Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Kerhólakambur
26. febrúar 2010

Kerhólakambur

Esjan er vinsælasta fjall landsins enda ganga þúsundir á hana árlega. Flestir fara hina hefðbundnu leið frá Mógilsá á Þverfellshorn. Fjölmargir fara þessa leið vikulega eða oftar sem líkamsrækt. En það eru fleiri leiðir á Esjuna sem vert er að gefa gaum. Hér er lýsing á leiðinni á Kerhólakamb sem er hiklaust hægt að mæla með. 

Ökuferðin: Ekið er frá Reykjavík og í átt að Kjalarnesi. Eftir að komið er framhá Mógilsá er ekið framhjá malarnámi. Næst er ekið framhjá afleggjara að bænum Stekk. Beygt er næsta afleggjara til hægri sem er ómerktur (áður en komið er að afleggjaranum að Esjubergi). Vegurinn endar við á er nefnist Grundará en þarna var eitt sinn býli er nefndist Grund. Hér er bílnum lagt og gangan hefst.

Gangan: Gengið er með ánni í átt að Gljúfurdal sem er í reynd gríðarstórt gil. Komið er að girðingu. Eftir að yfir hana er komið þarf að stikla yfir ánna tvisvar sinnum. Hér blasir við nokkuð brattur hryggur og hefur myndast gönguslóð upp hann sem rétt er að fylgja. Hér er brattasti hluti göngunnar og rétt að fara varlega. Sérstaklega þarf að varast grjóthrun sem stafað getur frá göngumönnum ofar í brekkunni. Þegar komið er upp hrygginn er haldið ská upp til vinstri að Bolagili. Upp með Bolagili er slóði sem er nokkuð greinilegur. Þegar gilinu sleppir tekur við mói og hverfur slóðin. Haldið er beint upp móann. Gott er að stefna á greinilegan hól ofar í brekkunni og halda þaðan beint upp brekkuna. Nú blasir Kerhólakamburinn við. Mikilvægt er að halda vel upp með kambinum en ekki leggja strax til atlögu við hann. Þegar upp á háöxlina er komið blasir auðveld brekka við upp á kambinn sjálfann. Kerhólakamburinn er nokkuð flatur og víðáttumikill. Til að finna hæsta punktinn sem er 852 metra hár þarf að ganga nokkuð inn á kambinn en það er vel þess virði.

Heildargöngutími: 3 tímar

Hæðarhækkun: 792 metrar