Sigurgangan hjálpar ekkert

Jürgen Klopp og Andy Robertson taka á móti Everton í …
Jürgen Klopp og Andy Robertson taka á móti Everton í kvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að þótt hann hafi aldrei tapað gegn Everton, sem hafi ekki unnið leik á Anfield síðan í lok 20. aldarinnar, hjálpi það sínu liði ekkert fyrir viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Það er mikið meiri hvatning fyrir hitt liðið að vinna sinn fyrsta sigur hérna í langan tíma. Við veltum þessu ekki fyrir okkur í aðdraganda leiksins, við leggjum áherslu á að vera í sem bestu mögulegu standi til að spila leikinn eins og við viljum spila hann. Leikirnir gegn Everton hafa verið afar mismunandi og eru alltaf jafn mikilvægir fyrir bæði liðin,“ sagði Klopp við The Guardian.

„Yfirleitt eru þetta jafnir og tvísýnir leikir þar sem úrslitamörkin eru skoruð seint, eins og gerðist síðasta vetur. Einu sinni unnum við 4:0 en þá fengu þeir rautt spjald. Sagan hjálpar okkur ekkert, í þessu tilviki er hún of jákvæð til þess,“ sagði Klopp.

Everton vann síðast á Anfield árið 1999, þá undir stjórn Walters Smith, og hefur aðeins náð að sigra Liverpool einu sinni í síðustu 25 viðureignum grannliðanna í úrvalsdeildinni. Síðasti sigur Everton gegn Liverpool á Goodison Park kom árið 2010.

Viðureign Liverpool og Everton hefst klukkan 20.15 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert