Guðrún Bergmann - haus
12. apríl 2011

Mismunandi notagildi Himalaya salts

Himalaya_saltsteinarÞetta einstaka mörg þúsund ára gamla salt, sem kemur úr fjallshrygg sem kallast Saltfjöllin í Pakistan, hefur að sumu leyti sama notagildi og venjulegt salt sem keypt er í matvörubúðum, en einnig aðra sem eru mun heppilegri fyrir heilsuna.  Vegna þeirra 84 (af 92 sem líkaminn þarf) steinefna og málma, en þar á meðal eru kalk, magnesíum, kalíum, kopar og járn, telst það þó alltaf betri kosturinn.


Hægt er að nota fínmalað, bleiklitað Himalaya salti við venjulega eldamennsku og setja það út í súpur og heita rétti, eða mala grófari gerðina af saltinu í gegnum kvörn yfir matinn. Til að efla ónæmiskerfi líkamans er svo hægt að búa til saltvatnspækil eða -upplausn, sem gerð er með því að setja annað hvort 2,5 cm lag af grófum saltmolum í krukku og hella síðan yfir þá vatni - eða með því að setja 4 matskeiðar af fínna möluðu salti í lítra af vatni og lata standa í 12-24 stundir eða svo, þar til saltið er að mestu leyst upp. Best er að taka 1 teskeið af saltvatninu í glasi af vatni á fastandi maga á morgnana og borða ekkert  næstu 10 mínúturnar. Hvorki er gott að drekka kaffi né svart te ofan í saltvatnið.

Í baðvatnið er gott að nota ½-1 kg af salti og tryggja að vatnið sé alltaf við um það bil 37°-38°C þær 20-30 mínútur sem ráðlagt er að liggja í því. Saltvatnsbað hefur heilandi áhrif á flesta húðsjúkdóma, liðagigt, kemur jafnvægi á sýrustig húðarinnar og er gott þegar fólk er að ná sér eftir skurðaðgerðir.

Himalaya saltvatnsbað er líka gott ef um öndunarsjúkdóma er að ræða. Blandið þá salti út í heitt vatn, setjið handklæði yfir höfuðið og hallið ykkur yfir pottinn og andið gufunni að ykkur. Hægt er að nota saltvatnsupplausnina til að búa til heita bakstra til að leggja á opin sár, til að draga úr gigtarverkjum, þvagsýrugigt og beinþynningu. Þá er bómullartuska undin upp úr heitri saltvatnsupplausn (36°-37° C) og lögð á staðinn sem á að meðhöndla. Leggja má plastpoka yfir baksturinn og þurrt handklæði ofan á og halda bakstrinum heitum t.d. með hitapoka eða góðu teppi.

Hér er svo tilvitnun í John F. Kennedy heitinn, forseta Bandaríkjanna: „...öll höfum við í æðum okkar nákvæmlega sömu prósentu af salti í blóðinu og er í hafinu og því eru blóð okkar, sviti og tár sölt. Við erum nátengd hafinu. Og þegar við förum aftur til baka til þess... erum við að fara þangað sem komum."

Heimildir: http://www.mountainroseherbs.com/learn/pinksalt.php