Stórsigur Liverpool síðasti naglinn í kistu Silva?

Gylfi Þór þakkar Virgil van Dijk varnarmanni Liverpool fyrir leikinn …
Gylfi Þór þakkar Virgil van Dijk varnarmanni Liverpool fyrir leikinn í kvöld. AFP

Topplið Liverpool lagði Everton að velli, 5:2, í grannaslag liðanna í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu og heldur 8 stiga forskoti sínu á Leicester. Liðið hefur nú unnið 14 af 15 leikjum sínum í deildinni það sem af er tímabils.

Hvorki hefur gengið né rekið hjá Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum að undanförnu og hefur liðið tapað átta af síðustu ellefu leikjum sínum í deildinni og situr nú í fallsæti, með 14 stig í 18. sæti. Gylfi spilaði allan leikinn á miðri miðju Everton.

Ljóst er að hitinn í sæti Marco Silva, stjóra Everton, er orðinn gríðarlegur og ekki er ólíklegt að Liverpool hafi rekið síðasta naglann í kistu Portúgalans. 

Portúgalinn Marco Silva var brúnaþungur í leikslok.
Portúgalinn Marco Silva var brúnaþungur í leikslok. AFP

Sex mörk í fyrri hálfleik

Fyrri hálfleikur var gríðarlega skemmtilegur og sex mörk voru skoruð en það var Belginn Divock Origi sem óvænt var í byrjunarliði þeirra rauðklæddu sem kom Liverpool í 1:0 eftir sendingu frá Sadio Mané.

Xherdan Shaqiri, sem einnig var óvænt í byrjunarliðinu kom Liverpool í 2:0 á 17. mínútu, einnig eftir stoðsendingu frá Mané en það var bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold sem bjó raunar til geysimikið pláss fyrir Senegalann vinstra megin á vellinum áður en hann renndi knettinum á Shaqiri.

Divock Origi átti frábæran leik fyrir Liverpool í kvöld og …
Divock Origi átti frábæran leik fyrir Liverpool í kvöld og skoraði tvö mörk. AFP

Everton-menn rönkuðu við sér eftir annað mark Liverpool og miðvörðurinn Michael Keane kom spennu í leikinn á ný er hann minnkaði muninn fjórum mínútum síðar með skoti af stuttu færi, 2:1.

Á 31. mínútu skoraði Divock Origi annað mark sitt og þriðja mark Liverpool eftir langa sendingu frá Dejan Lovren í hjarta varnar Liverpool. Króatinn valdi „leið eitt“ á Origi sem tók snyrtilega við knettinum og afgreiddi boltann undir þverslána, 3:1.

Á 45. mínútu kom Mané Liverpool í 4:1 eftir skyndisókn liðsins. Mané hóf sóknina og kom knettinum á Alexander-Arnold í nokkuð erfiðri stöðu en sá síðarnefndi óð þá upp völlinn og gaf á endanum á Mané sem afgreiddi knöttinn snyrtilega.

Divock Origi kom Liverpool í 1:0 á 6. mínútu.
Divock Origi kom Liverpool í 1:0 á 6. mínútu. AFP

Á annarri mínútu uppbótartíma kom Brasilíumaðurinn Richarlison Everton á ný inn í leikinn og minnkaði muninn í 4:2 eftir sendingu frá Bernard sem hafði 10 mínútum áður komið inn á sem varamaður. Þá, þ.e. á 35. mínútu, fór Silva, stjóri Everton, úr fimm manna vörn í fjögurra og varð Djibril Sidibé fyrir barðinu á þeim breytingum.

Klaufar í síðari hálfleik

Aðeins eitt mark var skorað í síðari hálfleik. Liverpool hélt boltanum töluvert meira en þeir bláklæddu og fátt var um opin færi þar til á síðustu fimm mínútunum. Sadio Mané brenndi af í tvígang einn á móti Jordan Pickford og undir lok leiks setti Moise Kean, varamaður Everton boltann fram hjá einn á moti Adrian sem varði mark Liverpool í fjarveru Alisson. 

Hollendingurinn Gini Wijnaldum skoraði síðasta mark Liverpool í leiknum á 90. mínútu leiksins eftir undirbúning frá Roberto Firmino, 5:2, og þar við sat.

Shaqiri fagnar í kvöld. Hann hefur ekki fengið mörg tækifæri …
Shaqiri fagnar í kvöld. Hann hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Liverpool á leiktíðinni. AFP
Sadio Mané var sem fyrr áberandi í kvöld í Liverpool-liðinu.
Sadio Mané var sem fyrr áberandi í kvöld í Liverpool-liðinu. AFP
Liverpool 5:2 Everton opna loka
90. mín. Georginio Wijnaldum (Liverpool) skorar 5:2. Wijnaldum afgreiðir þennan bolta vel í fjærhornið inni í teig eftir góðan undirbúning frá Roberto Firmino.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert