Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Jólin kvödd
6. janúar 2016

Jólin kvödd

Í kvöld eru jólin víða kvödd með brennum, sem lýsa jólasveinum, Grýlu og Leppalúða leiðina heim, eða þannig. Hátíðin er löng og hefðirnar í kringum hana miklar. Það er nefnilega svo margt sem bara tengist jólunum, einkum og sér í lagi þegar kemur að matseld.

Á mörgum heimilum eru bara brúnaðar kartöflur á jólum. Það sama á við um smákökur og randalín. Þeir sem borða rjúpur finnst þær bara tengjast þessum árstíma. Ein vinkona mín sagðist einu sinni hafa eldað þær um páska og þær hefðu ekki einu sinni verið bragðgóðar, því þær pössuðu einhvern veginn alls ekki við árstímann. Eftirrétturinn hennar mömmu eða ömmu er bara búinn til um jól og þá skal sko njóta hans, þannig að flestir borða yfir sig.

Á mínu heimili líkt og á öðrum heimilum mynduðust ýmsar hefðir þegar synir mínir voru að vaxa úr grasi. Sumum hefur verið haldið við, en aðrar hafa horfið eins og sú að elda saltfiskgratín á Þorláksmessu, því á okkar heimili var ekki borðuð skata. Þótt aðalréttir jólanna hafi breyst hjá báðum sonum mínum, halda þeir fast í eftirréttarhefðina, ris a’la mande og vilja þá helst fá búðinginn með bláberjasaft eins og ég var alltaf með.

Nú um jólin dvaldi ég í Bandaríkjunum hjá syni mínum sem þar býr. Hann hafði ekki fengið ris a’la mande lengi og vildi nú finna leið til að útbúa eftirréttinn. Vandamálið var að það var ekki til nein bláberjasaft. Með samstilltu átaki tókst okkur að búa til hrásaft úr frosnum bláberjum og sennilega hefur ris a’la mande eftirrétturinn sjaldan bragðast jafn vel. Hér er löngu búið að taka niður allt jólaskraut, en við kveðjum jólin með “kjötbollunum hennar ömmu”, sem ég elda alltaf þegar ég kem í heimsókn og Toblerone ís, sem var vinsæll bæði á heimili sonar míns og tengdadóttur þegar þau voru að alast upp.

Hefðirnar klikka ekki.