Haraldur Örn - haus
26. maí 2010

Toppadagar byrja snemma

Hvannadalshnukur9Á háum fjöllum út um allan heim er venja að leggja snemma til atlögu við tindinn. Algengt er að lagt sé af stað skömmu eftir miðnætti. Fyrsti hluti toppadagsins er því oft í myrkri og er þá gengið með höfuðljós. Ástæður fyrir þessu eru margar. Meðal annars má nefna að fjallgöngumenn vilja forðast sólbráð sem myndast eftir hádegi en þá eykst hætta á snjóflóðum og ís- og grjóthruni. Það er þó ekki síður hart göngufæri sem menn sækjast eftir snemma morguns. Þegar líður á daginn verður snjórinn mjög mjúkur og gerir það fjallgönguna töluvert erfiðari. Hitinn getur einnig orðið óþægilega mikill þegar líður á daginn. Þá má nefna að toppadagar geta orðið mjög langir og menn vilja forðast að lenda í myrkri á leiðinni niður. Loks má nefna að veður eru oft best fyrri hluta dags þar sem fjöllin vilja oft draga á sig ský þegar líður á daginn. Það eru því margar ástæður fyrir því að leggja af snemma af stað. Helsti gallinn við að leggja svo snemma af stað er svefnleysi og þreyta sem því fylgir. Þetta er þó eitthvað sem maður venst með tímanum og maður er tilbúinn að leggja á sig.

Þetta á einnig við þegar gengið er á Hvannadalshnúk. Venja er að leggja af stað milli klukkan 3 og 5 á morgnana. Stundum getur þó verið gott að leggja enn fyrr af stað. Þannig háttaði til dæmi til um síðustu helgi. Ég tók að mér að ákveða brottfarartíma fyrir tvo stóra hópa. Þetta eru alltaf erfiðar ákvarðanir og að mörgu að hyggja. Eftir að hafa fengið góð ráð frá veðurfræðingum ákvað ég að hóparnir færu af stað sem næst miðnætti. Þannig lagði hópur Ferðafélags Íslands af stað á miðnætti en hópur Fjallafélagsins uppúr klukkan eitt. Þetta reyndist góð ákvörðun að mínu mati því að færið var það allra besta sem ég hef upplifað á Hnúknum. Jökullinn var eins og parketlagður eins og einn orðaði það. Veðrið var einnig fullkomið og á toppnum var blankalogn og sól. Þegar haldið var niður var færið farið að mýkjast og voru allir fegnir að hafa ekki þurft að ganga í slíku á uppleiðinni. Gjaldið sem við greiddum var svefnleysi og sagði það vissulega til sín. Það er eitthvað sem oft fylgir toppadögum á háum fjöllum.