Jólafróðleikur

Á jólum halda kristnir menn fæðingarhátíð frelsarans en menn hafa gert sér dagamun á þessum árstíma frá því löngu fyrir Kristsburð. Rómverjar héldu sólrisuhátíð í desember og ljósahátíð gyðinga, Hannukah, er enn þann dag í dag haldin hátíðleg um þetta leyti. Þá héldu heiðnir menn í Norður-Evrópu skammdegishátíðir, sem þeir kölluðu jól, til að fagna rísandi sól.

Eftir að kristni ruddi sér til rúms í Evrópu runnu ýmsar heiðnar hefðir saman við hin kristnu hátíðarhöld. Jólahefðir bárust síðan milli svæða með fólksflutningum og síðar með ferðalöngum og nýjum miðlum.

Á Íslandi einkenndist jólafasta fyrri alda af hjátrú og óvættum sem fóru á stjá þegar myrkrið var sem mest. Nokkrar þessara jólavætta lifa enn þrátt fyrir að breytt lífskjör og erlend áhrif hafi mildað ásjónur þeirra.

Íslensku jólasveinarnir eru dæmi um slíkar jólavættir en þeirra er fyrst getið í Grýlukvæði séra Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, frá 17. öld. Samkvæmt þjóðtrú voru þeir hið mesta illþýði, þjófóttir og hrekkjóttir og því af allt öðrum toga en hinn alþjóðlegi rauðklæddi jólasveinn. Á síðustu öld tóku gömlu íslensku jólasveinarnir hins vegar upp ýmis einkenni hans þannig að úr urðu séríslenskir jólasveinar sem heita nöfnum gömlu jólasveinanna, en líkjast hinum alþjóðlega jólasveini í útliti og innræti. Íslensku jólasveinarnir eru þó heldur sérkennilegri og nöfn þeirra: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og Kertasníkir segja til um einkenni þeirra, sem áður vöktu ótta en þykja nú bara skemmtileg.

Af öðrum íslenskum jólavættum er Grýla frægasta flagðið en hún er nefnd í Snorra-Eddu og Sturlungu. Grýla hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í barnauppeldi, þar sem eftirlætismatur hennar er kjöt af óþægum börnum. Í nútímaþjóðtrú er hún hins vegar fyrst og fremst móðir jólasveinanna sem þeir tala um af góðlátlegri virðingu.

Þjóðsagan um jólaköttinn lifir einnig meðal íslenskra barna. Samkvæmt þjóðtrúnni fara þeir sem ekki fá einhverja flík fyrir jólin í jólaköttinn en talið er að jólakötturinn eigi rætur að rekja til sameiginlega arfsagnar frá Norðurlöndum, þar sem jólahafur er þekkt barnafæla. Jólaköttur nútímans er þó, líkt og Grýla, fyrst og fremst hluti hinnar undarlegu jólasveinafjölskyldu og vekur því fremur kátínu en ótta.

Grýlukvæði á vef Námsgagnastofnunar

Skýringarmyndir: