Með uppskriftina til að stoppa Liverpool

Rafael Benítez.
Rafael Benítez. AFP

„Ég held það,“ svaraði knattspyrnustjórinn Rafael Benítez um hvort Liverpool myndi loksins vinna enska meistaratitilinn eftir 30 ára bið í vor. Benítez var sérfræðingur á Sky Sports yfir leik West Ham og Arsenal og fór yfir víðan völl, m.a Liverpool, sem hann gerði að Evrópumeistara árið 2005. 

„Þeir eru að gera virkilega vel og eru stöðugir. Ég sé þetta lið varla tapa leik og hvað þá mörgum í röð. Þeir hafa keypt réttu leikmennina undanfarin ár og í réttu stöðurnar og það er mikið jafnvægi í liðinu.

Þeir eru með góðan markmenn, góða varnarmenn, bakverði sem elska að sækja og hraða og hæfileikaríka sóknarmenn. Miðjumennirnir pressa endalaust og það er erfitt að sækja hratt á þá. Við reyndum að beita skyndisóknum gegn þeim þegar ég var hjá Newcastle, en við náðum því ekki. Þeir voru of hraðir,“ sagði Benítez. 

Hann var svo spurður um uppskriftina að því að stoppa lærisveina Jürgen Klopp. 

„Það er stundum pláss fyrir aftan bakverðina þeirra og það verður að sækja á þá. Þeir pressa svo mikið að fyrsta sendingin verður að vera einföld til að losa pressuna. Eftir það verður að setja boltann fyrir aftan bakverðina. Ef það tekst getur þú skapað færi á móti þeim,“ sagði Benítez. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert