Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Tindfjöll
2. mars 2010

Tindfjöll

TindfjallajökullEitt af mínum uppáhalds fjöllum á Íslandi eru Tindfjöll. Hæstu tindarnir eru tveir og nefnast Ýmir 1.462m. og Ýma 1.448m. Við tindana er Tindfjallajökull sem er fremur smár og hefur nokkuð hopað undanfarin ár. Útsýnið er ægifagurt yfir Eyjafjallajökul, Mýrdalsjökul, Fjallabak og Heklu svo eitthvað sé nefnt. Að standa á þessum tindum á góðum degi er sannanlega ógleymanlegt.

Innst í Fljótshlíð er bærinn Fljótsdalur og er þar slóði upp í Tindfjallaskála sem er í 800 metra hæð. Þessi gamli og merkilegi skáli hefur nýlega verið endurnýjaður og er þar aðstaða nú öll til fyrirmyndar. Hægt er að panta gistingu í skálanum hjá Ísalp. Frá skálanum er haldið til austurs í Skíðadal en þaðan upp í Búraskarð. Gengið er yfir Tindfjallajökulinn og farið norðan við tindana. Farið er upp nokkuð bratta brekku í skarð á milli tindanna tveggja. Þaðan er auðveld ganga upp hrygginn á Ými sem er hærri tindurinn. Ýma er nokkuð brattari en þó engin veruleg fyrirstaða.

tindfjallajokull-1.jpgÞað er óhætt að mæla með þessari fjallgöngu. Besti tíminn í Tindfjöllum er vorið, mars til maí. Ef farið er á breyttum jeppum má aka upp í Skíðadal á snjó og ganga þaðan. Fyrir vana göngumenn á breyttum jeppum er vel hægt að fara á Tindfjöll sem dagsferð frá Reykjavík. Gisting í Tindfjallaskála er hins vegar alltaf skemmtileg viðbót og í raun ómissandi partur af ferðalaginu.