriftinni Steina: Tímaflakk og stendur til 11. janúar í báðum söfnum. Sýningin var upphaflega sett saman af MIT List Visual Art Center og listasafni í Buffalo AKG Art Museum en Pari Stave og Markús Þór Andrésson eru sýningarstjórar sýningarinnar hér á landi.
Steina er almennt talin einn helsti frumkvöðull á sviði vídeólistar í heiminum og er þetta fyrsta stóra yfirlitssýning á verkum hennar á Íslandi. Steina segir að það sé sér mikils virði að sýning sem þessi sé gerð á Íslandi. „Ég tók eftir því, með þessari tvöföldu sýningu, að þetta er land mitt og þjóð. Það breytist ekkert.“
Saga Steinu er afar áhugaverð en hún er fædd árið 1940, lærði fiðluleik í Prag á tímum kommúnismans þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Woody Vasulka. Þau fluttu til New York og hófu að gera framsækna vídeólist auk þess sem þau stofnuðu The Kitchen sem var vinsæll sýningar- og samkomustaður fyrir hljóð- og myndbandslistamenn í New York. Ýmsar goðsagnakenndar stjörnur urðu á vegi þeirra eins og til dæmis Andy Warhol og Jimi Hendrix. Steina var innan við tvítugt þegar hún flutti til Prag á námsstyrk til þess að læra fiðluleik.
Hvernig fannst þér að búa í Prag á tímum kommúnismans?
„Það var mjög gott fyrir mig og gjöfull tími. Ég lifði góðu lífi, fékk mánaðarleg laun og miða fyrir hádegismat. Ég svindlaði mér inn á tónleika líkt og ég hafði gert á Íslandi og fór á alla þá tónleika sem ég vildi. Allir sem ég umgekkst voru hágáfaðir og afar stoltir af landi sínu. Þá voru þeir sérstaklega stoltir af byggingararfleifðinni og þeim byggingum sem þeim tókst að hlífa í stríðinu. Það er oft sagt að hver Tékki sé músíkant og það er bara svoleiðis. Þarna vita allir allt um tónlist og það er svo mikil ástríða gagnvart tónlistinni. Ég hitti mjög marga hæfileikaríka listamenn og var alltaf svo hissa á því af hverju þeir komu ekki bara allir vestur og urðu ríkir en þeir gerðu það ekki.
Ég man líka hvað það var mikil reiði í mörgum að vera komnir undir stjórn kommúnista. Þeir voru alltaf að tala um þessa fjandans kommúnista sem væru búnir að breyta þessu og hinu. Ein breytingin var t.d. mjög sár fyrir þá og það var þegar ákveðið var að bæta við orðið „socialist“ í landsheitið Czechoslovak Socialist Republic (CSSR). Af hverju voru þeir að bæta þessu við? „Við erum engir sósíalistar og viljum ekkert með þetta hafa,“ sögðu þeir við mig. Þeim þótti það líka sárt þegar löndin voru aðskilin eftir fall kommúnismans. En enginn vill láta aðra stjórna sér. Það er bara prinsipp sem ég tel að búi innra með manni strax frá fæðingu.“
Ertu einhvern tímann pólitísk í list þinni?
„Nei, aldrei í listinni. Það kemur því ekkert við. Listin er frá sálinni. Listin er andleg og hærra en allt annað.“
Aðspurð hvort hún hafi verið smeyk við að fara úr því að vera fiðluleikari í það að gerast vídeólistamaður – listgrein sem kannski fáir höfðu skilning á, segist Steina aldrei hafa velkst í vafa.
„Ég byrjaði í Soho að taka upp, það var mjög framandi fyrir mig og gaman því ég vissi ekki neitt og Woody sagði alltaf við mig: „Do it yourself, woman!“ – Tékkar eru svolítið þannig,“ segir Steina og hlær.
„Við vorum bara að leika okkur. Við höfðum nóg fé og bjuggum í ódýrri íbúð þannig að við gátum gert það sem við vildum. Þegar við fórum að verða blönk tók Woody að sér ýmis upptökuverkefni. Í raun má rekja innkomu mína í listina þegar Woody var beðinn af samstarfsmanni að taka upp Jethro Tull og svo hljómleika með Jimi Hendrix. Ég varð alveg gagntekin af þessu og hugsaði með mér hvað væri ég eiginlega að gera að spila á fiðlu þegar ég gæti verið að spila á þetta allt saman?“
Var þetta einhvern tímann hark?
„Nei, við urðum strax mjög vinsæl, að einhverju leyti út af því að við stóðum utan við hinn almenna listaheim. Við vorum bæði með og ekki með því við vorum útlendingar. Margir voru mjög hrifnir af því hvað við vorum öðruvísi og við fundum aldrei fyrir neinni mótstöðu nema þá frá kvikmyndagerðarmönnum sem skildu ekkert í því hvað við vorum að gera með þessi hræðilegu tæki sem höfðu litla mónitora, allt í svarthvítu og biluðu oft. Þeir sáu bara ókostina og fundu okkur allt til foráttu. Við Woody urðum hins vegar fljótt eins konar mamma og pabbi í þessum geira og eftir að Woody féll frá þá var það næstum yfirþyrmandi hvað margir komu til mín og töluðu um hvað við hefðum breytt viðhorfi þeirra til lífsins og orðið til þess að þau lifðu lífinu eins og þau gerðu.
Þegar við þurftum að afla tekna þá fréttum við af því að hægt væri að sækja um styrki til New York State Council on the Arts. Þau höfðu aldrei heyrt um vídeólist og þurftu að senda mann til þess að skera úr um hvort þetta gæti talist list. Sá maður gaf blessun sína og þá máttum við sækja um styrki og töldumst listamenn. Fyrir okkur var Ameríka svo skrítið land. Þarna var hægt að gera allt, sækja um peninga og fá þá. Ólíkt því sem ég átti að venjast frá Íslandi á tímum þar sem var ekki viðlíka kerfi heldur frekar þannig að þeir sem höfðu gaman af Kjarval keyptu sér Kjarval. Það var lítið meira.“
Er eitthvert eitt verk í sérstöku uppáhaldi?
„Nei, ekkert frekar. Ég er eins og móðir með mörg börn, ég elska þau öll þegar þau eru tilbúin.“
Kom aldrei neitt annað til greina en að vera listamaður?
„Nei, ég gerði samt allt sem íslenskir krakkar gera, var í sveit og lærði heyskap. Enn þann dag í dag, þegar það koma einhverjir og vilja vera með og hjálpa, þá vil ég vita hvaða menntun þeir hafa. Ef þeir eru bændur þá segi ég já því að bændur kunna allt og vita allt. Ef það þarf að laga eitthvað þá bara laga þeir það.
En ég hef alltaf verið frábrugðin öðrum og blessunarlega skildu foreldrar mínir mig þó ég viti ekkert hvernig stóð á því. Ég á t.d. tvær systur sem eru afar fínar og fallegar og miklar fyrirmyndir fyrir mig en ég hef aldrei farið að þeirra fordæmi. Mig langaði til dæmis aldrei að eignast börn og langaði heldur aldrei sérstaklega að vera kona. Það er samt alveg eins gott og að vera karl.“
Hvað myndir þú ráðleggja ungum listamönnum í dag?
„Gæði. Ef listamenn geta ekki komið einhverju til skila þá munu þeir fjara út. En ég myndi aldrei ráðleggja neinum nákvæmlega hvað þeir ættu að gera í listinni, það kemur ekki til greina. Þegar ég kynntist Woody þá féllum við saman að öllu leyti, höfðum sömu fagurfræði og sömu lífsviðhorf, nema Woody bætti við einu, að gera engar málamiðlanir með gæði.“
Þú hefur hingað til alltaf starfað undir listamannsheitinu Steina Vasulka en nú stendur bara Steina í sýningartextanum. Hvað veldur?
„Málið er að ég var skírð vitlausu nafni. Ég var skírð Steinunn Briem Bjarnadóttir, mér líkaði það ágætlega en svo þurfti ég að fá nýtt vegabréf og þá var engin leið að koma þessu langa nafni fyrir. Ég féllst því á að sleppa Briem, sem ég hefði aldrei átt að gera. Í Bandaríkjunum er ég svo Vasulka og mér líst bara ekki á það. Vasulka er ágætis nafn en bara ekki mitt nafn. Þetta er í raun ofbeldi sem hefur beinst sérstaklega að konum. Þær fara frá því að vera eigindómur föður í að vera eigindómur eiginmanns.
Svo er Steinunn mjög erfitt nafn fyrir útlendinga að bera fram og margir fóru að kalla mig Islandianca og mér fannst það gott nafn sem tekur íslenskri beygingu og enn þann dag í dag kallar fólk mig því nafni. Mér fannst ég samt ekki geta heitið því nafni þannig að ég fór að kalla mig Steinu. Ameríkanar eru þannig að það verða allir að bera tvö nöfn, hafa tölu og allt mögulegt og allt er þetta þeim mjög mikilvægt og maður er alltaf að endurtaka nafnið sitt. Steina var því langbest, því hvað kom það mér við hvað ég hét? Í aðdraganda sýningarinnar var ég svo spurð hvað ég vildi vera og svarið var Steina, nú er ég Steina.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
