Guðrún Bergmann - haus
26. nóvember 2017

Bragðlaukarnir grafa undan heilsunni

Löngun okkar í ákveðið bragð eða mat sem býr til vellíðan í líkamanum gerir það að verkum að við veljum frekar augnabliksáhrifin, heldur en að hugsa um langtímaáhrifin á heilsuna. Vil veljum okkur “huggunarfæðu” ef okkur líður illa, seljum okkur þá hugmynd að við eigum rétt á að fá okkur smá, sem oft getur orðið mikið og felum tilfinningar okkar undir fæðu eða einhverju öðru, til að þurfa ekki að takast á við þær.

Það er ekkert leyndarmál að sykur er ofarlega á blaði í þessum flokki, þar sem sykurneysla leiðir til framleiðslu á dópamíni í heila. Sykurinn rænir því eiginlega heilanum okkar og gerir okkur að sykurfíklum. Margir myndu afneita því að vera sykurfíklar, en þeir sem byrja daginn á súkkulaði með kaffinu, fá sér alltaf eitthvað sætt yfir daginn hvort sem það er kex, kökur, sælgæti eða annað sætt falla þó í þann flokk. Fíkn líkamans í vellíðanina sem fylgir dópamíninu hefur tekið yfir.

HVERSU LENGI ÆTLUM VIÐ AÐ LIFA
Það kemur mörgum á óvart þegar ég spyr fólk á námskeiðum mínum um HREINT MATARÆÐI hversu lengi það ætli að lifa. Fæstir hafa hugsað út í það. Þó eigum við öll dulda ósk um að sjá börn okkar vaxa úr grasi, fermast, ljúka námi, giftast og svo vonandi að fá að fylgjast með barnabörnunum þegar þau koma. Jafnvel að fá að lifa svo lengi að sjá þau fermast, ljúka námi og giftast.

Þess vegna er svo mikilvægt að hugsa um heilsuna NÚNA ef við ætlum að njóta bestu lífsgæða á meðan við lifum. Viljum við gera það virkilega vel verðum við að hafa í huga að góð heilsa byggist á fjórum undirstöðuþáttum. Heilsusamlegu mataræði, hreyfingu, svefni og bætiefnum.

Vá! Þið hélduð væntanlega að ég myndi koma með einhvern nýjan sannleika þarna – en það er sama hversu klisjukennt þetta hljómar, þessir fjórir þættir eru grunnur að góðri heilsu. Og ef við viljum ná árangri og halda góðri heilsu þurfum við að endurtaka þessa fjóra þætti daglega.

VIÐ GRÖFUM DAGLEGA
Það er mörgum erfitt að sætta sig við þá staðreynd að með mataræði og lifnaðarháttum séum við daglega annað hvort að grafa undan eigin heilsu eða byggja hana upp. Hugsanlega gröfum við mest undan heilsunni með sykurneyslu, enda erum við hér á landi með „heimsmet“ í henni, líkt og svo mörgu öðru.

Framundan er ein mesta sykurhátíð ársins. Sykurneysla hefur mikið breyst frá því ég var barn, en þá fengum við að smakka jólasmákökurnar daginn sem þær voru bakaðar og svo ekki fyrr en á Þorláksmessu. Nú er þegar byrjað að selja jólasmákökur í stórum stil og þær liggja frammi jafnt á heilbrigðisstofnunum, í fyrirtækjum, sem og í heimahúsum.

Sælgætisneysla er samfelld allt árið hér á landi sem og víða annars staðar, en eykst frekar en hitt þegar nær dregur jólum. MacIntosh – eða Quality Street sælgætið sem í minni barnæsku var skammtað yfir jólahátíðina, var komið í verslanir í byrjun nóvember og það verða örugglega nokkrir dunkar borðaðir á sumum heimilum áður en árið er liðið.

Jólahlaðborðin hefjast á veitingastöðum um miðjan nóvember og eftir alla neysluna af hlaðborðunum fyrir jól, finnst fólki lítið nýnæmi í hátíðamatnum um jólin sjálf. Þó er þegar hátíðin kemur öllu tjaldað til eins og gert var á árum áður, þegar slíkur dýrindismatur var bara borinn fram á jólum.

SYKUR SKAÐAR HEILSUNA
Sykur skaðar heilsuna ekki bara með fíkniáhrifum sínum, heldur getur hann haft skelfileg langtímaáhrif á hana. Það er nefnilega ýmislegt að gerast inni í líkamanum sem við ekki sjáum, því alvarlegir sjúkdómar verða sjaldnast til daginn sem þeir koma upp á yfirborðið. Auðvitað gæti ég fjallað um glúten líka, sem nú er almennt vísað til sem sykursýki týpu 3 vegna áhrifa sinna á Alzheimer’s, en sykurneyslan er að tröllríða nánast öllum samfélögum heims og er til dæmis í dag aðaldánarorsök Mexíkóbúa.

Áunnin sykursýki eða sykursýki týpa 2 hefur farið stigvaxandi hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Áætlað var árið 2014 að 422 milljónir fullorðinna einstaklinga væru með sykursýki týpu 2 og að sú tala myndi tvöfaldast fyrir árið 2030. Inni í þessari tölu eru ekki börn og unglingar en sykursýki týpu 2 hefur stóraukist hjá þeim aldursflokki, ekki bara hér á landi, heldur um allan heim.

NÆRINGARSNAUÐUR SKAÐVALDUR 
Í sykri eru engin næringarefni. Hvítur sykur er 99,9% hreint kolvetni og púðursykur er hvítur sykur úðaður með molassa (aukaefni sem verður til við sykurvinnsluna) annað hvort mikið (dökkur) eða lítið (ljós). Hrásykur er sykur sem hefur bara verið hreinsaður 84%, svo hann er með eitthvað af næringarefnum í sér ennþá.

Sykur skaðar heilsuna á ótal marga vegu og ég hef stundum sagt að hann sé eins og „sandur“ í líkamskerfinu okkar. Skemmir og skaðar hvar sem hann fer meðal annars á eftirfarandi hátt.

  • Getur leitt til næringarskorts hjá fólki, auk þess sem hann skemmir tennurnar í okkur.
  • Áður en sykur fer út í blóðið okkar brotnar hann niður í tvær einfaldar sykrur, glúkósa og frúktósa. Allar frumur þurfa á glúkósa að halda, en einungis lifrin getur brotið niður frúktósann. Ef hún er ofhlaðin frúktósa (frá sykri – lítið magn úr ávöxtum hefur ekki sömu áhrif) ræður hún ekki við verkið og breytir frúktósanum í fitu.
  • Of mikill frúktósi í lifrur getur leitt til fitulifrar, ótengdri áfengisneyslu, sem er mjög tengd öðrum meltingarvandamálum. Rannsóknir sýna að þeir sem eru með fitulifur borða 2-3 sinnum meira af frúktósa (sykri) en meðalmaðurinn.
  • Sykurneysla getur valdið insúínþoli, sem getur aftur leitt til alls konar meltingarvandamála og sykursýki týpu 2.
  • Krabbamein er eitt helsta banamein manna um heim allan, en aðaleinkenni þess er stjórnlaus vöxtur og margfjöldun frumna. Insúlín er eitt lykilhormónið í að stýra þess háttar vexti og margir vísindamenn telja að sé fólk stöðugt með of hátt insúlínmagn (afleiðing sykurneyslu) geti það leitt til krabbameina.
  • Kaloríur eru ekki allar skapaðar eins – og frúktósi veitir ekki sömu saðningstilfinningu og glúkósi. Vegna hins mikla frúktósa í sykri skynjar líkaminn síður að hann sé saddur eftir neyslu á sætum mat.

SKAÐSEMI SYKURSÝKINNAR
Ég hef horft á ættingja verða blinda vegna sykursýki, vini missa tær eða fætur og þjást af miklum kvölum og vanlíðan. Þá eru ekki taldir þeir sem fá hjartaáfall eða aðra sjúkdóma vegna undirliggjandi sykursýki.

Það skiptir því miklu máli ef við viljum forðast þennan vágest að vera meðvitaður um sitt eigið val á mat, velja frekar það sem gefur okkur saðningstilfinningu eins og til dæmis HOLLU SÚKKULAÐIBITANA á vefsíðunni minni, þegar okkur langar í eitthvað sætt í munninn, frekar en sælgæti fullt af hvítum sykri og ýmsum aukaefnum.

Ef þú vilt losna við sykurpúkann úr lífi þínu eða gefa einhverju öðrum tækifæri til þess er hægt að skrá sig á HREINT MATARÆÐI námskeið í janúar – eða kaupa gjafakort á námskeiðið. Það leggur góðan grunn að betri lífsstíl og á 24 dögum er hægt að merkja ótal breytinga sem verða á heilsunni, bara við það eitt að taka út ákveðnar matartegundir.

Heimildir: www.Healthline.com - www.Who.int

Guðrún Bergmann hefur haldið fyrirlestra og verið leiðbeinandi á ýmsum sjálfsræktarnámskeiðum í 27 ár. Hún er höfundur 17 bóka um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Nýjustu bækur hennar eru HREINN LÍFSSTÍLL og HREINT Í MATINN, sem nú er uppseld. Guðrún hefur leiðbeint um 900 manns í gegnum HREINT MATARÆÐI hreinsikúrinn á tæplega tveimur og hálfu ári. Fyrsta námskeið eftir áramót hefst 9. janúar.