Karen Axelsdóttir - haus
28. júlí 2011

Íslandmeistaramótið í ólympískri þríþraut.

Síðasta  laugardag fór fram Íslandsmeistaramótið í ólympískri vegalengd í þríþraut (1500 m sund, 40 km hjól, 10 km hlaup ). Ég landaði Íslandsmeistaratitlinum í kvennaflokki og kom þriðja í mark á eftir tveimur keppendum í karlaflokki. Mjög sátt við það og gaman að keppa heima á Íslandi. Á Íslandi er synt í sundlaug í þríþrautarkeppnum.  Það var kósý að vera á sundbraut og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur hvert maður er að fara eða hvar keppinautarnir eru staddir. Ég elti Torben sem er okkar fremsti kappi í styttri vegalendum og við syntum á 23 :34 án blautbúnings. Ég hefði alveg haldið í hann þó hann hefði farið hraðar en mat aðstæður þannig að ef ég færi að troða mér fram úr honum þá væri ég að eyða fullt af orku fyrir kanski 15 sekúndur. Ég saknaði þess að hafa sundlegginn ekki í stöðvatni eða sjó. Það er eitthvað svo magnað við það að vera innan um hundruð manns, lenda í slaginum sem fylgir startinu og glíma við óttan sem því fylgir. Það að vera góður sundmaður fleytir þér skammt ef þú nærð ekki að halda ró þinni við svoleiðis aðstæður og það er það gefur að mínu mati þríþrautinni svo sérstakan stall. En ég skil vel af hverju það er ekki raunin á Íslandi enda vatnið mjög kalt og fáir sem eiga blautbúning.             Það var logn í Reykjavík um morgunin þannig ég hugsaði mig ekki tvisvar um þegar ég setti djúpar keppnisgjarðir á hjólið mitt. Það fóru að renna á mig tvær grímur þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina og sá  ótti reyndist á rökum reistur því á hjólaleggnum reyndist mesti hliðarvindur sem ég hef hjólað í. Djúpar keppnisgjarðir eru léttar, brjóta vel vindmótstöðu og geta sparað þér um 1 mínútu við kjöraðstæður á 40 km braut. Hins vegar geta þær unnið á móti þér og virkað sem mótsegl ef vindátt er óhagstæð eða stendur á hlið þannig þetta stundum svolítið púsl hvaða gjarðir er best að nota hverju sinni  þ.e.a.s ef þú hefur eitthvað úrval. Ef þú átt djúpa afturgjörð eða plötugjörð þá skaltu alltaf nota hana því líkamsþunginn hvílir meira á afturgjörðinni og þó þú lendir í hliðarvindi þá sleppur það í lang flestum tilvikum. En notkun framgjarðar skaltu meta eftir vindi.  Ef það er mikill hliðarvindur þá er best að vera með venjulega framgjörð því djúp framgjörð virkar eins og hliðarsegl, feykir hjólinu til hliðar og þú endar með því að eyða g ríðarlegri orku við það eitt að halda þér á hjólinu. Ég og margir þarna vorum satt að segja í miklum vandræðum við það að halda okkur á hjólinu og þetta var eina skiptið á ævinni þar sem ég óskaði þess að vera þyngri til að haldast stöðugri. Á versta kaflanum var varla hægt að drekka né skipta um gír og í einni vindhviðunni feykstist stýrið alla leið í hnéð og ég rétt slapp við það að fjúka af. Ekki sjéns að ég gæti haldið í Torben, Viðar og Vigni sem eru allir sterkir hjólreiðamenn og virtust ekki haggast við þessar aðstæður.  Þetta var frábær lexía fyrir Hawaii, því hliðarvindarnir þar eru frægir fyrir að valda keppendum vandræðum. Ég var satt að segja uppgefin í efri líkama við það að halda hjólinu stöðugu í þessa 40 km og hefði ekki boðið í það að gera slíkt í 180 km, hvað þá hlaupa maraþon á eftir. Planið á næstunni er sem sagt að æfa meira í vindi, nota þunna gjörð (max 404) á keppnisdag og gera styrktaræfingar fyrir efri líkama. Hlaupaleiðin var dásamleg, upp og niður skógarstíga í hlíðinni fyrir ofan Hveragerði. Torben, Viðar og ég höfðum langt forskot á aðra keppendur en ég missti þá aðeins of langt fram úr mér á hjólinu til að hlaupa þá uppi og hélt minni stöðu á þægilegu hlaupatempói . Ef þú ert í þéttri keppnisdagskrá eða miðju prógrami fyrir stærri mót þá borgar sig aldrei að ganga á hlaupatankinn  ef þú metur það þannig að það breytti ekki þinni stöðu gagnvart verðlaunasæti því svoleiðis orkuneysla kostar þig amk 1-2 daga í þreytu og stífleika.  Annars var þetta alveg frábært mót vel skipulagt og þátttakendur fengu meira að segja íspinna í heita pottinum eftir. Sértakar þakkir fá stuðningmenn og allir sjálfboðaliðarnir sem vöknuðu eldsnemma á laugardagsmorgni til að aðstoða við mótshald. Án þeirra væri ekki hægt að halda svona mót.