Gagnrýnir hryðjuverkalögin

Retuers

Beiting hryðjuverkalaga á Landsbankann og Ísland er gagnrýnd í nýrri skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins, sem birtast mun opinberlega í dag.

Hvetur nefndin breska fjármálaráðuneytið til að fara yfir lögin og velta því fyrir sér hvort rétt yrði að beita þeim undir svipuðum kringumstæðum í framtíðinni. Þá kallar nefndin eftir breytingu á lögum svo að yfirvöld hafi önnur úrræði en að beita hryðjuverkalögum í tilvikum eins og þeim þegar Landsbankinn fór á hliðina. Óhjákvæmilegt sé að beiting hryðjuverkalaga hafi alvarleg neikvæð áhrif á ímynd þess sem fyrir henni verður. Því væri heppilegt að stjórnvöld byggju yfir öðrum verkfærum sem ekki hefðu jafn afdrifaríkar afleiðingar.

Kaupþing hefði farið á hausinn

Í skýrslunni er einnig tekið á þeim ástæðum, sem Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, gaf fyrir að beita hryðjuverkalögunum. Þann áttunda október sagði Darling að íslensk stjórnvöld hefðu sagt sér að þau hefðu ekki í hyggju að standa við skuldbindingar sínar í Bretlandi. Er í skýrslunni vísað til samtals Darlings og Árna Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra Íslands, og er þar ekkert sagt vera sem styðji fullyrðingar Darlings.

Þvert á móti hafi Árni sagt að Ísland vildi reyna að mæta skuldbindingum í Bretlandi með tryggingasjóði innistæðueigenda. Hins vegar segir þingnefndin að ekkert hafi komið fram sem hreki þá trú Darlings að komið yrði fram með mismunandi hætti gagnvart íslenskum og breskum innistæðueigendum í íslensku bönkunum.

Segir í skýrslunni að orð og aðgerðir Darlings hafi haft alvarleg áhrif á traust markaðsaðila í garð Kaupþings, sem á þeim tíma stóð eitt eftir af þremur stærstu íslensku bönkunum. Hins vegar hafi nefndin ekki séð nein gögn sem bendi til að Kaupþing hefði getað forðast gjaldþrot þótt Darling hefði ekki tjáð sig með áðurnefndum hætti.

Þá segir að með aðgerðum sínum hafi bresk stjórnvöld gripið með beinum hætti inn í fjármálamarkaðinn og hafi þar með hætt að vera hlutlægur áhorfandi. Íslenskum stjórnvöldum hafi ekki þótt hjálp í þessum aðgerðum bresku stjórnarinnar.

Sveitarfélögum ekki bjargað

Margir Bretar höfðu lagt fé sitt í Icesave-reikninga Landsbankans. Þar á meðal voru einstaklingar, góðgerðasamtök margs konar og sveitarfélög. Í skýrslu þingnefndarinnar er lagt til að ríkið greiði góðgerðasamtökum til baka það fé sem samtökin hafi tapað á hruni Icesave. Leggur nefndin á það áherslu að ekki verði um framtíðarreglu að ræða, heldur að aðstæður nú séu svo sérstakar að ástæða sé til að víkja í þessu einstaka tilfelli frá meginreglunni um ábyrgð fjárfesta á eigin gjörðum. Við núverandi aðstæður þurfi góðgerða- og líknarsamtök á öllu sínu að halda til að geta sinnt þjónustu sinni við þá sem höllum fæti standi í samfélaginu.

Hins vegar segir nefndin að sveitarfélög, sem tapað hafi fé í Icesave, þurfi að axla ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Þeim beri skylda til að ávaxta fé sitt með ábyrgum hætti. Afar rangt væri að verðlauna þau sveitarfélög, sem tapað hefðu fé í Icesave á meðan önnur sveitarfélög hefðu tekið minni áhættu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert