„Andlitsmyndir Sigurjóns eru veigamikill hluti af lífsverki hans, en skráðar eru um 200 mannamyndir sem hann vann á 60 ára tímabili,“ segir Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara og stofnandi safns hans á Laugarnesi í Reykjavík, en fyrr í þessum mánuði var opnuð sýning á völdum portrettum Sigurjóns undir yfirskriftinni Augliti til auglitis.
„Sumar mannamyndir Sigurjóns eru aðgengilegar, aðrar týndar, en til eru ljósmyndir af flestum þeirra. Á sýningunni getur fólk séð elstu varðveittu mannamynd hans sem hann gerði fyrir rúmri öld, eða 1924 þegar hann var sextán ára. Þetta er lágmynd sem hann gerði af kennara sínum í barnaskólanum á Eyrarbakka, Aðalsteini Sigmundssyni. Einnig er á sýningunni síðasta portrettmyndin sem Sigurjón vann árið 1981, ári áður en hann lést, en sú mynd er af Torfa Hjartarsyni tollstjóra.
Við sýnum líka verk sem hafa lítið verið frammi og við reyndum að velja verk sem Sigurjón vann með ólíkum aðferðum. Hann hafði afar fjölbreyttar aðferðir við að koma persónuleika fólks til skila í mannamyndunum, en hann sagði sjálfur að hann gerði ekki greinarmun á því að vinna andlitsmyndir eða óhlutbundin verk. Hann bætti samt alltaf við að andlistmyndirnar hefðu verið hans lífsbjörg, því þannig gat hann unnið fyrir salti í grautinn og samtímis haldið listrænu frelsi sínu.
Frjálsu verkin hans voru oftast nær óseljanleg, því þau þóttu svo framúrstefnuleg og fyrir vikið var efnahagurinn ævinlega þröngur á heimilinu. Þessi áhugi á portrettgerð tengdist því að á þessum tíma var Ísland að sanna sig sem sjálfstæð þjóð, þetta var því líka þjóðernisyfirlýsing, að vera á pari við aðrar þjóðir. Ákveðinn áhugi var hjá borgarastéttinni að láta gera af sér portrett og fyrir vikið eru margar andlitsmynda Sigurjóns af máttarstólpum þjóðfélagsins. Meirihlutinn er karlmannaportrett, en þau eru býsna ólík.“
Birgitta segir að í sýningarskránni sem fylgir sýningunni núna sé birt viðtal sem Erlingur Jónsson myndhöggvari og myndmenntakennari tók við Sigurjón árið 1980.
„Sigurjón var ævinlega ófús að tala um sína eigin list og annarra og því er viðtalið eini vitnisburðurinn um hvernig Sigurjón nálgaðist það að búa til portrett. Þetta viðtal opnar innsýn í þær fjölbreyttu aðferðir sem Sigurjón notaði við að móta ólíka persónuleika. Að lesa viðtalið auðveldar fólki sem kemur á sýninguna að átta sig á hvernig Sigurjón þroskaðist sem listamaður, með því að bera verkin á sýningunni saman við svör hans í viðtalinu.
Sigurjóni tókst í bestu andlitsmyndunum að fanga persónuleika, ekki aðeins útlit fólks, honum tókst að koma til skila skapgerð og lífsreynslu þeirrar manneskju sem hann var að móta. Það þarf svolitla þjálfun í að skoða þrívíða list, að skoða muninn á portrettum og átta sig þannig á höfundareinkennum, hver sem listamaðurinn er. Þetta var augljóst fyrir það fólk sem fylgdist með Sigurjóni á þeim árum sem hann var í Danmörku, en þar bjó hann í 18 ár.
Þegar hann var hér á landi í smá fríi árið 1938 þá gerði hann portrett af mömmu sinni, Guðrúnu Gísladóttur. Það heitir „Móðir mín“, og er eitt þekktasta verk hans erlendis. Sjálfur sagði hann í viðtali við Valtý Pétursson listmálara að hann hefði gert þetta portrett á einum degi við mjög erfiðar aðstæður á eldhúsborði þar sem mamma hans bjó við Hverfisgötu.
Þetta verk vakti á sínum tíma mikla athygli og gerir enn, en virtur danskur listfræðingur orðar það þannig að í þessu portretti hafi Sigurjón lýst reynslu heillar þjóðar. Þetta er því ekki aðeins mynd af manneskju sem hefur persónulega tengingu við listamanninn, heldur býr í verkinu mikið innihald og djúp merking sem liggur í útgeislun á þessu andliti sem hann mótaði.
Við stóðum fyrir portrettsýningu árið 2008 í safni á Sjálandi og formaður eins danska sjóðsins sem styrkti verkefnið skrifaði mér og sagðist hlakka sérstaklega til að sjá portrett Sigurjóns af móður sinni. Hann bætti við: „Því að þessi andlitsmynd er sambærileg við bestu rómversku portrettin.“ Þetta lýsir muninum á umhverfinu í Danmörku og hér á Íslandi, á grunnþekkingu í tengslum við myndlistarsöguna.“
Birgitta segir að ljósmyndin, ekki síst sú rafræna, hafi gert að verkum að fólk upplifi umhverfi sitt í tvívídd.
„Allir eru með skjá, síma og tölvur, sem sýna aðeins tvær víddir og fyrir vikið vantar oft þriðju víddina í upplifun á myndum. Okkur langar meðal annars með sýningunni að kynna færni listamannsins við að túlka ólíka persónuleika í varanlegt efni og leyfa sýningargestum að standa augliti til auglitis við fulltrúa eldri kynslóða sem höfðu áhrif á umhverfi síns tíma. Gildi sýningarinnar er því bæði listsögulegt og menningarsögulegt.“
Birgitta segir skráningu verka listamanna skipta miklu máli, en Sigurjónssafn gaf út ritverkið Sigurjón Ólafsson ævi og list, í tveimur bindum 1998 og 1999, og þar fylgir heildarskrá af öllum verkum hans með ljósmyndum.
„Árið 2007 opnaði vefsíða safnsins heildarskrá á verkum Sigurjóns sem er öllum opin. Geirfinnur Jónsson hannaði vefinn og á þessum tíma var þetta fyrsta stafræna listaverkaskrá um íslenskan myndlistarmann. Hún hefur verið ómissandi í starfi okkar á safninu og hefur opnað fyrir mörg samskipti, meðal annars fyrir erlenda aðila.
Skráning listaverka er undirstaða allrar rannsóknarvinnu og það er mjög jákvætt að margir listamenn og aðstandendur þeirra eru farnir að hefja rafræna skráningu á listaverkum, þannig verður yfirlit yfir lífsverk listamanna aðgengilegt fyrir alla.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
