Guðrún Bergmann - haus
26. maí 2020

Hvað veistu um Vagus-taugina?

Ég hef fjallað um tenginguna milli þarma (ristils og smáþarma) og heila i gegnum Vagus-taugina á HREINT MATARÆÐI námskeiðum mínum, aðallega til að skýra út fyrir fólki að það séu bein tenging þar á milli.

En hvaða taug er þessi Vagus-taug og hvaða áhrif hefur hún? Hún er lengsta taug ósjálfráða taugakerfisins í mannslíkamanum, en taugakerfi okkar skiptist í miðtaugakerfi og úttaugakerfi. 

Miðtaugakerfið samanstendur af heila og mænu. Úttaugakerfinu er hins vegar skipt í sjálfráða (sympatíska eða viljastýrða) og ósjálfráða (parasympatíska) taugakerfið.

VAGUS-TAUGIN FLAKKAR VÍÐA

Á latnesku þýðir „Vagus“ sá sem flakkar um. Heitið tengist því hversu víða um líkamann taugin hefur áhrif á starfsemi hans. Vagus-taugin hefur áhrif á mikilvæga ósjálfráða þætti eins og hjartslátt, blóðþrýsting, öndunarhraða, svitamyndun og meltingarveginn svo eitthvað sé nefnt.

Vagus-tauginn stjórnar líka nokkrum vöðvum, þar á meðal þeim sem sjá um að við getum kyngt, svo og þeim sem snúa að hljóðmyndun og tali.

Vagus-taugin tengir heilann við nánast öll líffæri líkamans og þótt oft sé talað um Vagus-taugina í eintölu, eru taugarnar tvær. Baktaugin sem er frumstæðari grein Vagus-taugarinnar og kviðtaugin sem er nýrri grein Vagus-taugarinnar og tengist félagslegum samskiptum.

Í gegnum ósjálfráða taugakerfið stýrir Vagus-taugin samdrætti eða þenslu sjáaldurs augna, örvar munnvatnsflæði, stýrir samdrætti í lungnaberkju, hægir á hjartslætti, örvar iðrahreyfingu maga og þarma, bæði langsum og þversum, örvar losun á galli og hefur áhrif á eggjastokka og leg í konum og stýrir samdrætti þvagblöðrunnar.

HVERNIG TENGIST VAGUS-TAUGIN HEILSU OG LANGLÍFI

Vagus-taugin gegnir mikilvægu hlutverki í því að halda ónæmiskerfinu öflugu. Sterk tengsl eru á milli krónískrar (stöðugrar) streitu, ónæmisvirkni og bólgu í líkamanum. Undir skammtíma álagi örvar sympatíska taugakerfið losun á kortisóli og heldur ónæmiskerfinu í jafnvægi. Langtíma álag eða streita bælir hins vegar ónæmiskerfið.

Örvun Vagus-taugarinnar getur leitt til jafnvægis á ónæmiskerfi þínu og losað um ýmsa hormóna og ensím eins og asetýlkólín og oxýtósin. Afleiðingin yrði minni bólgur, aukið minni og slökunartilfinning.

Það hefur líka sýnt sig að örvun Vagus-taugarinnar dregur úr ofnæmisviðbrögðum og streitutengdum höfðuverkjum.

HEILA- OG ÞARMAÖXULLINN

Tjáskiptanetið sem tengir heila og þarma hefur verið kallað heila- og þarmaöxullinn. Kerfið er flókið, en Vagus-taugin gegnir lykilhlutverki í þessari tengingu. Hún sendir boð í báðar áttir.

Áttatíu prósent af upplýsingunum sem fara um Vagus-taugina, streyma frá líkama til heila. Einungis tuttugu prósent af Vagus-tauginni eru frálæg, en það þýðir að merkin eru send frá heila til líkama.

Rannsóknir hafa sýnt að örveruflóra þarma getur örvað Vagus-taugina og að slík örvun getur haft mikil áhrif á heilastarfsemi og hegðun fólks. Góð örveruflóra dugar þó ekki alltaf til, því rannsóknir hafa sýnt að streita truflar boðin sem send eru um Vagus-taugina og veldur meltingarvandamálum.

Léleg starfsemi Vagus-taugar skýrir af hverju streita dregur úr framleiðslu á magasýrum og meltingarensímum, eykur gegndræpi þarma (lekir þarmar), – sjá grein: 9 MERKI UM LEKA ÞARMA – veldur ójafnvægi í örveruflórunni og leiðir til lélegrar næringarupptöku.

Heimildir: Dr. Eva Detko, PhD og Dr. Arielle Schwartz

Mynd: CanStockPhoto / Alex_Kock