Haraldur Örn - haus
8. júní 2010

Hrútsfjallstindar

Hrutsfjallstindar10_018Fór á Hrútsfjallstinda um síðustu helgi. Þessir tindar hafa náð vaxandi vinsældum meðal fjalla- og göngufólks seinustu árin og er það ekki að ástæðulausu. Það er óhætt að segja að gönguleiðin á tindana sé með þeim glæsilegustu á landinu. Útsýni til beggja handa er óviðjafnanlegt, annars vegar yfir Skaftafellsjökul og hins vegar yfir Svínafellsjökul.

Við lögðum af stað laust eftir miðnætti aðfararnótt laugardagsins. Það var því lítið sofið fyrir ferðina. Tilgangurinn með því að fara svona snemma var að fá harðara og betra göngufæri auk þess sem við töldum að veður yrði betra fyrri hluta dagsins.

Hrutsfjallstindar10_030Það er alltaf mögnuð tilfinning að ganga í vornótt til móts við hæstu tinda. Allt er kyrrt og hljótt og það er eins og náttúran sofi. Þegar komið var upp í Hafrafellið lagðist yfir okkur þokuslæða um stund. Síðan var henni svipt skyndilega af okkur og við blasti eitt glæsilegasta útsýni landsins, upp Svínafellsjökul og til Hrútsfjallstinda og Hvannadalshnúks.

Gangan gekk mjög vel og náðum við tindinum á sjö og hálfum tíma. Á toppnum var stafalogn og sól. Ekki amarlegt að upplifa svona stund. Síðan var haldið aftur niður sömu leið. Alls tók gangan um 13 tíma. Myndir úr ferðinni eru hér til hægri og á heimasíðu Fjallafélagsins: www.fjallafelagid.is.