Ungverska tónskáldið Béla Bartók (1881-1945) var í hópi fremstu tónskálda 20. aldar og í hópi þeirra sem sömdu framsækna tónlist sem var meðal annars innblásin af þjóðlögum. Vert er að minnast tónskáldsins en hinn 26. september sl. voru liðin 80 ár frá andláti hans.
Bartók fæddist í bænum Nagyszentmiklós í um 200 km fjarlægð frá Búdapest, það er að segja á svæði sem nú tilheyrir Rúmeníu. Hann var farinn að geta greint rytma áður en hann fór að mynda setningar og hóf að semja tónlist á barnsaldri. Bartók leit mjög upp til bæði Franz Liszt (1811-1886) og Richards Strauss (1864-1949) og æskuverkin bera þess merki. Hann var afburðapíanisti og nam píanóleik og tónsmíðar í Búdapest. Kennari hans hafði sjálfur numið hjá Liszt og meðal samnemenda Bartóks við Konunglega tónlistarháskólann í Búdapest var tónskáldið Zoltán Kodály (1882-1967). Þeir hófu snemma að ferðast um sveitir Ungverjalands til þess að safna þjóðlögum sem þeir hljóðrituðu á hundruð vaxhólka. Þessar heimildir áttu eftir að nýtast báðum við tónsmíðar síðar á árinu (Koldáy meðal annars í frægum Galanta-dönsum).
Upphafið að söfnuninni er rakið til þess að eitt sinn var Bartók staddur á heilsuhæli í Ungverjalandi og heyrði þjónustustúlku raula lagbút. Það kom í ljós að stúlkan var frá Rúmeníu og var að svæfa barn með því að syngja þjóðlag frá heimaslóðum sínum, Transylvaníu. Næstu dagana á eftir söng stúlkan fleiri lög fyrir Bartók sem skrifaði þau niður. Bartók leit á það sem hlutverk sitt að safna þjóðlögum í því augnamiði að bjarga þjóðararfinum. Samhliða söfnuninni stundaði hann svo viðamiklar rannsóknir og útgáfu á þjóðlögum en hann taldi lögin meðal annars hafa haft áhrif á þróun rómantíkurinnar.
Árið 1907 var Bartók skipaður prófessor í píanóleik í Búdapest en það er merkilegt til þess að hugsa að þetta helsta tónskáld Ungverja varð aldrei prófessor í tónsmíðum. Hann samdi hins vegar mikið og þjóðararfurinn hafði sannarlega áhrif á verk Bartóks sem þannig urðu smám saman gegnsýrð anda þjóðlagsins. Fáum módernistum á öndverðri 20. öld tókst að vinna með jafn sannfærandi hætti úr þjóðararfi í verkum sínum og raunin var hjá Bartók. Smástíg og ómstríð tónlist hans er líka að vissu leyti laus undan því sem hann nefndi sjálfur „ofríki“ dúr/moll-kerfisins.
Eitt af þeim verkum sem Bartók samdi snemma á ferlinum er óperan Kastali Bláskeggs hertoga (1911), samin fyrir stóra hljómsveit, sópran eða mezzósópran (Júdit) og bassa eða bass-barítón (Blákeggur). Þar gætir áhrifa þjóðlaga en einnig svífur andi impressjónistans Claudes Debussy (1862-1918) yfir vötnum. Kodály hafði ferðast til Parísar árið 1907 og hafði með í farteskinu töluvert af verkum franska tónskáldsins sem Bartók las með athygli. Óperan er í einum þætti og var frumflutt í Búdapest árið 1918. Hugmyndin að inntaki hennar kom einmitt frá Kodály en þar segir frá því er Bláskeggur kemur með nýja eiginkonu sína, Júdit, til hallar sinnar. Í höllinni eru sjö dyr sem Júdit biður Bláskegg um að ljúka upp. Á bak við hverja hurð blasir við hryllingur uns þeirri sjöundu er lokið upp. Þar standa, lifandi, þrjár fyrrverandi eiginkonur Bláskeggs og að lokum er Júdit læst inni með þeim að eilífu. Óperan er byggð á franskri þjóðsögu og er gríðarlega áhrifamikið verk.
Auk óperunnar Kastali Bláskeggs hertoga má nefna fleiri verk eftir Bartók, svo sem röð sex strengjakvartetta (1908-1939), Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu (1936), þrjá píanókonserta (1926-1945) og tvo fiðlukonserta (1907-1938). Er þá langt í frá allt upptalið. Frægasta verkið hans (það mest leikna og hljóðritaða) er hins vegar án efa Konsert fyrir hljómsveit (1943) sem Serge Koussevitzky, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Boston, pantaði og frumflutti árið 1944.
Konsert fyrir hljómsveit samdi Bartók raunar vestur í Bandaríkjunum en þangað hafði hann flúið ásamt fjölskyldu sinni í október árið 1940 og varð bandarískur ríkisborgari árið 1945. Bartók var þó ekki af gyðingaættum en fyrirleit fasisma og andstaða hans gegn Horthy-stjórninni í Ungverjalandi bakaði honum mikil vandræði heima fyrir. Þá neitaði Bartók að koma fram í Þýskalandi eftir valdatöku nasista árið 1933.
Bartók gekk illa að koma undir sig fótunum í vestra, án þess þó kannski beinlínis að líða skort. Hann naut um tíma fjárstyrks frá Columbia-háskólanum auk þess sem vinir og vandamenn réttu fjölskyldunni stundum hjálparhönd. Þá kenndi Bartók líka endrum og sinnum og kom fram á tónleikum en eftirspurnin var lítil.
Bartók hafði glímt við heilsuleysi frá unga aldri og eftir komuna til Bandaríkjanna greindist hann með hvítblæði og veslaðist smám saman upp. Ekki sýndu Bandaríkjamenn tónsmíðum hans mikinn áhuga, enda þótt hann væri kunnur sem píanisti langt út fyrir Ungverjaland voru tónsmíðar Bartóks miklu minna þekktar. Bartók lést blásnauður í New York hinn 26. september 1945, 64 ára að aldri.
Þeir sem vilja kynna sér tónsmíðar Bartóks er í kjöraðstöðu, enda eru verk hans mikið hljóðrituð. Helst ber að nefna Konsert fyrir hljómsveit en upptökur af þessu glæsilegasta hljómsveitarverki Bartóks eru ófáar (þó ekki allar góðar). Ég bendi lesendum sérstaklega á að hlýða á lokaþáttinn á hljóðritun sem franska tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Pierre Boulez gerði í Chicago (Deutsche Grammophon). Eins og alltaf er Boulez afar nákvæmur í túlkun sinni og stundum kaldur en hér á það sannarlega við. Seinni hljóðritunin sem austurríski hljómsveitarstjórinn Herbert von Karajan gerði í Berlín af Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu er líka frábær (Deutsche Grammophon). Þá er skylda að hlýða á tvær upptökur af óperunni Kastali Bláskeggs hertoga, þá fyrri frá Berlín (EMI/Warner) sem hollenski hljómsveitarstjórinn Bernard Haitink stjórnar (með Anne Sofie von Otter og John Tomlinson) og þá seinni frá Búdapest (Philips/Decca) undir stjórn ungverska stjórnandans Iváns Fischer (með Ildikó Komlósi og László Polgár). Af einleikskonsertum er hljóðritun Frakkans Hélène Grimaud á þriðja píanókonsertinum með Lundúnasinfóníunni og Pierre Boulez mjög góð (Deutsche Grammophon) og loks eru rúmensku þjóðdansarnir í útfærslu Bartóks hins mesta skemmtun. Þar er best að hlýða á upptöku sem ungverski hljómsveitarstjórinn Zoltán Kocsis gerði í Búdapest (Hungaroton). Allt þetta má finna á helstu streymisveitum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
