Hulduefni er titill sýningar á verkum eftir Vilhjálm Bergsson í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri er Hanna Styrmisdóttir.
Vilhjálmur er fæddur í Grindavík árið 1937. Hann lærði myndlist í Kaupmannahöfn og París, og hefur búið og starfað víða annars staðar í Evrópu á starfsferli sínum. Hann hefur haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og alþjóðlega.
Tildrög sýningarinnar er gjöf Vilhjálms til Listasafns Reykjanesbæjar sem telur hátt í tvö hundruð verk, frá miðjum sjötta áratugi 20. aldar fram á þriðja áratug þessarar aldar. Olíumálverk eru í meirihluta en einnig eru tölvuverk, vatnslitaverk og teikningar hluti af gjöfinni.
Verkin voru á heimili Vilhjálms í Grindavík, sem reyndist staðsett á einni sprungunni í bænum. Samtökin Blái skjöldurinn, sem fara inn á hamfarasvæði og bjarga listaverkum og menningarverðmætum, létu Listasafn Íslands vita af hættunni og starfsmenn Listasafns Reykjanesbæjar fóru í kjölfarið inn í húsið og komu verkum Vilhjálms sem þar voru í skjól. Annars hefði verið mikil hætta á að verkin eyðilegðust eða glötuðust alveg. Vilhjálmur ákvað í kjölfarið að gefa safninu verkin.
„Hér er úrval úr þessari höfðinglegu gjöf sem telur hátt í 200 verk. Á sýningunni eru 40 málverk, auk gvassverka og kolteikninga. Að auki fékk safnið nýlega röð kolteikninga að láni frá listamanninum,“ segir Hanna Styrmisdóttir sýningarstjóri sem átti mikið og gott samstarf við Vilhjálm við undirbúning sýningarinnar. Hann deildi með henni skrifum sínum um eigin myndlist, en hann hefur skrifað um sköpun sína frá sautján ára aldri. Skrifin í heild nefnir Vilhjálmur Hverju orð ná.
„Ég ákvað að setja sýninguna upp í tímaröð. Fyrstu verkin eru frá 1959 þegar Vilhjálmur var að fást við abstrakt geómetríu. Það vekur athygli að þessi verk hafi ekki ratað í rannsóknir á þessu tímabili í íslenskri listasögu, abstrakt geómetríu,“ segir Hanna. „Síðar gerði Vilhjálmur hrein abstraktverk þegar hann var í námi í Kaupmannahöfn og París. Hann segir í skrifum sínum að hann hafi þá málað dökkar myndir af því að honum fannst hann vera staddur í myrkum heimi.
Í kringum 1965 urðu miklar vendingar í listsköpun Vilhjálms. Hann lýsir í skrifum sínum þeim innri átökum sem leiddu til langs tímabils sköpunar þar sem hann nefnir verk sín í heild samlífrænar víddir. Um sama leyti komst hann að þeirri niðurstöðu að tæknin og það sem hann lærði í myndlistarnámi dygði honum ekki lengur til að framkvæma hugmyndir sínar. Hann fór að kynna sér og tileinka sér gamlar aðferðir og tækni, ásamt nýjum efnum til að mæta þessu kalli. Hann varð ungur fyrir miklum áhrifum frá ljósi og myrkri á æskuslóðum sínum og þeirra fer fljótt að gæta í myndsköpun hans.
Á áttunda áratugnum fara verkin í auknum mæli að taka á sig form lífvera. Sumar þessarra mynda nefnir Vilhjálmur Lífmiðjur. Þau minntu mig á djúpsjávarlífverur. Kristján Guðmundsson, myndlistarmaður og vinur hans, hugsaði á þessum tíma um Vilhjálm sem listamann sem sæti í geimstöð og horfði út um gluggann og málaði lífið sem svifi framhjá í þyngdarleysinu.
Í skrifum sínum talar Vilhjálmur um að hann sé stöðugt að leita dýpra inn á við en hann er líka að leita út á við, út í geim. Það varð til þess að ég lagði til þetta heiti á sýninguna, Hulduefni, sem Vilhjálmur var mjög ánægður með, því hulduefni er efni í alheiminum sem sést ekki og mælist einungis vegna þyngdaráhrifa þess.“
Vilhjálmur flutti til Dusseldorf árið 1983 en flutti aftur hingað til lands árið 2000. „Á þessum tíma verða breytingar á verkum hans. Hann var búinn að eiga við myrkrið og allt í einu fer birtan að ryðja sér til rúms í verkum hans og frá 1995 má segja að hann hafi verið að fást við það sem hann nefnir takmarkalaust orkuljósrými. Hann er í rannsókn á hulduefninu og hefur kvatt lífverurnar.“
Eitt verk á sýningunni, Raðferli, kolteikning frá árinu 2021, er í eigu listamannsins og sýnt með leyfi hans. „Vilhjálmur hefur núna aðsetur í Vík í Mýrdal og er síteiknandi. Hann hefur lítið sýnt af teikningum sínum og fólk þekkir lítið þá hlið á verkum hans. Þess vegna er mikill fengur að þessum teikningum sem hér eru sýndar. Hann er feikilega fær teiknari sem hefur á ferlinum teiknað sig í gegnum hugmyndir sínar, oft áður en hann byrjar að mála. Stundum eru ótal teikningar að baki hverju verki.“
Sýningarsalurinn er stór og þar eru bekkir og því er auðvelt að setjast niður og virða fyrir sér verkin. „Ég mæli með því að gefa hverju verki tíma. Velja sér jafnvel verk og horfa á það í tíu mínútur. Þá kemst maður að einhverju nýju,“ segir Hanna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

