Bílastæðagjald í Landeyjahöfn

Herjólfur siglir nú stöðugt milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.
Herjólfur siglir nú stöðugt milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Rax / Ragnar Axelsson

Siglingastofnun Íslands hefur ákveðið að innheimta 1.000 kr. bílastæðisgjald fyrir bíla sem lagt er við Landeyjahöfn. Gjaldið gildir fyrir bílastæði alla helgina. Margir sem fara með Herjólfi á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum kjósa að geyma bíla sína í landi.

Sigmar Jónsson, hafnarstjóri Landeyjahafnar, sagði að Siglingastofnun hafi farið fram á að gjaldið yrði innheimt en vissi ekki nánar um hvernig tekjunum af þessu yrði varið. En eru komnir margir bílar á staðinn?

„Það er kominn hellingur af bílum, ég hef ekki tölu á þeim en þeir eru orðnir æði margir,“ sagði Sigmar. Hann sagði að ekki yrði bein gæsla á bílastæðinu en Herjólfur muni sigla nótt og dag yfir helgina og alltaf fólk á stjái á staðnum.

Mikil umferð hefur verið um höfnina og allt gengið að óskum. Um 4-5 starfsmenn eru í afgreiðslu Herjólfs og að auki eru 15-18 björgunarsveitarmenn og öryggisfulltrúar við gæslustörf við höfnina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert