Eftirlit nauðsynlegt til að vernda bandarískar starfsstöðvar

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík.
Bandaríska sendiráðið í Reykjavík. mbl.is/Sverrir

Bandarísk yfirvöld segja að sendiráð og starfstöðvar þeirra um allan heim séu möguleg skotmörk. Því hafi þau eftirlit með þeim til að tryggja öryggi þeirra og starfsmannanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík vegna fyrirspurnar frá mbl.is.

Fram hefur komið í norskum og dönskum fjölmiðlum að teymi á vegum bandarísku sendiráðanna í Ósló og Kaupmannhöfn hafi haft það hlutverk að hafa leynilegt eftirlit í nágrenni við sendiráðin. Eru bandarísk yfirvöld í fréttunum beinlínis sökuð um njósnir.

Mbl.is spurði talsmann bandaríska sendiráðsins á Íslandi um viðbrögð við þessum fréttum og hvort slíkt eftirlit væri stundað hér á landi. 

Laura Gritz, talsmaður sendiráðsins, segir í yfirlýsingu að bandarísk yfirvöld veiti ekki nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið sé að öryggismálum. Eftirlit sé hins vegar nauðsynlegt enda allar starfstöðvar bandarískra stjórnvalda möguleg skotmörk. Því miður sé þetta staðreynd sem sprengjuárásir á bandarísk sendiráð í Austur-Afríku fyrir um áratug sýni glöggt fram á.

Gritz segir að bandarísk yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi standi, þá í samtarfi við innlend yfirvöld, til að verja starfstöðvarnar og starfsmenn, bæði Bandaríkja- og heimamenn.

Skv. heimildum mbl.is er um að ræða eftirlit með einstaklingum sem séu að fylgjast með bandarískum starfsstöðvum og mögulega að undirbúa árás.

Yfirlýsing bandaríska sendiráðsins er svohljóðandi á ensku:

„The U.S. government recognizes that our posts around the world are prospective targets. Tragically, there´s significant intelligence to back that up, including the bombings in East Africa a decade ago. We work with host governments to do everything we can to protect our diplomatic posts and personnel, including local staff. We do not divulge details of specific security programs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert