Liverpool í viðræðum við Mönchengladbach

Florian Neuhaus er í þýska landsliðshópnum sem tekur þátt í …
Florian Neuhaus er í þýska landsliðshópnum sem tekur þátt í lokakeppni EM. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru í viðræðum við þýska fyrstudeildarfélagið Borussia Mönchengladbach um kaup á miðjumanninum Florian Neuhaus. Það er þýski miðillinn Sport1 sem greinir frá þessu.

Margir miðjumenn hafa verið orðaðir við Liverpool að undanförnu en þar ber hæst þá Lorenzo Pellegrini, Sergej Milinkovic-Savic og nú Neuhaus.

Georginio Wijnaldum mun yfirgefa Liverpool um næstu mánaðamót þegar samningur hans rennur út en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við franska stórliðið París SG.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, leitar nú að arftaka Wijnaldums en Neuhaus er 24 ára gamall miðjumaður sem er uppalinn hjá 1860 München.

Hann skoraði sex mörk og lagði upp önnur fimm í 33 leikjum í þýsku 1. deildinni á nýliðinni leiktíð þar sem Mönchengladbach hafnaði í áttunda sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert