Hvernig stöðvar maður bestu framherjana?

Erling Braut Haaland á æfingu Salzburg í gærkvöld.
Erling Braut Haaland á æfingu Salzburg í gærkvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var spurður á fréttamannafundi í Salzburg í Austurríki í gærkvöld af norskum íþróttafréttamanni hvernig hann hygðist stöðva norska táninginn Erling Braut Haaland í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu sem fram fer í Salzburg í kvöld.

Haaland hefur verið magnaður með Salzburg í Meistaradeildinni og skorað 8 mörk í fimm leikjum en hann er aðeins 19 ára gamall.

Klopp var ekkert sérstaklega ánægður með spurninguna en svaraði henni málefnalega:

„Einu sinni var Robert Lewandowski í mínu liði. Allir pólsku fréttamennirnir vildu bara tala um hann. Ég vildi að þú gætir komið með eitthvert annað umræðuefni. En hann er 19 ára gamall, einstaklega góður leikmaður, en hvernig á maður að verjast mjög góðum sóknarmanni? Með því að reyna að tryggja að hann fái sjaldan boltann.

Hann er gríðarlega efnilegur og á bjarta framtíð fyrir höndum, en hvað varðar þennan leik, hvað gerir maður? Hindrar að hann fái sendingar, lokar hann af og klippir hann út úr leiknum. Gera honum eins erfitt fyrir og hægt er. Því miður er hann ekki eini góði leikmaðurinn í þessu liði,“ sagði Klopp.

Viðureign liðanna hefst klukkan 17.55 og er hreinn úrslitaleikur um sæti í 32ja liða úrslitum. Liverpool nægir jafntefli en Salzburg færi áfram með sigri, svo framarlega sem markatalan væri ekki 5:4 eða þaðan af hærri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert