Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Niðurgangur
14. júní 2010

Niðurgangur

Thverartindsegg_2010042Mörgum finnst niðurgangurinn vera hvimleiður fylgifiskur fjallaferða. Eitt er þó víst að hann er óumflýjanlegur, samanber enska máltækið "What goes up, must come down". Hér er ekki verið að tala um magakveisur og það sem þeim fylgir, heldur gönguna niður. Magakveisur eru hins vegar mjög svo áhugavert umræðuefni sem verður e.t.v. tekið fyrir síðar í þessum pistlum.

Það er auðvelt að álykta að gangan niður fjallið sé létt og mun auðveldari en gangan upp. Oft virðist andstaðan hins vegar vera raunveruleikinn. Margir sem ganga á Hvannadalshnúk halda því fram að gangan niður síðustu 700 metrana sé erfiðasti hluti göngunnar. Þá eru þreytan mest og hné orðin aum. Mörgum finnst einnig brekkurnar vera mun lengri á niðurleiðinni en á uppleiðinni. Þetta er vegna þess að á uppleiðinni er fólk með hugann upptekinn við tilhlökkun að ná settu marki, þ.e. tindinum. Á niðurleiðinni er slíku ekki til að dreifa.

Það er óhætt að segja að þolinmæði er dyggð fjallamannsins. Aldrei reynir meira á andlegu hliðin en þegar verið er að ganga til baka til byggða eftir langan dag á fjöllum. Þá er þreytan í hámarki og einbeitingin oft minni. Þetta eykur hættu á mistökum og röngum ákvörðunum. Þetta skýrir meðal annars hvers vegna flest slys verða á niðurleiðinni.

Gangan niður reynir mikið á hnén og getur slitið þeim til lengdar. Það er því mikilvægt að fjallgöngumenn hlífi hnjánum og verndi þau á göngunni niður. Ég hef til dæmis reynt að halda aftur af mér með að hlaupa niður brekkur því það er líklega það allra versta sem hægt er að leggja á þau. Margir fá verki í hné við göngu niður í móti. Þetta er oftast verkur inní miðju hnénu og ágerist eftir því sem lengur er gengið niður. Eftir því sem lengra líður getur verkurinn orðið verri og á endanum orðið óbærilegur. Oft er svona hnjáverkur afleiðing af því að fólk hefur ekki þjálfað sig nægjanlega vel fyrir langar fjallgöngur. Einnig getur hann verið afleiðing af sliti og meiðslum í hnjám.
Göngustafir geta hjálpað mikið við að hlífa hnjám. Þeir henta best í meðal bröttum brekkum þar sem göngulandið er ekki mjög stórgrýtt. Þá ná þeir oft að taka töluvert álag af hnjánum. Það verður þó að nota stafina rétt og ofnota þá ekki sem stuðning til hliðanna. Þeir eiga fyrst og fremst að notast til að taka högg og álag sem fylgir niðurhreyfingunni.