Hljómsveitin Warmland, skipuð Arnari Guðjónssyni og Hrafni Thoroddsen, heldur tónleika í Iðnó á morgun, laugardaginn 11. október, og lýkur þar með nokkuð langri bið aðdáenda eftir tónleikum hér á landi. Þeir síðustu voru haldnir árið 2019 og þá líka í Iðnó. Mun Warmland um leið fagna útgáfu nýrrar plötu, Violet Dreams, sem kemur út í dag, 10. október.
Arnar og Hrafn eru þekktir fyrir að leggja mikið upp úr sjónrænni upplifun á tónleikum sínum, að blanda listilega saman hinu hljóðræna og myndræna, eins og því er lýst á vef Tix.is þar sem miðasala á tónleikana fer fram, en hljómsveitin hefur áður gefið út plöturnar Unison Love (2019) og Modular Heart (2023), auk stuttskífunnar Drops sem inniheldur fjögur lög og kom út fyrr á þessu ári.
Á tónleikunum verða flutt lög úr ólíkum áttum, bæði ný og gömul, og hafa mörg hver aldrei verið flutt áður á tónleikum. Munu Arnar og Hrafn njóta liðsinnis tónlistarmannanna Arnars Gíslasonar og Guðna Finnssonar á sviðinu.
Blaðamaður sló á þráðinn til Arnars og bað hann fyrst um að segja lesendum frá stofnun Warmlands.
„Við Hrafn vorum að túra með Barða í Bang Gang og vorum að þvælast mikið til Frakklands og til Kína. Okkur langaði að prófa að vinna saman, okkur Hrafn, vorum náttúrlega mikið að hanga saman á þessum túrum og svo í Hong Kong vorum við einhvern tíma á svona „sky bar“ í einhverju háhýsi og ákváðum að skella í þetta prójekt,“ svarar Arnar. Þannig hafi Warmland orðið til, í stuttu máli.
Violet Dreams er þriðja breiðskífa Warmlands og Arnar er spurður að því hvernig hún sé ólík þeim fyrri. „Við vorum að finna okkar hljóma á fyrstu plötunni og hún fór kannski víðar. Við vorum að prófa ýmislegt,“ svarar Arnar.
Violet Dreams sé partur af ákveðinni þróun hjá hljómsveitinni. „Við erum að þróast með hverri plötu, farnir að snerta meira á elektróník og dansmúsík en erum samt alltaf að blanda saman þessum tveimur heimum,“ segir Arnar og að hljóðheimurinn og einhver lög séu með danstakti.
Blaðamaður segist hafa heyrt tónlist Warmlands lýst einfaldlega sem gæðapoppi og Arnar segir það ágætisstimpil. „Okkur langaði að fara út úr því sem við höfðum verið að gera áður. Ég var í Leaves í gamla daga og Hrafn í Ensími. Hvort tveggja rokkbönd og okkur langaði að fara á einhvern nýjan stað, vera meira í „synthum“ og breyta svollítið til, gera eitthvað sem við höfðum ekki gert áður,“ útskýrir Arnar. Engu að síður séu þeir félagar alltaf að blanda saman hljóðfæraleik og hljóðgervlum.
Af ljósmyndum og upptökum af tónleikum Warmlands má sjá að svokallaðir „visjúalar“ vega þungt, þ.e. myndefni eða grafík, hið sjónræna. Arnar er spurður að því hvort þessi sjónræni þáttur skipti þá félaga jafnmiklu máli og tónlistin og segir hann svo vera. „Við ákváðum það líka snemma að leika okkur, okkur finnst svo gaman að nördast í alls konar tæknimálum. Okkur langaði að búa til eitthvað sem við gætum bara keyrt sjálfir, visjúala og ljós og við forrituðum þetta allt. Við vorum í rauninni bara að hafa gaman, að leika okkur,“ útskýrir hann. Tónleikar Warmlands hafi því alltaf verið mjög mikil sjónræn upplifun til viðbótar við tónlistina.
Arnar er spurður að því hvað þeir félagar vilji að fólk upplifi þegar það hlusti á tónlist Warmlands. „Bara það sama og við upplifum þegar við hlustum á tónlist sem við fílum. Að það sé farið með mann eitthvað út úr hversdagsleikanum,“ svarar hann, „en útgangspunkturinn er bara að við erum að kanna músík og það er bara snilld ef fólk fílar það sem við erum að gera. Þetta er okkar leikvöllur til að kanna hvert við getum farið.“
Hvað hafið þið verið lengi að í tónlist?
„Við erum báðir búnir að vera í tugi ára. Ég byrjaði 14 ára í dauðarokkinu, ‘92 eða þar um bil, var í Sororicide og var einmitt að gera „comeback“ með þeim núna í júní, það var mjög skemmtilegt. Ég er búinn að vera í þessu síðan þá, í rauninni, og Leaves-tímabilið var náttúrlega dálítið stórt, þá fórum við út um allt að spila og svo hef ég verið meira núna að pródúsera og vinn við það, að taka upp og hjálpa öðrum listamönnum að taka upp tónlist,“ svarar Arnar.
Hvað tónlistarnám varðar segist Arnar hafa farið á gítarnámskeið þegar hann var tíu ára og einnig lært ljóðasöng 18 til 22 ára. „Ég er með smá bakgrunn í ljóðasöng og var í einni óperu í Frakklandi sem Barði Jóhannsson gerði með Keren Ann,“ bætir Arnar við.
Sem fyrr segir kom Warmland síðast fram á Íslandi í Iðnó árið 2019 og því löngu kominn tími á tónleika. En hverju mega tónleikagestir búast við? „Við ætlum að leika okkur með visjúala og hljóð og svo erum við að fara að spila einhver ný lög,“ segir Arnar að lokum.
Þeim sem vilja kynna sér Warmland er bent á vefsíðu hljómsveitarinnar, warmlandofficial.com.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
