Veit hverjir láku listanum

Frá Lundúnum. Breski þjóðarflokkurinn nýtur einkum vinsælda í fátækum hverfum …
Frá Lundúnum. Breski þjóðarflokkurinn nýtur einkum vinsælda í fátækum hverfum þar sem þungaiðnaður hefur flust burtu. Reuters

Nick Griffin, leiðtogi Breska þjóðarflokksins, BNP, kveðst hafa heimildir fyrir því hverjir hafi lekið listanum yfir meðlimi flokksins á netið. Takist að færa sönnur á lekann muni hinir seku fara í fangelsi.

Telur Griffin að þeir sem beri ábyrgð á lekanum á um alls 12.000 nöfnum, auk persónulegra upplýsinga um meðlimina, á sunnudagskvöld hafi litið svo á að flokkurinn fetaði of hófsama braut undir forystu hans.

Breski þjóðarflokkurinn vann í apríl mál fyrir rétti sem varðaði kröfu fyrrum flokksfélaga um réttinn til að birta slíkan lista.

Birtingin er hitamál, enda dæmi um að fólki hafi verið refsað eftir að upp komst að það væri skráð í flokkinn.

Hefur Griffin látið þau orð falla að á sama tíma og flokkurinn leggist ekki gegn því að greint verði frá því hverjir séu flokksfélagar sé ljóst að um leið og blaðamenn ganga svo langt að birta slíkar upplýsingar séu þeir að ganga úr ríki blaðamennskunnar yfir á lágkúrulegt svið kúgunar fyrir hönd stjórnar Verkamannaflokksins. 

En Griffin hefur í gegnum tíðina gjarnan hagað málflutningi sínum svo að í Breska þjóðarflokknum fari flokkur sem njóti ekki sannmælis vegna pólitískrar rétthugsunar og skoðanakúgunar hugsanalögreglunnar, vinstrisinnaðs hóps sem hafi tögl og hagldir á fjölmiðlunum.

Griffin, sem er einstaklega vel máli farinn, er Cambridgemenntaður og því af öðrum bakgrunni en flestir fylgismanna sinna, sem flestir eru hvítir karlar í lægri millistétt sem telja sig hafa farið illa út úr aðflutningi verkafólks til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert