Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Svefnpokar
6. apríl 2010

Svefnpokar

marmotEitt af því sem ég kann best að meta af búnaðinum mínum er svefnpokinn. Það er virkilega góð tilfinning að skríða í hlýjan svefnpoka eftir góðan dag á fjöllum. Að vera kalt á nóttunni er hins vegar uppskrift að vanlíðan og tekur fljótt ánægjuna úr ferðinni. Alltof algengt er að fólk tali um kulda í útilegum og forðist þær jafnvel af þeim sökum. Það er alger óþarfi að láta sér verða kalt og auðvelt að leysa það með því að fjárfesta í góðum svefnpoka.

Svefnpokum má skipta í tvo flokka, dúnpoka og fíberpoka. Dúnpokarnir eru mun þægilegri að mínu mati. Þeir eru léttari, hlýrri og pakkast betur en fíberpokar. Ég hef tekið ástfóstri við einn -30°C dúnpoka og hef notað hann bæði um sumar sem vetur. Mér verður aldrei kalt og þegar hitnar í tjaldinu eða skála er hægt að renna honum niður og nota sem sæng.

Aðal gallinn við dúnpokana er að þeir mega ekki blotna. Í tjaldferðum að vetrarlagi getur verið vonlaust að halda svefnpokanum þurrum. Mikill raki vill safnast inn í tjaldið og alveg saman hversu mikið maður leggur sig fram um að halda pokanum frá rakanum þá blotnar hann á endanum. Við slíkar aðstæður er mun betra að hafa hlýjan og góðan fíberpoka.

Fyrir íslenskar aðstæður er skynsamlegt að byrja á að kaupa sér vandaðan og hlýjan fíberpoka þar sem raki er viðloðandi vandamál bæði að sumri sem vetri. Vilji menn bæta við þægindin og auka úrvalið er dúnpoki eitthvað sem fylgir fljótt á eftir. Aðal málið er að pokinn sé hlýr og úr vönduðum efnum. Slíkir pokar eru vissulega dýrir en ég get fullvissað þig um að þeir eru hverrar krónu virði.