Sigurður Erlingsson - haus
28. júní 2010

Hvaða leið á ég að velja?

Það er mjög algengt að fólk sem er að koma í fjármálaráðgjöf til mín, hafi  frestað í langan tíma aðpeningavandraedi.jpg taka á vandanum, vegna þess að það veit ekki hvaða leið það á að velja.  Ástandið í þjóðfélaginu hefur samt minnkað aðeins óttan við að þora að spyrja, en óttinn við mögulega niðurstöður eða neikvæð svör stoppa samt marga af. 

Ég byrjaði á því fyrir nokkru samhliða fjármálanámskeiðunum, að halda stutta fyrirlestra sem hafa verið vel sóttir undir nafninu „Hvaða leið á ég að velja". En þar leitast ég við að svara spurningum sem fólk hefur ekki þorað að spyrja um.  Útskýra með einföldum dæmum, mismunandi leiðir og úrræði, hvað öll þessi hugtök þýða og hvaða afleiðingar mismunandi leiðir hafa á einstaklinga og fjölskyldur þeirra.  Þarna hafa verið að koma bæði fólk sem nýlega er komið í vanda og líka aðilar sem voru í vanda fyrir mörgum árum, gengu jafnvel í gegnum gjaldþrot, en hafa aldrei þorað að kanna hvaða rétt þau hafa. Skömmin og niðurlægingin hafa stoppað þau af í að þora að leita réttar síns.

Það er lykilatriði að fólk átti sig á því að það þarf ekki að hafa svörin til að geta lagt af stað. Aðalatriðið er að leggja af stað, svörin koma á leiðinni. Það er ekkert sem er rangt eða rétt, ef mér mistekst eða spyr vitlaust þá bara spyr ég eða byrja uppá nýtt. Það að ég semji um eitthvað í dag, tekur aldrei frá mér réttinn til að semja upp á nýtt á morgun ef aðstæður breytast.

Það sem hefur líka verið mjög algeng fyrirstaða í að fólk leggi af stað til að leysa sín mál,  er misskilinn ótti við að ekkert sé hægt að gera vegna ábyrgðarmanna sem eru á skuldum hjá viðkomandi. Fólk er tilbúið til að ganga ótrúlega langt og gera mjög óhagstæða samninga, einungis undir því yfirskini að vernda ábyrgðarmenn.  Þetta vita þeir aðilar sem sitja hinum megin við borðið. En þetta er mikill misskilningur, það er auðvitað ekki verið að vernda ábyrgðarmennina. Oftast er þetta í raun hræðsla við að eiga samskipti við ábyrgðarmennina. Með því að eiga samskipti við ábyrgðarmennina, má í sameiningu gera samkomulag sem skuldarinn getur staðið við og allir koma út sem sigurvegarar á endanum.

Því fyrr sem þú byrjar að taka á málunum, því fyrr byrjar nýtt og betra líf.

Leyndarmálið við að komast áfram,  er að hefjast handa.