Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Mæla árangur
3. júní 2010

Mæla árangur

hjola1.jpgÞað var frábær stemming á hjólakeppninni í gærkvöldi. Mótið gekk vel og margir voru að bæta sig, sérstaklega nokkrir nýliðar sem sumir söxuðu hátt í 4 mínútur af tímanum sínum frá Íslandsmótinu sem var á sömu braut í ágúst 2009. Ég bætti Íslandmet mitt frá því í fyrra um 1 mín og 18 sekúndur en hægt er að sjá nánari umfjöllun, myndir  og úrslit á http://hfr.is/

Það er fátt sem gleður mann meira en að bæta eigin árangur. Fyrir mér er það allavega sælutilfinning sem engir peningar eða veraldlegir hlutir koma í staðinn fyrir. Það er misjafnt eftir íþróttagreinum hversu auðvelt er að mæla bætingar. Til dæmis er mjög auðvelt að mæla nákvæmar bætingar í staðlaðari sundlaug eða innanhúss hlaupabraut en erfiðara t.d í boltaíþróttum þar sem matið byggist gjarnan á  samanburði við andstæðinga.

Það er t.d erfitt að bera saman þríþrautartíma, hjólatíma og  hlaupatíma á mismunandi stöðum því brautin er ekki alltaf rétt mæld, vegalengd á skiptisvæði getur verðið á bilinu 50 m – 1 km, landslagið er misjafnlega hæðótt, undirlagið er misjafnlega gott og vindur og úrkoma geta haft mikil áhrif. En það að keppa á flatri braut í góðu veðri er nokkrum mínútum fljótlegra en að keppa í hæðóttu landslagi í roki og rigningu. Einnig er tvennt ólíkt að hlaupa á malbiki eða leðju og sandi.

Sama  hvað þú ert að æfa fyrir þá er mikilvægt að mæla reglulega árangur. Til dæmis  tek ég reglulega  6 mínútna hlaupapróf, 400 m sundpróf og 20 mín hjólapróf á þrekhjóli. Það heldur mér við efnið og hjálpar mér að sjá hvort ég sé á réttri leið eða með réttar áherslur. Ef þú æfir íþrótt þar sem auðvelt er að mæla árangur þá er það lúxus og mæli ég hiklaut með því að þú takir stutt “próf” á 8 vikna fresti. Boltaíþróttafólk getur t.d miðað við ákveðnar tækniæfingar, þrekæfingar og samanburð við æfingafélaga. Annað sem er gott að gera er keppa 1-3 á ári á sömu braut og/eða við sömu andstæðinga. Ég veit ekki hversu mikið af bætingu minni í gær var vegan góða veðursins, en til þess að meta það get ég t.d skoðað hversu mikið bestu menn sem kepptu líka með mér í fyrra voru að bæta sig en ef þeir voru flestir að bæta sig jafnmikið og ég þá er bæting mín sennilega veðrinu að þakka, nema við höfum öll verið svona dugleg að æfa. Ég ætla að reyna að keppa aftur í ágúst á sömu braut. Veðrið getur ekki orðið betra en í gær þannig  ég fæ þá betri mynd hvort ég sé að standa mig og nái sama eða betri tíma :-)