Hjálparstarf kirkjunnar hófst á hamfarasvæðunum í Asíu klukkustundum eftir að hamfarirnar dundu yfir. Þar unnu kirkjur og kirkjutengdar stofnanir á hverjum stað að því að flytja fólk í skjól, deila út mat, fatnaði, plastdúkum, eldunaráhöldum, teppum og hreinlætisvörum, sinna slösuðum og fjarlægja lík. Um leið miðluðu þær upplýsingum til Alþjóðaneyðarhjálpar kirkna /ACT sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að. Þannig var hægt að meta stöðuna í heild, ákveða og samræma aðgerðir. Síðan hafa ACT-aðilar um allan heim, þar á meðal Hjálparstarf kirkjunnar, safnað fé, sent starfsmenn sína og hjálpargögn út. Fjármunir hafa þegar verið sendir til tvíhliða samstarfsaðila Hjálparstarfsins í Tamil Nadu og Andhra Pradesh á Indlandi.

Fagmennska, reynsla og staðbundin þekking
Styrkur ACT/Hjálparstarfs kirkjunnar er sá að starfið byggist á kirkjum og kirkjutengdum stofnunum á hverjum stað, - um allan heim. Þannig býr Hjálparstarfið alltaf að þekkingu íbúa á neyðarsvæðum á staðháttum, tungu og menningu. Fjármagn, sérþekking og áratuga reynsla kemur svo frá stærri félögum í þessu alheimsneti, samræmd, undir hatti ACT, til að ná hámarksárangri. Tölvu- og símasamband, bílar, flutningstæki og annað sem nauðsynlegt er til að aðstoðin skili sér veitir ACT.

Neyðaraðstoð - uppbygging
Matsteymi hafa farið um hamfarasvæðin og neyðarhjálp næstu 8-12 vikna hefur verið skipulögð. Fjárbeiðni fyrir fyrsta stig neyðarhjálparinnar liggur fyrir. Fram að þessu hefur verið unnið með viðbragðssjóð ACT. Síðan tekur við uppbygging og endurhæfing sem mun spanna mörg ár. Með þínum stuðningi mun Hjálparstarf kirkjunnar fylgja íbúum þessara landa eftir.

ACT / Alþjóðaneyðarhjálp kirkna er alheimsnet kirkna og kirkjutengdra stofnana og vinnur að því að bjarga lífi og styðja samfélög til forvarna og aðgerða við neyðaraðstæður.
www.act-intl.org
Til baka