„Fyrir mér er öll platan græn,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari um plötuna Opus 109 sem væntanleg er hjá Deutsche Grammophon 21. nóvember. Blaðamaður menningardeildar Morgunblaðsins heimsótti Víking á vinnustofu hans þar sem hann hyggst koma sér upp hljóðveri og ræddi við hann um plötuna og hljóðverið ásamt því að fá tóndæmi af væntanlegri plötu.
Viðtalið ásamt með tóndæmunum má sjá og heyra í Dagmálaþætti sem farið er í loftið á mbl.is.
Við komum aftur að græna litnum síðar en fyrst liggur beint við að spyrja Víking um tilurð nýju plötunnar. Hann rifjar upp að á því ári sem hann ferðaðist um heiminn og spilaði um 100 tónleika til að fylgja eftir plötu sinni með Goldberg-tilbrigðum Bachs hafi sér gefist mjög góður tími til að velta næstu plötu fyrir sér, „enda alls ekki augljóst hvað koma ætti næst á eftir stórkostlegasta píanóverki sögunnar“, segir Víkingur og rifjar upp að á þessum tíma hafi hann farið að heyra og skynja Goldberg-tilbrigðin í mörgum þeirra tónverka sem fylgdu í kjölfarið í tónlistarsögunni.
„Ég leitaði sífellt meira í Beethoven sem var undir miklum áhrifum frá Bach og vann með tónlist Bachs allt sitt líf,“ segir Víkingur og tekur fram að hann hafi sérstaklega einbeitt sér að síðasta tímabilinu í tónsmíðum Beethovens.
„Þegar hann sneri aftur eftir fimm ára þögn með þessa ótrúlegu sónötu sem opus 109 er, en hún er þriðja síðasta sónata Beethovens. Opus 109 er einstaklega björt sónata og ljóðræn,“ segir Víkingur og bendir á að í þessu verki hafi Beethoven í fyrsta og eina sinn í verkum sínum byggt verkið upp eins og Goldberg-tilbrigðin, þ.e. kynnt til leiks stef og tilbrigði við það og lokið verkinu með stefinu aftur.
„En það er ekki bara það heldur eru óteljandi tengingar milli þessara tveggja verka. Mér finnst eins og Beethoven sé að kinka kolli til Bachs, því hann nýtir alls kyns barokkpælingar, s.s. sarabönduna og fúguformið, í þessari framtíðarmúsík sinni,“ segir Víkingur og bendir á að Beethoven vitni einnig með beinum hætti í bæði Bach og Goldberg-tilbrigðin, m.a. í hljómborðstækninni.
„Mér fannst eins og hugur Beethovens hefði meðvitað verið í þessu verki. Opus 109 er þriðja síðasta sónata Beethovens. Þegar kemur að síðustu þremur sónötum hans, þ.e. opus 109, 110 og 111, þá er hefðin að þessi systurverk séu tekin upp og gefin út saman,“ segir Víkingur og rifjar upp að sjálfur hafi hann um tíma íhugað að elta þá hefð með eigin upptöku þótt það væri ekki í hans karakter.
„Þegar til kastanna kom þá gat ég það samt ekki,“ segir Víkingur og rifjar upp að hann hafi við nánari skoðun komist að þeirri niðurstöðu að verkin væru „ekki systur heldur ólík systkini. Þetta eru þrír ólíkir heimar. Mér fannst hver og ein sónata verðskulda sína eigin upptöku með eigið umhverfi og sína eigin leið,“ segir Víkingur og tekur fram að hann sjái í framhaldinu fyrir sér að tileinka eina plötu opus 110 og aðra plötu opus 111 á næstu árum.
Á plötunni Opus 109 teflir Víkingur saman prelúdíu og fúgu í E-dúr BWV 854, partítu nr. 6 í e-moll BWV 830 og franskri svítu nr. 6 í E-dúr BWV 817 eftir Bach, píanósónötunum nr. 27 í e-moll opus 90 og nr. 30 í E-dúr opus 109 eftir Beethoven og loks píanósónötu í e-moll 566 eftir Franz Schubert.
„Núna þegar ég er byrjaður að spila þetta prógramm á tónleikum líður mér eins og þetta hafi verið það eina sem ég hefði getað gert á þessum tímapunkti og það er góð tilfinning.“
Það vekur eftirtekt að öll verkin á plötunni eru ýmist í E-dúr eða e-moll. Hvað veldur?
„Mér finnst þessar tóntegundir hafa mjög skýran og sterkan karakter. Fyrir mér er það litatengt. E, hvort heldur það er E-dúr eða e-moll, hefur grænan lit. Ég er með það sem á ensku nefnist „synaesthesia“,“ segir Víkingur, en fyrirbrigðið hefur á íslensku verið þýtt sem samskynjun.
„Ég tengi tíðni tóna við liti. Fyrir mér er nótan C á hljómborðinu hvít, D er brún, E er græn, F er blá, G er rauð og svo framvegis,“ segir Víkingur og bendir á að sér finnist gott þegar hann er kominn með upphafspunkt að skoða hvað viðkomandi tónskáld hafi samið annað í sömu tóntegund.
„Oft er það þannig að maður finnur lík höfundareinkenni í verkum sem eru í sömu tóntegund,“ segir Víkingur og bendir á að sex árum áður en Beethoven samdi opus 109 hafi hann samið sónötuna nr. 27 í e-moll. „Sem er stórkostlega fallegt og miklu minna þekkt verk. Mér fannst lýríkin í öðrum þætti þeirrar sónötu kallast mjög fallega á við það hvernig opus 109 byrjar.
Þetta er björt, rómantísk, falleg, flæðandi og áreynslulaus tónlist. Þegar ég var búinn að tengja þessar tvær sónötur saman þá leitaði hugurinn 25 ár aftur í tímann,“ segir Víkingur og rifjar upp þegar hann heyrði Árna Björn Árnason, góðan vin sinn og samnemanda í píanónáminu, spila sónötu í e-moll eftir Schubert.
„Þetta verk leitaði á mig. Ég mundi hvað ég hafði heillast af þessu verki og flutningi þess þannig að ég náði mér í nóturnar að verkinu og það reyndist enn fallegra en mig minnti. Það er í tveimur þáttum, eins og sónata opus 90 eftir Beethoven.
Ég fór að skoða verkið og spila það og heillaðist. Ég hef hvergi séð það á tónleikaprógrammi og aldrei heyrt það í upptöku,“ segir Víkingur og tekur fram að hann hafi skynjað mjög sterk tengsl milli seinni þáttar verks Schuberts og opus 90 eftir Beethoven.
„Sem er kannski ekki skrýtið. Beethoven samdi sónötuna sína 1814 en þá var Schubert 17 ára og bjó í sömu borg og Beethoven, sem var átrúnaðargoð hans. Schubert hlýtur auðvitað að hafa náð sér í öll píanóverkin sem Beethoven sendi frá sér. Þremur árum seinna, þegar Schubert er tvítugur, skrifar hann sína e-moll-sónötu og þremur árum eftir það kemur Beethoven með opus 109.
Á þessum sex árum í Vínarborg finnst mér nýr kafli vera að fæðast í píanóbókmenntunum,“ segir Víkingur og bendir á að í ljósi þess að Schubert hafi aldrei gefið verkið út og það aðeins verið í tveimur þáttum hafi ýmsir síðari tíma tónlistarfræðingar dregið þá ályktun að verkið hafi ekki verið fullskrifað, en því sé hann ekki sammála.
Víkingur bendir á að greinilega megi heyra hvernig Schubert kinki kolli til Beethovens í verki sínu. „Mér finnst alltaf skemmtilegt að geta kynnt lítið þekkt verk til leiks sem á sama tíma er stórkostleg tónlist. Ekki bara af því að tónlistin sé áhugavert heldur er verkið stórkostlegt meistaraverk í öllum skilningi. Þetta er dæmi um ótrúlega hæfileika Schuberts.
Þetta er eitt besta píanóverkið hans frá þessum tíma. Vonandi verður fólk sammála mér og lítur það sömu augum,“ segir Víkingur og bætir við að loks hafi hann valið verk eftir Bach sem honum fannst tengja öll verkin á plötunni enn betur saman ásamt því að brjóta hana upp með áhugaverðum hætti.
„Ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður, þ.e. að stilla upp prógrammi í aðeins einni tóntegund eða -miðju. Ef þú hefðir nefnt þessa hugmynd við mig fyrir fimm eða tíu árum þá hefði mér fundist þetta mjög slæm hugmynd þar sem ég hefði verið þeirrar skoðunar að uppbrotið, fjölbreytnin og samtalið á milli ólíkra tóntegunda væri það sem gerði prógramm að prógrammi,“ segir Víkingur og tekur fram að hann sé kominn á aðra skoðun.
„Þegar ég hlusta á plötuna eða flyt prógramm hennar skynja ég mjög sterkt þá óendanlegu fjölbreytni sem hægt er að fá út úr einni tónmiðju. Það að vinna út frá tóninum E er í raun mjög víður rammi með endalausum blæbrigðum.“
Talandi um Bach þá nefndir þú í viðtali við mig fyrir tveimur árum að þú værir að sigla inn í Bach-tímabil. Ertu staddur í því tímabili miðju og hvað ber framtíðin í skauti sér?
„Það er mjög mikill Bach fram undan og vonandi í þessu stúdíói,“ segir Víkingur og vísar til rýmisins þar sem við sitjum. „Ég er mjög spenntur fyrir því að taka upp Bach heima hjá mér – alls konar verk. Bæði þekktari verkin en líka þau óþekktari. Ég er með mjög stórar Bach-plötur á teikniborðinu.
Ég get lofað því að það er mjög mikill Bach í kortunum því ég get ekki hætt að spila Bach. Það er ennþá svo margt ósagt í honum og verður alltaf. En það verður ekki bara Bach heldur líka önnur tónskáld þótt það verði aldrei mjög langt á milli Bach-platna.“
Hvaða kosti sérðu við það að hafa fullbúið stúdíó inni á heimilinu?
„Það fylgja því ótvíræðir kostir að þurfa ekki að plana upptökur með margra mánaða fyrirvara ef mig langar að taka upp eitt Brahms-intermezzo eða Chopin-næturljóð eða semja eitthvað sjálfur eða hvað annað sem tónlistarhugurinn girnist. Þá er auðvitað ómetanlegt að geta farið niður á neðri hæðina í húsinu, kveikt á míkrófóninum og bara byrjað,“ segir Víkingur og bendir á að eftir sem áður vinni hann allar upptökur sínar í samstarfi við upptökumeistarann Christopher Tarnow hjá Deutsche Grammophon, sem Víkingur hefur unnið náið með síðan 2010.
„Hugmyndin er sú að allt sem ég tek upp hér í hljóðverinu fari upp í skýið þar sem hann getur nálgast efnið og unnið úr því á sinni starfsstöð í Leipzig. Það eina sem ég þarf mín megin er því hljóðnemar, hljóðfæri og píanóstillari,“ segir Víkingur og tekur fram að Tarnow sé einstakur listamaður í sínu fagi.
„Venjulega þarf maður að bíða í 12-18 mánuði á milli platna en ég væri til í að gefa oftar út og smærri einingar. Vonandi verður stúdíóið hér að skapandi stað þar sem ég get hraðar deilt með hlustendum því sem ég er að skoða og pæla hverju sinni,“ segir Víkingur og tekur fram að þessi nálgun sé ákveðið nýmæli í klassíska tónlistargeiranum. „Ég held að það sé jákvætt skref að færa sig úr löngu tímaeiningunni sem afmarkast af lengd geisladisksins og snúa sér frekar að smásagnagerðinni.“
Víkingur rifjar upp að hann hafi staðið á ákveðnum tímamótum í fyrra þegar hann varð fertugur og tekur fram að við það hafi hann eðlilega farið að leiða hugann að því hvernig næstu tíu árin myndu þróast hjá sér sem listamanni.
„Nú er ég búinn að eiga tíu ár þar sem ég hef verið að ferðast nokkra hringi kringum heiminn og margir draumar hafa ræst og ótrúleg tækifæri sem halda áfram,“ segir Víkingur og tekur fram að sig hafi á þessum tímamótum hins vegar langað til að prófa nýja hluti.
„Þá kom upp í huga mér sú hugmynd að reyna að búa mér til tilveru þar sem ég gæti farið úr heimilissjálfinu og á neðri hæð hússins og verið þar í mínum upptökuheimi,“ segir Víkingur og bendir á að þar sem vinnustofan sé vel hljóðeinangruð geti strákarnir tveir sem hann á með eiginkonu sinni, Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, verið með skarkala, horft á sjónvarpið eða spilað á hljóðfærin á efri hæðinni án þess að það heyrist niður.
„Markmiðið var að útbúa vinnustofuna þannig að ég gæti jafnvel verið að taka upp á nóttunni án þess að trufla aðra á heimilinu meðan þau væru í fastasvefni. Mér sýnist það hafa tekist ágætlega,“ segir Víkingur og bætir við: „Þetta er minn draumastaður, stúdíóið hér undir húsinu.“
Þess má að lokum geta að Víkingur flytur Opus 109 á útgáfutónleikum í Eldborg Hörpu 1. apríl 2026 og er miðasalan hafin á vefnum hér.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
