Guðrún Bergmann - haus
27. janúar 2018

Viðhorf skiptir öllu máli

Það er svo magnað hvað viðhorf til hluta skiptir miklu máli. Tveir einstaklingar geta farið í gegnum sömu reynslu og upplifað hana á ólíkan máta. Öðrum finnst hún stórkostleg, meðan hinn á varla nógu sterk orð til að lýsa því hvað honum finnst hún ömurleg.

Við vöknum á morgnana og lítum daginn augum. Ef fyrsta hugsun okkar er: “Oh, enn einn leiðindadagurinn...” er nokkuð ljóst að hann verður á neikvæðu nótunum hjá þeim sem hugsar svona. Ef við hins vegar vöknum og byrjum á því í huganum að þakka fyrir allt það dásamlega í lífi okkar, góða heilsu, heimili, það að eiga rúm til að sofa í og að hafa tilgang í lífinu, hugsum við öðruvísi það sem eftir lifir dags.

Þakklætislistinn getur verið mismunandi eftir því hver við erum og hvað við erum að gera. Hins vegar er alveg ljóst að ef byrjað er á því að hugsa um það sem maður er þakklátur fyrir strax að morgni dags, verður dagurinn allur annar. Við leggjum nefnilega línurnar strax í upphafi hans og ef orkan er á jákvæðu nótunum, verður dagurinn og viðhorf okkar gagnvart honum á sömu nótum.

Við eigum lífið NÚNA. Því er mikilvægt að þakka fyrir það NÚNA til að njóta allra daga sem best, því enginn veit hversu marga daga hann á hér á Jörðinni.

HVERNIG SÉRÐU ÞIG?
Mér er ýmislegt minnisstætt frá þeim tíma er ég var að halda fyrstu sjálfsstyrkingarnámskeiðin mín árið 1990. Ég hafði útbúið lista með spurningum fyrir þátttakendur sem voru bara konur. Þær áttu að svara spurningum eins og: Hvað ertu ánægð með í eigin útliti? Hvað ertu óánægð með í eigin útliti?

Hverjir eru helstu kostir þínir? Hverjir eru helstu ókostir þínir?

Ég var að halda eitt af fyrstu sjálfsstyrkingarnámskeiðum á landinu og þátttakendur voru að stíga fyrstu skrefin inn á þessa braut. Ég var innblásin af því sem Louise Hay var að gera í Bandaríkjunum og vildi gera það sama hér, hvetja sjálfa mig og aðra til að sjá lífið í jákvæðara ljósi.

Á fyrstu námskeiðunum var nánast engin kvennanna ánægð með eigið útlit. Ég hafði sett 10 línur undir hverja spurningu og í flestum tilvikum var ekki skrifað í nema tvær eða þrjár línur við jákvæðu spurningarnar og fyrir koma þar var ekkert. Hins vegar var mikið skrifað við neikvæðu spurningarnar, en sem betur fer hefur sú þróun breyst.

BÚÐU TIL ÞÍNA EIGIN MÖNTRU
Almennt hefur hvatning til jákvæðara viðhorfs aukist. Mikilvægast er þó að læra að sætta sig við eigin líkama og útlit og læra að elska okkur eins og við erum. Um það var aldrei rætt í mínu uppeldi, svo það var eitthvað sem ég þurfti að læra um miðjan aldur og tók nokkuð á. Eins og svo margir aðrir bar ég mig saman við aðra – og var aldrei nógu flott eða góð eins og ég var.

En ég lærði og einhvern tímann fyrir mörgum árum, sennilega meira en tuttugu árum, bjó ég mér til mína möntru og staðfestingu, sem ég segi reglulega við sjálfa mig. Hún hefur verið mitt leyndó hingað til en ég deili henni hér, ef hún getur orðið einhverjum hvatning til að búa til sína eigin. Mín hljómar svona: “Ég er há, grönn og glæsileg, ungleg og falleg, með slétta og hrukkulausa húð.”

Hvort þessi mantra hafi orðið að nokkurs konar galdarþulu veit ég ekki, en svona til öryggis held ég áfram að endurtaka hana aftur og aftur. Við viðhöldum nefnilega jákvæði viðhorfi með endurtekningum, líkt og við viðhöldum hreinlæti með reglulegum baðferðum.

Guðrún Bergmann hefur haldið fyrirlestra og verið leiðbeinandi á ýmsum sjálfsræktarnámskeiðum í 28 ár. Hún er höfundur 17 bóka sem flestar fjalla um sjálfsrækt og náttúrulegar leiðir til betri heilsu. Fyrirlestrar hennar og námskeið fjalla um svipuð málefni, en næstu námskeið eru: HREINT MATARÆÐI í Reykjavík, á Akranesií Skagafirði og á Akureyri og 7 LEIÐIR TIL AÐ BÆTA SVEFNINN í Reykjavík.

www.gudrunbergmann.is