Ósammála um reikniaðferðir

Menntaskólinn Hraðbraut.
Menntaskólinn Hraðbraut. mbl.is/Ómar

Um 20 milljónum kr. munar á útreikningi á uppgjöri menntamálaráðuneytisins og Menntaskólans Hraðbrautar fyrir árin 2004-2009. Skólastjórinn segir að allir útreikningar fram til þessa hafi reynst vera rangir, þar með talinn útreikningur Ríkisendurskoðunar. Þar muni rúmum 100 milljónum.

„Menn eru að deila um aðferðir en í rauninni munar mjög litlu á milli útreikningsaðferða hjá mér og ráðuneytinu,“ segir Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar.

Aftur á móti muni rúmum 100 milljónum á útreikningi Ríkisendurskoðunar miðað við útreikninga menntamálaráðuneytisins og sinna eigin. En samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar greiddi ríkið 192 milljónum kr. meira til Menntaskólans Hraðbrautar en því bar að gera á sjö ára tímabili.

Ólafur segist hafa reiknað þessa tölu niður í 65 milljónir kr. og menntamálaráðuneytið hafi fengið út 85 milljónir. „Það er ljóst að í 192 milljónum þá skeikar meira en 100 milljónum hjá Ríkisendurskoðun,“ segir Ólafur. 

Hann fundaði með menntamálaráðherra um stöðu skólans fyrr í þessum mánuði. Hann segir að þann 15. október sl. hafi útreikningur á uppgjöri menntamálaráðuneytisins og Hraðbrautar fyrir árin 2004-2009 farið fram í fyrsta sinn.

„Það munaði 20 milljónum þegar upp var staðið á aðferðum,“ segir Ólafur. „Ég held því fram að mín aðferð sé rétt og ráðuneytið gerir vafalítið hið gagnstæða.“

Skuldlaus um áramót

Útreikningur menntamálaráðuneytisins sýndi 20 milljóna kr. hærri skuld í árslok 2010 miðað við útreikning Ólafs. „Samkvæmt mínum útreikningum þá erum við í rauninni orðin skuldlaus um áramótin 2010,“ segir Ólafur og bætir við að ráðuneytið hafi lofað að útbúa minnisblað um útreikningana. Það hafi hins vegar látið á sér standa.

„Í rauninni skiptir ekki máli hvor aðferðin er notuð. Skólinn er með mun fleiri nemendur í skólanum heldur en hann er að fá greitt fyrir. Við munum, alveg sama hvor aðferðin er notuð, verða skuldlaus við ráðuneytið. Annaðhvort verður það um næstu áramót eða það verður í febrúar-mars á næsta ári.“

Engin skýr niðurstaða

Aðspurður segist Ólafur ekki hafa fengið skýr skilaboð frá ráðuneytinu varðandi framhaldið og því sé ekki komin nein formleg niðurstaða. Hann á von á því að verða kallaður á fund fjárlaganefndar Alþingis þar sem staðan verður reiknuð upp á nýtt. Ekki er búið að ákveða neina dagsetningu en mögulega verður af fundinum í næstu viku.

„Ég er nú að vona að ráðuneytið, í framhaldi af því, komi að borðinu og vilji semja aftur. Mér finnst svo glórulaust að leggja skólann niður. Ég er meira að segja búinn að gera ráðuneytinu tilboð um að þeir greiði minna til skólans heldur en til nokkurs annars skóla á landinu.“

Hann kveðst jafnframt aldrei hafa haft almennileg gögn í höndunum til þess að gera þetta upp fyrr en nú. „Til þess hefur alltaf vantað ráðuneytið að borðinu.“

Ólafur hefur skrifað þingmönnum bréf vegna málsins þar sem hann útlistar stöðuna. Bréfið er birt á vef skólans.

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar.
Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert