Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Mannbroddar
30. apríl 2010

Mannbroddar

MannbroddarMannbroddar eru nauðsynlegur búnaður á flestum jöklaferðum og erfiðari fjallgöngum að vetri til. Margir hafa stigið sín fyrstu skref á broddum í hlíðum Hvannadalshnúks og upplifað hversu gott grip þeir veita í snjó og ís. Gaddarnir eru flugbeittir og vissara að beita þeim rétt. Ekki er mælt með að stíga á tærnar á ferðafélögunum eða krækja þeim í buxnaskálmar. Slíkt vill þó henda þegar þessi tól eru notuð í fyrsta sinn. Það tekur nokkurn tíma að læra að treysta broddunum og læra að fóta sig. Mikilvægt er að hafa gott bil á milli fóta og stíga þétt til jarðar. Æskilegt er að beita ávallt öllum göddunum undir skósólanum og er það sérstaklega mikilvægt eftir því sem færið er harðara. Frambroddarnir eru ekki notaðir nema í mjög bröttum brekkum og er þeim þá sparkað inn.

Það er í þessu eins og öðru að æfingin skapar meistarann. Ein besta æfing sem hægt er að fá í broddanotkun er að spranga um á skriðjöklum. Þar er ísinn hæfilega harður og gerir kröfu um rétta beitingu. Undir leiðsögn ættu flestir að vera farnir að fá góða tilfinningu fyrir nokun mannbrodda á einni slíkri æfingargöngu.