Guðrún Bergmann - haus
23. september 2016

Streita, síþreyta og vanvirkni í skjaldkirtli

Af samræðum og heilsufarssögum kvenna, virðast þessi heilsufarseinkenni leggjast meira á konur en karla. Ég hef enga tölfræði til að bakka þetta upp, en ég hef hitt fleiri konur með vanvirkan skjaldkirtil, en karl. Orsakirnar fyrir því geta auðvitað verið margar, en hugsanlega eru líkamleg viðbrögð kvenna við steituálagi önnur en karla.

STRESSHORMÓNIÐ
Kortisól er lífsnauðsynlegt hormón, framleitt af nýrnahettunum og á að viðhalda jafnvægi í líkamanum. Það er oft kallað stresshormón, því kortisól hefur áhrif á, stjórnar eða stillir margar þær breytingar sem verða í líkamanum, þegar hann bregst við streitu. Og það er margt sem þetta hormón hefur áhrif á, meðal annars:

  • Blóðsykurmagn (glúkósa)
  • Meltingu á fitu, próteinum og kolvetnum, til að viðhalda glúkósa í blóði (gluconegenesis)
  • Viðbrögð ónæmiskerfisins
  • Bólgueyðandi viðbrögð
  • Blóðþrýsting
  • Samdrátt og þenslu í hjarta- og æðakerfinu
  • Virkni í miðtaugakerfinu

Undir eðlilegum kringumstæðum sveiflast kortisólmagn líkamans yfir sólarhringinn. Það er hæst um klukkan átta á morgnana, en lægst um klukkan fjögur að nóttu. Það er heilsu okkar nauðsynlegt að nýrnahetturnar gefi frá sér kortisól sem svörun við streitu, en jafn mikilvægt að starfsemi líkamans og kortisólmagn nái aftur jafnvægi eftir streituvaldandi áreiti. Því miður er það svo að streituáreiti er almennt mikið í nútíma samfélögum og streituviðbrögðin virkjast svo oft að líkaminn hefur ekki tækifæri til að ná hvíldarjafnvægi inn á milli. Þetta leiðir til heislufarsvandamála, sem rekja má til offramleiðslu á kortisóli eða þess að nýrnahetturnar ná ekki lengur að framleiða nægilegt magn af kortisóli (kortisólþurrð).

OF MIKIL FRAMLEIÐSLA KORTISÓLS HEFUR NEIKVÆÐ ÁHRIF
Sé um langtíma stöðugt streituástand að ræða, þar sem fólk nær ekki að slaka á nægilega vel til að koma jafnvægi á líkamann, getur það leitt til margra neikvæðra heilsufarsáhrifa, svo sem:

Skertrar vitrænnar frammistöðu, hægari starfsemi skjaldkirtils, ójafnvægis á blóðsykri, s.s. blóðsykurshækkunar, beineyðingar, svefnvandamála, vöðvarýrnunar, hækkunar á blóðþrýstingi, lægra ónæmissvars og þess að sár gróa hægt og illa.

Einnig getur það valdið kviðfitusöfnun, sem hefur meiri tengingu við ákveðin heilsufarsvandamál en fita sem safnast annars staðar á líkamann. Sum þeirra heilsufarsvandamála sem tengjast kviðfitu eru hjartaáföll, heilablóðföll, hækkun á “slæma” kólesterólinu og lækkun á því “góða”, sem getur leitt til annara heilsufarsvandamála.

OF LÍTIL FRAMLEIÐSLA Á KORTISÓLI HEFUR LÍKA SLÆM ÁHRIF
Þegar það verður kortisólþurrð og nýrnahetturnar ná ekki að framleiða nægilega mikið af þessu hormóni, geta afleiðingarnar líka verið neikvæðar fyrir heilsuna.

Einkenni eins og heilaþoka, óskýrar hugsanir og mild þunglyndiseinkenni geta komið fram. Einnig hægist á starfsemi skjaldkirtils svo hann verður vanvirkur. Ójafnvægi á blóðsykri leiður til blóðsykurfalls og þreyta, einkum á morgnana og síðdegis verður algeng. Svefnvandamál aukast, svo og bólgur í líkamanum og ónæmissvarið minnkar enn.

HVERNIG MÁ KOMA JAFNVÆGI Á KORTISÓLMAGNIÐ?
Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir krónísku streituástandi og leggja áherslu á að vinna á því. Taka tíma til að hægja á sér og vera meðvitaður um að lifa í augnablikinu.

  • Stundum er gott að stoppa, hvar sem maður er staddur og taka sér tíma til að draga andann djúpt svona tíu sinnum, til að ná að beisla hugsanirnar og muna að maður er alltaf staddur hér og nú.
  • Taka inn Magnesíum, eins og til dæmis nýju Magnesíum/Calcium blönduna frá NOW sem er með meira af magnesíum en kalki, auk þess að innihalda bæði D-3 og sink.
  • Setja sér þá áskorun að fara daglega út að ganga, þótt ekki sé nema í 15 mínútur. Súrefni og hreyfingin hefur ótrúlega góð áhrifa á heilsuna.
  • Rangt mataræði getur líka valdið streitu, svo forðist bólgumyndandi fæðu eins og kaffi, áfenga drykki, saltað og mikið unnið snakk og sætindi af öllum gerðum.

Allt getur þetta dregið úr streitunni og hjálpað til að koma jafnvægi á kortisólmagnið. Á stuðningsnámskeiðum mínum við HREINT MATARÆÐI lærir fólk líka leiðir til að takast á við þetta ójafnvægi.

Heimildir: Clean Program og AdrenalFatigue.org