Hulda Rós Guðnadóttir fagnar 20 ára starfsafmæli og í tilefni af því stendur hún fyrir sýningu í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi undir heitinu LJÓS [mynd] LIST.
Hulda Rós er búsett í Berlín og á að baki áhugaverðan feril en hún er menntuð í myndlist og mannfræði, hefur unnið við myndlist og kvikmyndagerð og hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar á sviði kvikmyndanna. Þá hefur hún markað sér sérstöðu meðal íslenskra listamanna fyrir rannsóknartengda listsköpun sem hverfist að miklu leyti um stöðu vinnuafls í tengslum við alþjóðavæðingu og þær víðtæku og hröðu breytingar sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi síðustu áratugi.
Fyrr á árinu sýndi t.d. Nýlistasafnið verk hennar „Lundabúð“ (2019) sem er skúlptúrinnsetning með 2.470 lundaböngsum sem stillt er upp í IKEA-hillueiningum og skírskotar til þeirrar flóðbylgju túrisma sem skall á íslensku samfélagi, nánast í einni hendingu og hvernig lundinn hefur orðið að táknmynd þessara sviptinga.
Á sýningunni í Gallerí Gróttu er sjónum hins vegar beint að sjávariðnaðinum en hann hefur gegnt stóru hlutverki í listrannsóknum Huldu Rósar undanfarin ár. Þetta er fyrsta eiginlega ljósmyndasýning Huldu Rósar og þarna má sjá tvær ljósmyndaseríur; „WERK“ frá árinu 2021 og „S-I-L-I-C-A“ frá árinu 2022 en alls er um að ræða tíu ljósmyndir.
„WERK“ samanstendur af fimm ljósmyndum sem unnar eru út frá innsetningu í Listasafni Reykjavíkur árið 2021 og setti endapunkt á umsvifamikið rannsóknar- og gjörningaverkefni undir heitinu „Keep Frozen“ og náði m.a. til ýmissa hafnarborga.
Verkefnið fólst til dæmis í því að löndunarmenn færðu 25 kg pappakassa (sem samsvarar þyngd þess frosna fisks sem er yfirleitt í slíkum kössum) af einu vörubretti yfir á annað á 48 klukkustundum (tíminn sem það tekur að afferma lest skips). Þar var hún með áhrifaríkum hætti að vekja m.a. athygli á erfiðisvinnu verkafólks sem langoftast er öðrum algjörlega hulin.
Með ljósmyndun verkefnisins verða svo til sjálfstæð listaverk sem nú eru til sýnis og njóta sín á eigin forsendum. Ferköntuðum hvítum kössum með bláum texta sem segir „Keep Frozen at -20+C or Below“ hefur verið staflað upp eftir kúnstarinnar reglum og líkjast helst áþreifanlegum skúlptúr og eru mikið sjónarspil en formin og samspil ljóss og skugga skapa sterka þrívíddartilfinningu.
„S-I-L-I-C-A“, sem einnig er fimm mynda ljósmyndasería, er hins vegar annars eðlis. Hún er hluti af yfirstandandi rannsókn Huldu Rósar þar sem athyglinni er beint að alþjóðlegri aðfangakeðju kísils. Þar ríkir raunsannari blær yfir verkunum og þau líkjast vettvangsrannsóknum þar sem tilviljanakennd augnablik eru fest á filmu og eru þannig í andstöðu við snyrtilega uppröðuðu kassana í „WERK“.
Gallerí Grótta er áhugavert val fyrir listamann af hennar toga en fyrir þá sem ekki hafa komið þangað þá er um að ræða lítinn sal inn af Bókasafni Seltjarnarness á annarri hæð Eiðistorgs. Beint fyrir ofan Hagkaup. Í sýningartexta er hins vegar gerð grein fyrir staðarvalinu og kemur þar fram að það sé engin tilviljun að sá salur hafi orðið fyrir valinu.
„Bókasafnið og umhverfi þess eru djúpt samofin æskuárum listamannsins á Seltjarnarnesi, þar sem hún ólst upp við sjóinn og sökkti sér ofan í bækur. Sýningin hefst á vettvangi þar sem persónulegar rætur og listræn rannsókn mætast,“ segir í textanum. Það gefur sýningu aukna vídd þegar staðsetning verður hluti af heildinni og hér á hún vel við inntak sýningarinnar og bindur hana saman.
Þá undirstrikar hráleiki salarins enn fremur viðfangsefni verkanna. Steingrár gólfdúkur og gróf loftræstirör í loftinu mynda þarna samhljóm með verkunum og þá sérstaklega ljósmyndunum af verksmiðjum. Er þetta dæmi um það hvernig Hulda Rós hugsar útkomuna til enda, tekur staðsetningu og eigin upplifun og fléttar hana inn í sögusvið verka sinna. Rétt eins og hún gerði með innsetninguna í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur þar sem túlka mátti skírskotanir til heldrunarvæðingar Reykjavíkurhafnar, þ.e.a.s. hvernig vöruhús breytast í listasöfn og hvernig hefðbundinn hafnariðnaður víkur fyrir hótelum, tónleikahúsum, mathöllum, háhýsum hátekjufólks og fínni verslunum.
Samhliða sýningunni og í tilefni af tuttugu ára starfsafmæli Huldu Rósar kemur út bókin Taktur í verki þar sem sjónum er einna helst beint að listrannsóknarverkefninu „Keep Frozen“ sem „WERK“ er meðal annars hluti af og hefur staðið yfir í fimmtán ár og við hæfi að rifja upp af þessu tilefni. Bókin er augnayndi en mikið hefur verið lagt í textagerð, framsetningu mynda og hönnun.
Þar má finna greinar eftir Elisabeth Brun, myndlistar- og kvikmyndagerðarmann, Heiðu Björk Árnadóttur, list- og safnafræðing, Anamaríu Garzón Mantilla, listfræðing og prófessor, og Kötlu Kjartansdóttur doktorsnema í menningarfræðum auk inngangs sem ritstjóri bókarinnar, Julia Gwendolyn Schneider, skrifaði. Greinarnar eru innihaldsríkar og gefa gott yfirlit og innsýn í rannsóknir Huldu Rósar. Eins eru efnistök skýrt afmörkuð, kaflarnir hæfilega langir, sem gerir bókina aðgengilega.
Sýningin er lágstemmd og laus við tilgerð. Þó að hún láti lítið yfir sér þá er ákveðin fegurð fólgin í einfaldleikanum. Sé kafað dýpra má finna fjölmarga þræði sem leiða mann á nýjar slóðir og ljóst er að þarna að baki liggja risastórar hugmyndir og þrotlaus vinna listamanns.
Nálgun Huldu Rósar á sjávarútveginn er óvænt, skemmtileg og hlaðin merkingu. Listrannsóknir hennar eru með því áhugaverðara sem á sér stað í íslenskri samtímalist, svo ekki sé minnst á hversu hressandi það er að kona beini sjónum sínum að „karllægum“ iðnaði með þessum hætti. Hulda Rós er töffari.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

